06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í C-deild Alþingistíðinda. (3929)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það er nú orðinn alllangur lesturinn hjá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). En það fyrsta, sem jeg held að jeg geti slegið föstu, eftir allar þessar umræður, er það, að Guðmundi Eggerz verði ekki gefin sök á embættisrekstrinum í Árnessýslu meðan hann var í fossanefndinni. Það liggur líka í hlutarins eðli, að ef stjórnin tók ekki gilda þá menn, sem hann útvegaði í sinn stað, þá varð hún að sjá um að útvega aðra. Þess vegna má slá því föstu, að honum verði engin sök gefin á því, hvernig farið var með embættið í fjarveru hans.

Hv. þm. (V.-Sk. (G. Sv.) er því kominn út fyrir efni fyrirspurnarinnar, þegar hann gerir veitingu hans fyrir sýslunni að aðalefni í umræðunum. En tilhneiging hans til að hallmæla embættisbróður sínum er svo rík, að hann fer út fyrir dagskrána.

Aðfinslur hans byrjuðu á því, að hann kvaðst furða sig á, að landsstjórnin hefði veitt Guðmundi Eggerz sýslumannsembættið í Árnessýslu.

Jeg tók það fram í gær, að mig furðaði á þessum ummælum hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þar sem skoðunargerð á embættisfærslu hans sýnir, að hann er með betri embættismönnum landsins.

Hv. þm. (G. Sv.) sagði, að ekki mundi hafa verið skipuð nein rannsókn á því máli. Hvernig gat það verið? Jeg átti heldur ekki við það, heldur að eins, að eftirlitsmenn stjórnarráðsins hefðu komist að þessari niðurstöðu. Og það vill nú svo vel til, að einmitt sá maður, sem hv. þm. (G. Sv.) tilnefndi, Klemens Jónsson, fyrverandi landritari, framkvæmdi skoðunargerðina á embættisfærslunni í Suður-Múlasýslu. Þau skjöl liggja frammi í stjórnarráðinu, og getur hver maður lesið þar, að hann fer um hann lofsamlegum orðum.

En nú segir hv. þm. (G. Sv.), að ekki sje mikið að marka þessar skoðunargerðir stjórnarráðsins, en sjaldan mun þó það hafa komið fyrir, að lofi hafi verið lokið á þá, sem illa hafa staðið í stöðu sinni. Og meira hygg jeg að mark megi taka á óhlutdrægum dómi stjórnarráðsins nú heldur en pólitískum dómi óvildarmanns, sem ekkert hefir rannsakað málið.

Reikningar sýslumanns hafa allir verið úrskurðaðir, og er þar ekkert við að athuga.

Á embættisrekstri hans í Árnessýslu hefir ekki verið framkvæmd nein skoðunargerð, enda var hann þar ekki nema eitthvað tvo mánuði. En mjer er kunnugt um, að þar var embættisrekstur sýslumanns einnig í besta lagi.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) drap á það, að Klemens Jónsson hefði einhverju sinni skrifað Guðm. Eggerz mjög harðort brjef. Það getur vel verið.

Jeg veit til, þó það væri ekki í minni ráðherratíð, að hann var einu sinni rukkaður um nokkur þúsund krónur, sem hann átti að greiða í landssjóð, og það nokkuð harkalega. En eftir á var það sýnt og sannað, að hann hafði þegar greitt það fje fyrir löngu, þegar rukkunin kom. Stjórnarráðið varð því að biðja hann afsökunar fyrir misgáning sinn.

Og þetta var þá hið harðorða brjef, sem hv. þm. (G. Sv.) átti við, en öðrum en sýslumanni verður það til lasts.

Jeg get því ekki sjeð, þrátt fyrir hinn góða vilja hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á því að sakfella þennan embættisbróðir sinn, að hann hafi sannað á hann eina einustu sök, er rjettlæti það, að hann skuli vera dreginn á þennan hátt inn í umr. þessar.

Þá var eitt enn, sem fundið var honum til foráttu, en það var, að hann hefði, er hann var sýslumaður í Suður-Múlasýslu, sótt um lausn frá embætti eða sagt af sjer sýslunni. Mjer er kunnugt um, að einhver ágreiningur var þá milli hans og þáverandi ráðherra (E. A.). Guðmundur Eggerz hafði þá verið lasinn í heilt ár og hafði fengið frí. En þáverandi ráðherra (E. A.) mun ekki hafa verið honum neitt sjerlega hlyntur, enda kom það fyrir um fleiri embættismenn, að þeir fundu ekki náð í augum hans. Nægir þar að benda á viðskifti hans og þáverandi bankastjóra Björns Kristjánssonar, og svo mun hafa verið um fleiri, að þeir nutu ekki náðar hans.

En Guðmundur Eggerz hætti við að segja af sjer, og skal jeg upplýsa fyrir hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ástæður þær, sem til þess lágu. En þær voru það, að hann fjekk eindregna áskorun frá 400–500 sýslubúum um að halda embættinu áfram. Þessar áskoranir benda ekki á það, að hann hafi verið þar illa liðinn. Í öðru lagi má benda á það, að hann var kosinn þingmaður fyrir sýsluna. — Sömuleiðis er það kunnugt, að þegar hann var sýslumaður í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu, þótti festum þar mjög vænt um hann.

Þótt þessi maður sje skyldur mjer, hefi jeg talið mjer það skylt að taka þetta fram, þar sem nú í langan tíma hefir verið reynt að draga hann inn í stjórnmál, sem hann alls ekki hefir blandað sjer inn í, og hann hefir verið skammaður bæði í blöðum og ræðum, án þess að nokkur skilji ástæðuna. (G. Sv.: Það er bróðir hans, sem hefir dregið hann inn í þær umræður). Þarna kemur það. Það er bróðir hans, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vill lumbra á með þessu. Þetta á óbeinlínis að vera árásarefni á stjórnina. Og svo þá blandað með óánægju yfir því, hve fossanefndarstörf Guðmundar Eggerz gengu vel.

Jeg hefi lengi látið þetta mál afskiftalaust, en jeg vil nú, að alþjóð viti, að ekkert er að athuga við embættisfærslu Guðmundar Eggerz.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði, að Guðmundur Eggerz hefði blandað sjer inn í „Forretningar“. Það getur vel verið. Honum ætti að vera kunnugt um það, að laun þessara embættismanna eru ekki hærri en svo, að ef þeir eiga ekki að fara á sveitina, verða þeir að vinna eitthvað utan hjá, þó að þetta sje ekki gott. Sýslumannsembættið í Árnessýslu er að minsta kosti ekki glæsilegra en það, að næstum er ómögulegt að fá mann þangað. En hv. þm. hlýtur að skilja, að fyrir þetta er óþarfi að draga Guðm. Eggerz inn í þessar umræður. Honum væri nær að flytja aðra fyrirspurn um það, ef hann vill betur um það fræðast.

En ef hann ætar að ganga á röðina og ráðast eins á hina aðra embættisbræður sína eins og hann nú ræðst á Guðmund Eggerz, þá öfunda jeg ekki hv. þm. (G. Sv.) af því starfi.

En þeir munu til vera, sem telja þessar umr. einberan hjegóma í samanburði við ýms stórmál, sem fyrir þessu þingi liggja, og verði þeim umr. haldið áfram, gæti svo farið, að vegur þingsins minkaði. Og jeg verð að telja það mjög varasamt að gera svona útúrdúra, sem sprotnir eru af pólitísku hatri einstakra manna.

Í umræðunum um Guðmund Eggerz í gær og í dag — hvort rætt verður um hann á morgun líka, veit jeg ekki — var vikið að fossanefndarstörfum hans. Um það get jeg nú gefið þær upplýsingar, að þeim er nú lokið. Í kveld mun síðara heftið af ritgerð hans verða sent hingað á þingið. En ef dæma á hann fyrir starf hans í fossanefndinni, þá getur sá dómur að engu leyti bygst á því, að fjármálaráðherrann hafi komið honum í nefndina.

Jeg sagði, að margir hefðu fallist á skoðun hans í því máli. Og það er ekki heldur langt síðan, að borin var fram þingsál. af helstu mönnum þessarar hv. deildar, sem fer í þá átt, að skora á stjórnina að framkvæma þær ráðstafanir, sem hann flytur till. um í ritgerð sinni. Það er því ekki ofmælt af mjer, að fallist hafi verið á till. hans í málinu.

Annars get jeg altaf vorkent hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þegar hann flytur slíkar ræður, sem hann nú hefir gert.

Og þess vildi jeg óska, fyrir hans hönd, að hann reyndi hjer eftir að haga orðum sínum á annan veg.