06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í C-deild Alþingistíðinda. (3931)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Björn R. Stefánsson:

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) er nú „dauður“, en þar sem honum hefir verið borið það á brýn, að botninn hafi verið götóttur, þá býst jeg við, að hann, í stuttri athugasemd, reyni að fá að bora í eitthvað af götunum. Annars ætla jeg ekki að þessu sinni að ráðast á ræður hv. þm. (G. Sv.), svo að honum mun gera það lítið, þótt hann sje „dauður“, þess vegna. En af því, að hann hefir altaf smám saman verið að vitna í embættisfærslu Guðmundar Eggerz í Suður-Múlasýslu, og ástandið yfirleitt í þeirri sýslu, meðan Guðmundur Eggerz var þar, vildi jeg segja nokkur orð, því mjer finst hv. þm. (G. Sv.) tala þar af helst of miklum ókunnugleika, sem jeg mun einna færastur að leiðrjetta, þeirra manna sem hjer geta lagt orð í belg. — Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) talaði um, að það væri alkunna, að mikið hafi verið róstusamt í Suður-Múlasýslu í tíð Guðmundar Eggerz. Það er að vísu ekki alveg tilhæfulaust, en þær óeirðir komu ekki af embættisfærslu hans. Svo stóð á, að lengi hafði verið deila innan hjeraðs um ákveðið mál, aðallega milli fjarðarbúa og Hjeraðsbúa. Þegar nú Guðmundur Eggerz kom í sýsluna, varð hann, sem oddviti sýslunefndar, að taka vissa afstöðu til þessara mála. Var hann, sem duglegt yfirvald, er vill láta dálítið að sjer kveða og einhver afskifti vill hafa af hjeraðsmálum, að taka afstöðu öðru hvorum megni, og stóð þá framarlega í þeim flokkinum, sem hann aðhyltist, og varð því sá flokkurinn, sem hann lagðist á móti, honum allandvígur. Sje jeg ekkert óvanalegt eða vitavert við það, þótt þeir, sem gefa sig við opinberum málum, hvort heldur embættismenn eða aðrir, fái andstæðinga. Ekki sje jeg heldur, að það sje neitt ámælisvert, þótt hann, sem sýslumaður, færi að gefa sig við stjórnmálum og gerðist þingm. sýslubúa, og býst jeg ekki við, að hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) finnist það heldur nokkuð sjerstaklega athugavert. Það er ekki nema eðlilegt og venjulegt, að þar, sem eru tveir harðvítugir pólitískir flokkar, verði þeir, sem framarlega standa í þeim flokkum, fyrir talsverðu aðkasti, og svo var hjer, en aldrei heyrði jeg, eða vissi til, að deilur í Suður-Múlasýslu risu út af embættisfærslu Guðmundar Eggerz. Deilumálin voru mest út af innanhjeraðsmálum, og býst jeg við, að slíkra óeirða gæti víðar, þó ekki sje minst á það hjer.

Jeg hefi altaf heyrt það sagt, að Guðmundur Eggerz þætti góður lögfræðingur, en svo heyrðist mjer það í gær á hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að hann vildi gera lítið úr lögvísi hans í fossanefndarstarfi hans, og hefði fossanefndin orðið að fá sjer annan lögfræðing, er betur var því starfi vaxinn. En það verð jeg að segja, að mjer finnast engu hæpnari forsendur þær, sem hann byggir niðurstöðu sína á, heldur en forsendur lögfræðinga hv. meiri hluta fossanefndar. Jeg segi lögfræðinga, því mig minnir ekki betur en að hv. þm. Dala. (B. J.) hafi viljað láta telja sig ekki ólögvísari en þessa lærðu lögfræðinga hjer á þinginu. Þess vil jeg biðja menn að gæta, að jeg hefi hjer að eins talað um forsendurnar, en ekki niðurstöðurnar, sem þessir menn komust að, því um þær segi jeg ekki neitt að svo stöddu.

Annars hefir mjer, eins og hæstv. fjármálaráðherra (S. E.), fundist liggja nokkuð annað á bak við hjá hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) heldur en eintóm heilög vandlætingarsemi, eins og hann vildi fá menn til að trúa í gær. Jeg hjó meðal annars eftir því, að þegar hæstv. forsætisráðherra (J. M.) sagði, að rekja hefði mátt söguna um rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu lengra heldur en háttv. fyrirspyrjandi (E. A.) gerði, og að næstu tvö árin áður en Guðmundi Eggerz hafði verið veitt Árnessýsla hefði hún verið sýslumannslaus, þá sagði hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að það kæmi ekki þessu máli við. (G. Sv.: Það sagði jeg aldrei). Hv. þm. (G. Sv.) misminnir, því jeg tók svo vel eftir, hversu mikil mótsetning var fólgin í þessu svari hans. Ef hann hefði líka aðeins borið hag Árnesinga fyrir brjósti, þá hefði þetta engu síður skift máli en það, að sýslan hafi verið sýslumannslaus í tíð Guðm. Eggerz.

Að endingu vil jeg láta þess getið, að jeg var andstæðingur Guðmundar Eggerz í því innanhjeraðsdeilumáli, sem jeg hefi á minst, og einnig — eins og kunnugt er — andstæðingur hans í pólitikinni, og keppinautur hans um þingsetu fyrir hjeraðið, en þetta hvorttveggja var embættisfærslu hans óviðkomandi. Hana gat jeg litið rjettu auga fyrir því.