06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í C-deild Alþingistíðinda. (3932)

78. mál, rekstur sýslumannsembættisins í Árnessýslu

Fyrirspyrjandi (Einar Arnórsson):

Jeg fyrir mitt leyti get nú slegið botninn í þetta mál. Veit jeg ekki, hvort menn verða ánægðari með þann botn en botn hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), en efniviðinn í minn botn lagði hæstv. forsætisráðherra (J. M.) til. Hann lýsti því sem sje yfir, að umræddur sýslumaður færi til sýslu sinnar að nokkrum dögum liðnum, þar eð hann hafi nú lokið störfum sínum í fossanefndinni. Með þessum ummælum hæstv. forsætisráðherra (J. M.) finst mjer botninn vera sleginn í málið, því að spurningin hljóðar um það, hversu lengi sýslan eigi að vera í því reiðileysi, sem hún hefir verið í nú um hríð.

Í ræðu hv. fjármálaráðherra (S. E.) fann jeg ekkert verulegt, er jeg tel varða fyrirspurnina. Mjer er ekki kunnugt um, að í ráðherratíð minni hafi verið neinn kurr eða óvild milli mín og Guðmundar Eggerz, því að jeg tel það ekki, þótt okkur hafi greint á um skilning á vissum lagastöðum, og er sýslumaðurinn ákvað að taka aftur uppsögn sína, leit jeg svo á, að þá væri því máli lokið.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) var eitthvað að minnast á reglur þær, sem hann fylgdi í embættaveitingum. Það finst mjer koma lítið málinu við, enda voru þær ekkert frábrugðnar þeim, er alment tíðkast. Þó get jeg mint hæstv. forsætisráðherra (J. M.) á, að hann hefir ekki æfinlega fylgt þessum gullvægu reglum, því að 1918 ljet hann yngri mann, bæði að árum og embættisaldri, sitja fyrir eldri manni. Man jeg, að blað hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) vítti þetta mjög kröftuglega og kallaði megnustu hlutdrægni. (Fjármálaráðh.: Jeg var ekki ritstjóri að blaðinu). Nei, en þar sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) er einn af aðalstuðningsmönnum blaðsins, og átti eflaust mikið í því, má gera ráð fyrir, að hann geti ráðið því, hvað birtist þar.