20.09.1919
Neðri deild: 69. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í C-deild Alþingistíðinda. (3939)

162. mál, aðflutningsbann á áfengi

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er að vísu leyfilegt að bera upp hverja fyrirspurn sem vera skal. En það er dálítið leiðinlegt að svara fyrirspurn, sem ræðst á dómstólana.

Ef löggjafarvaldið vill, að dómstólarnir sjeu sem allra frjálsastir og ekki undirgefnir umboðsvaldið, sem er sjálfstætt vald, þá er dálítið varhugavert að koma með fyrirspurn, sem felur í sjer aðfinslur við rjettvísina, í efnum, sem hún hefir rjett til að dæma. En að sjálfsögðu er þetta leyfilegt. Málið er í sjálfu sjer mikilsvert.

Í forminu er hjer ekki spurt um dóm, heldur það, hvort dómi hafi verið árfýjað. En þetta er svo saman tvinnað, að fyrirspurn, sem bindur slíkt í sjer, sýnist ekki ætti að koma fram.

Í síðara málinu er ekki að ræða um dómsniðurstöðu, heldur forsendur. En jeg hygg, að dómi hafi aldrei verið áfrýjað til hæstarjettar vegna forsenda. En flm. (P. O.) lagði ekki heldur mikla áherslu á þetta atriði.

Hitt málið sá jeg aldrei. Jeg var fjarstaddur meðan því var lokið. En um ástæðuna fyrir því, að því var ekki áfrýjað, get jeg sagt það, að það hefir verið föst regla, að minsta kosti síðan ráðherra varð búsettur hjer á landi, að áfrýja aldrei lögreglumálum til hæstarjettar af hálfu hins opinbera, vegna þess, að stjórnin hefir litið svo á, að yfirrjettur ætti að vera í raun og veru sama sem hæstirjettur, þegar ekki væri um sakamál að ræða. Og stjórnin hefir ekki borið lögreglumál undir hæstarjett, nema hún væri til neydd.

Þetta hygg jeg að hafi verið sameiginlegur vilji allra stjórna síðan 1904.

Fyrir mjer hefir vakað, að það væri sjálfsagt að una við þá dóma í þessum málum, sem við hefðum upp kveðið sjálfir, og láta þá ekki fara lengra, jafnvel þó að þeir væru ekki rjettir, að sumra skoðun, sem jeg skal ekkert segja um í þessum tilfellum. Jeg get sagt það fyrir mig, að mjer hefði ekki komið til hugar að leita úrskurðar erlends dómstóls.

Þessar ástæður munu hafa vakað fyrir dómmáladeildinni, að hún áfrýjaði ekki fremur þessu máli en öðrum slíkum málum. Þetta hefir sem sje verið undantekningarlaus meginregla.

Reyndar má segja, að komið geti til tals, að málið bíði íslensks hæstarjettar. Um það skal jeg ekki segja. En jeg hygg, að ekki fengist, þó að fast væri eftir leitað, að áfrýja málinu að nauðsynjalausu til annars ríkis.