04.08.1919
Neðri deild: 24. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í C-deild Alþingistíðinda. (3970)

108. mál, sala á prestssetrinu Hvanneyri og kirkjujörðinni Leyningi í Siglufirði

Einar Arnórsson:

Mjer skildist á ræðu hv. 1. þm. Eyf. (St. St), að búið væri að leigja sumt af þessu landi. Ef svo er, þá aukast ekki umráð bæjarins, þótt hann kaupi landið, því sennilega verður það að sætta sig við þá samninga, sem fyrir eru. Hv. þm. (St. St.) sagði, að meðan landið væri í eigu annara ætti bærinn altaf undir högg að sækja um lagningu gatna o. s. frv. Jeg get hjer gefið honum annað ráð en það að kaupa landið. Ef ekki er til lögnámsheimild, þá er hægt að afla hennar. Það er vafningalítið. Annars er það þýðingarmikið og vert athugunar, hvort landið á að farga góðri eign, sem svo er vel í sveit komið, sem þetta land er. En hitt er sjálfsagt, að kaupstaðurinn gangi fyrir að fá landið leigt, ef hann þarfnast þess.