22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (3972)

83. mál, hvíldartími háseta

Frsm. minni hl. (Sveinn Ólafsson):

Eins og nál. á þgskj. 373 ber með sjer, hefir minni hl. nefndarinnar ekki getað orðið meiri hl. samferða í þessu máli. Það getur að vísu verið álitamál, hve langt eigi að ganga í þessu deiluatriði, en hjer er um beinan stefnumun að ræða milli meiri hl. og minni hl. Jeg veit, að hv. þm. hafa kynt sjer þetta mál rækilega, og þarf jeg því ekki að vera fjölorður. Þó vil jeg benda á, að meinleg prentvilla hefir slæðst inn í nál. meiri hl., sem gerbreytir merkingu setningar sinnar. Þar stendur: „Aðalspurningin í þessu máli verður ekki um þörfina á löghelguðum hvíldartíma.“

Eins og gefur að skilja, á þetta „ekki“ að falla burt þarna. Enda er handritið til sýnis hjer, sem ber þess ljósan vott, að hjer er um prentvillu að ræða, en ekki ritvillu.

Á mál þetta verður að líta eins og tilraun til að greiða úr deilu milli útgerðarmanna og háseta, en eins og allir mega sjá, eru líkurnar mestar til þess, að eigi valdi þar að öllu annar aðili deilunni. Og þegar ágreiningsatriðið er jafnstórvægilegt og er hjer milli háseta og útgerðarmanna, þá er ekki rjett að ganga alveg fram hjá því, sem annar aðilja ber fram fyrir sínum málstað. Það kann nú vel að vera, að kvartanir og kröfur frá hálfu háseta hafi verið óbilgjarnar. En það útilokar ekki á neinn hátt, að þeir hafi eitthvað til síns máls. Og að sjálfsögðu hafa sumir þeirra, sem kvartað hafa, gert það af fullgildum ástæðum. Til þess að ganga úr skugga um þetta hefi jeg spurt mig fyrir hjá reyndum mönnum, sem þekkja vel til þessa, — því sjálfur hefi jeg ekki reynt togaraveiðar — og svörin hafa fallið á þann veg, að áður fyr hafi verið mikil ástæða til umkvartana, og hásetum iðulega misboðið með ofþreytu og vökum; nú sjeu minni brögð að því, en þó svo mikil, að þróttminni mönnum sje um megn. — Sjálfur þekki jeg nokkra menn á Austurlandi, sem stundað hafa fiskveiðar á botnvörpuskipum hjer sunnanlands. Og allir kvörtuðu þeir undan harðneskjulegum vinnubrögðum, sem tíðkuðust þegar afli væri ör. Tveir af þessum mönnum eru nú nokkuð við aldur, og heldur heilsutæpir, og báðir kenna þeir heilsubrest sinn þeim vökum og því erfiði, sem þeir áttu við að búa, meðan þeir fengust við þessar botnvörpuveiðar, en hvorttveggja þessara manna er skilorður og orðvar. Vitanlega má rengja slíka skýrslu og kenna öðru um heilsubrestinn, en slík renging sannar ekki það gagnstæða. Hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hjelt því fram, að ef frv. þetta yrði samþ., þá þyrfti að setja samskonar lög um hvíldartíma við önnur vinnubrögð, t. d. bæði heyvinnu og síldarvinnu. Þetta er marklaus viðbára. Við landvinnu er þessu skipað eftir fornri venju, svo að hvíld er veitt þegar þörf krefur, nema alveg sjerstakar ástæður komi til, og komi þar fyrir kappvökur, þá munu þær oftast af frjálsum vilja gerðar, svo sem við hjúkrun sjúklings, dagþrot á ferðum o.s.frv. Strangt til tekið hefir enginn húsbóndi rjett til að láta hjú sitt vinna svo lengi samfleytt, að það hafi ekki nægan svefn. En í siglingalögunum er ekkert ákvæði, sem bannar það. Sjómaðurinn er skyldur til að hlýða skipstjóra, hve nær sem hann skipar verk. En það er hætt við, og ekki ósennilegt, að skipstjórar noti sjer þennan rjett sinn, þegar svo ber undir, og misbjóði mönnum sínum.

Þá gat hv. frsm. meiri hl. (M. Ó.) þess, að hann hefði sjálfur tekið þátt í sjómensku, og oft og einatt haft langar vökur, jafnvel mörg dægur, án þess þó, að hann hefði kent sjer nokkurs meins. Mjer þykir satt að segja sagan fremur ósennileg og undarlegt, ef hann hefir aldrei verið eftir sig eftir slíkar þrautir. En þó að hann hafi sloppið án þess að líða varanlegt heilsutjón af þessu, þá sannar það ekki annað en það, að hann er hreystiskrokkur, sem á fáa sína líka. Háttv. frsm. (M. Ó.) var þeirrar skoðunar, að við ástandið — óregluna — mætti bjargast, eins og hefir verið hingað til, án þess að setja um það lög. Mjer skildist á háttv. þm. (M. Ó.), að hann gerði sig ánægðan með, ef hásetar fengju t. d. 12 kl.-tíma hvíld annan hvern dag, eða þá enn lengri hvíld þriðja hvern dag. Mundi háttv. þm. (M. Ó.) þá ekki hreint og beint vilja leggja til, að hásetar fengju að sofa fjórðu hverja viku, en vinna samfleytt hinar þrjár? Jeg hygg, að langar vökur geti verið hættulegar engu síður fyrir það, þó menn fái að sofa eftir á. Þess eru dæmi, að þeir, sem vakað hafa samfleytt í tvo sólarhringa, hafa ekki getað sofið, þegar þeir áttu kost á því. Jeg skal svo ekki fást meir um það, sem hv. frsm. meiri hl. (M. Ó.) sagði. Hv. deild gefst nú kostur á að skera úr um þetta með atkvæðum. En eins og fram er tekið í áliti minni hl., tel jeg sjálfsagt að sinna að nokkru ósk háseta og skipa málinu með lögum, en þó með þeirri varfærni, að ekki sje að óþörfu tekið fram fyrir hendur aðilja. Miðlunar tel jeg sjálfsagt að leita um þetta, eins og öll slík deilumál. Jeg legg því til, að hinn lögboðni hvíldartími sje ákveðinn 6 stundir á sólarhring, fyrir 8 í frv., og tel öllu með því borgið, þar sem hjer er um lágmark tímans talað.

Enn fremur hefi jeg lagt til, að 4. gr. frv. falli burt, um það, hve nær lögin gangi í gildi. Það virðist eigi þurfa að flýta þeim frekar en mörgum öðrum lögum þingsins. Fleira ætla jeg ekki að segja um mál þetta að sinni, en bið átekta.