19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Pjetur Jónsson:

Jeg hefi gert mjer það að skyldu undanfarið, bæði á þingi í fyrra og nú, að greiða atkv. með öllum tillögum um tekjuauka, hve leiðinlegar — og mjer liggur við að segja vitlausar — sem þær hafa verið. Jeg greiddi í fyrra atkvæði með stimpilgjaldinu, sem mjer þótti ekki neitt fráleitt gjald á útflutninginn, eftir því sem á stóð, en líkaði illa að formi. Mjer geðjaðist illa að því, að það kom ekki fram sem reglulegt útflutningsgjald, er legðist á framleiðendur krókalaust, þar sem öll slík gjöld lenda og eiga að lenda að síðustu.

En nú, þegar leitað er þeirra ráða, að hækka útflutningsgjald af fiski, lýsi og öðrum sjávarafurðum, þá hefði mjer þótt heppilegra, að stjórnin hefði lagt það á sig að ná þessu gjaldi á annan sanngjarnari og heppilegri hátt.

Jeg hefi orðið þess var sjerstaklega, að sjávarútvegsmönnum hafa þótt öll útflutningsgjöld ósanngjörn, sjerstaklega þegar þau eru jöfn, hvort sem þeir stórskaðast á útgerðinni eða græða. Er það ekkert óeðlilegt. Þegar útgerðarmaðurinn gerir upp reikninga sína, og kemst að því, að hann hefir skaðast á öllum sviðum, þá er ekki nema eðlilegt, að honum þyki alltilfinnanlegt að bæta stórri skattgreiðslu við skaða sinn.

Stjórnin hefði nú ekki þurft lengi að leita til að finna skatt, sem svo er fyrir komið, að hann verði ekki hár, ef menn hafa skaðast. Jeg hefði því álitið hana gera þarft verk, ef hún hefði komið á verðhækkunargjaldi í nýrri mynd, og komið af stimpilgjaldinu, jafnframt og hún að auki hækkaði gjaldið svo á normalverði, að næmi eigi minna en eftir fyrirliggjandi frv. Það hefði jafnvel með slíku verðhækkunargjaldi mátt leysa af gamla útflutningsgjaldið á fiski og lýsi.

Það var aðalannmarkinn á verðhækkunargjaldinu um árið, til þess að það yrði til frambúðar, að skattfrjálsa verðið var tiltölulega of hátt, og skatturinn gat því alveg horfið af vörunni, en eftirlit með gjaldinu og fyrirhöfn stóð eftir sem áður. Það er misskilningur, að allur sá hluti vöruverðsins, sem lendir í kostnað, þurfi að vera gjaldfrí. Þessi kostnaður er svo misjafn og hvikull eftir atvikum og verður einungis áætlaður. Jeg álít þess vegna, að ef verðhækkunartollur yrði í lög leiddur, þá ætti ekki að hafa gjaldfrítt nema nokkurn hluta af framleiðslukostnaðinum.

Verðhækkunargjaldi mætti koma svo fyrir, að nokkur hluti vöruverðsins, sem gengi í kostnað. væri alveg gjaldfrítt. Næsti hluti verðsins væri með lágu gjaldi, og þó svo að gjaldið hyrfi aldrei alveg af vörunni. Þriðji hlutinn af vöruverðinu, sem að jafnaði yrði hreinn gróði fyrir útgerðina, bæri svo hátt gjald.

Jeg er orðinn talsvert kunnugur þessum málum síðan árið 1915, þegar jeg var í nefnd þeirri, sem fór með þau þá á þingi. Leitaði jeg þá upplýsinga ýmsra í bænum og hafði stuðning margra góðra manna við samning frv. þá. Og jeg er þess fullviss, að svona verðhækkunargjald mundu menn fella sig best við. Viðvíkjandi brtt. á þgskj. 73 og þeim athugasemdum, sem fram hafa komið við þær um of mikla hækkun á landbúnaðarafurðum, þá vil jeg ekki fyrir mitt leyti, að bændur fari að setja sig upp á móti hækkun, þó að útgjöldin til landbúnaðar undanfarin ár hafi stöðugt farið lækkandi. Því mjer finst ekki vert, að bændur dragi sig í hlje, heldur auri saman í landssjóðinn, ekki síður en aðrir; ekki mun af veita.

Nú verður t. d. ekki hægt framvegis að halda uppi Búnaðarfjelagi Íslands, nema með því að hækka styrkinn til þess afarmikið. Líka skal jeg benda á, að ef vegirnir eiga að fá bætur, þótt ekki sje nema í samræmi við það, sem var fyrir styrjöldina, þá verður að þrefalda upphæðina til þeirri úr landssjóði; ella kemur afturkippur í öll vegamálin. Jeg tek þetta fram til þess að benda á, að ekki sje heppilegt fyrir bændur að veigra sjer við eða metast um það, að aura saman í landssjóðinn.