19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg leyfi mjer að þakka hv. deild fyrir góðar undirtektir við þetta frv., og get verið samþykkur brtt. á þgskj. 63. Brtt. á þgskj. 73 munu, eins og bent hefir verið á, fram komnar til þess að skapa meira jafnvægi milli útgjalda sjávarútvegsins og landbúnaðarins, og svo til að auka tekjur landssjóðs. Jeg verð nú að játa, að það er mjög erfitt að finna hið rjetta hlutfall þar á milli. Jeg hefi sjálfur gert athuganir um það, en þær eru ekki svo ítarlegar, að jeg treysti mjer til þess að sýna, hvernig hlutfallið á að vera, enda mun það allerfitt.

Aðalástæðan til þess, að stjórnin hefir komið fram með frv. um hækkun á ábúðarskatti, var einmitt sú, að reyna að hafa nokkurt jafnvægi á milli atvinnuveganna.

Jeg býst yfirleitt við því, að landbúnaðarmenn uni því betur, að skattar sjeu hækkaðir á gömlu skattstofnunum, en að nýir skattastofnar sjeu innleiddir, rjett áður en endurskoðun á skattamálunum fer fram.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) tók það fram, að ýmsir skattar hefðu verið samþyktir á undanfarandi þingum, sem sjer hefðu verið mjög ógeðfeldir, og tók stimpilgjaldið til dæmis. Jeg held nú, að menn þvert á móti megi yfirleitt gleðjast yfir þeim skatti, því hann hefir mjólkað landsjóðnum drjúgt, án þess að koma þungt niður á mönnum alment.

Hv. sami þm. (P. J.) vildi láta breyta stimpilgjaldinu og útflutningsgjaldinu í verðhækkunarskatt. En sá skattur átti mjög litlum vinsældum að fagna hjer í þinginu, og óvíst, hvort hann hefði hafst fram. Nú, og náist engin verðhækkun á vörunni, þá getur ekki verið um neinar tekjur í landssjóð að ræða af verðhækkun. En þannig lagaður skattar, jafnótryggir og breytilegir, geta ekki komið að haldi. Landssjóður verður að hafa tryggingu fyrir, að tekjur komi inn, verður að hafa vissar tekjur, en ekki óvissar. Og á tímum eins og verið hafa undanfarið er ómögulegt að taka með silkihönskum á gjaldendum.

Jeg hefi svo ekki meira um málið að segja, en vona, að hv. deild leyfi því framgang.