19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg vil þakka hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fyrir undirtektir hans, því nú er þó komið dálítið annað hljóð í strokkinn en 1917, svo honum hefir farið fram síðan í hitteðfyrra, og er það gleðilegt.

Hv. þm. (M. Ó.) lagði þá spurningu fyrir deildina, hvort tilætlunin væri, að útlendur skipstjóri, sem kæmi hjer inn á höfn, ætti að greiða þetta nýja gjald af ísfiski. Þar til er því að svara, að gamall úrskurður er um, að útlendur skipstjóri, sem umhleður fiski á höfn hjer á landi, greiði eigi útflutningsgjald, en eftir frv., er opin leið til nýs úrskurðar um, hvort þetta eigi að haldast áfram.

Árið 1917 reyndi jeg að sýna hv. þm. fram á, að það væri alls ekki rjett, að meiri skattar hvíldu hlutfallslega á sjávarútveginum en landbúnaðinum. Var það í engu hrakið þá, og er því eigi þörf á að endurtaka það hjer, og vísa jeg því í þessu efni til þingtíðindanna 1917.

Stimpilgjaldið, ábúðarskatturinn og tekjuskatturinn, alt eru þetta skattar, sem koma jafnt niður á báðum atvinnuvegum. Hvaða skatta á þá hv. þm. (M. Ó.) við?

Hv. þm. (M. Ó.) sagði, að það kostaði jafnmikið að framleiða eitt skpd. af fiski og eina tunnu af kjöti. Jeg held, að þetta sje svipuð „logik“ eins og þegar hann sagði, að það þyrfti því meira eftirlit með sparisjóðum, sem þeir væru minni.

Þegar hv. þm. (M. Ó.) var að tala um æðardúninn, þá gægðist upp hjá honum, hve vinnan væri dýr. En ætli kaupgjaldið hafi ekki hækkað hlutfallslega jafnt, hvort sem vinnufólkið vinnur við að hreinsa æðardún eða við að hirða skepnur? (S. St.: Ekki er það nú alveg.)

Aðalástæðan til þess, að nefndin mælti á móti brtt., er því sú, að gjöldin, sem á að koma á með þeim, valda ósamræmi en ekki samræmi á milli atvinnuveganna, auk þess sem þau yrðu svo lítil, að landssjóðinn munaði sáralítið um þau. (E. A.: Þá munar landbúnaðinn heldur ekki um þau). Jeg vona þess vegna, að hv. deild snúi orðum hv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) við, þannig að hún taki ekkert tillit til orða hans, heldur fari eftir till. nefndarinnar.

Þá vil jeg snúa mjer með fáum orðum að hv. þm. S.-Þ. (P. J.), og skal taka það fram, að jeg býst alls ekki við, að fjárhagsnefnd sje tilleiðanleg til að taka upp verðhækkunartollinn aftur. Því auk þess sem sá tollur er óviss, þar sem búast má við, að afurðir lækki, var skattur þessi ákaflega óvinsæll, og komið annað gjald í hans stað, sem er stimpilgjaldið.

Nefndin getur ekki sagt neitt um afdrif frv. um hækkun á ábúðarskatti, en hætt er við, að hún verði ekki fús á að mæla með því, ef brtt. á þgskj. 73 ná fram að ganga.