03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. samvinnunefndar samgöngumála (Björn R. Stefánsson):

Samgöngumálanefnd hefir lagt til að gera allverulegar brtt. við 13. gr. C. fjárlaganna að þessu sinni, og verð jeg að gera nokkru frekari grein fyrir þeim en gert er í nál.; þó ætla jeg mjer ekki að flytja neinn fyrirlestur almenns eðlis um það, hvaða þýðing samgöngur hafi yfirleitt. Jeg vil forðast þann hjegóma, sem hjer bryddir nokkuð á, er menn halda langar ræður um málefni, og hafa það eitt að segja, sem allir geta sagt sjer sjálfir.

Til strandferða í ár eru veittar 155,700 kr., en þar við bætist væntanlegt tap á ferðum Sterlings, sem ekki er hægt að segja hve miklu muni nema. Síðastliðið ár var tapið á þeim ferðum 196 þús. kr. En að auki er ófært inn á þann reikning, eftir því, sem jeg hefi alveg nýlega fengið að vita hjá Nielsen framkvæmdarstjóra, nálægt 50 þús. kr. í rentur, svo að alls mundi tapið nema nálægt 240 þús. kr.

Það má nú tæpast gera ráð fyrir minna tapi af ferðum Sterlings í ár en í fyrra. Þess ber að gæta, að í fyrra sigldi Sterling jafnan með fullri „fragt“ til og frá Reykjavík. En í síðustu ferðunum hefir skipið nálega verið tómt til Reykjavíkur. Auðvitað hefir kolaverð lækkað, svo að stórfje sparast við það, en þess ber þá að gæta, að farmgjöld hafa verið mjög færð niður, líklega sem svarar nálægt 25%. Þegar hjer við bætist það, að skipið siglir oft með hálfa ,,fragt“ eða ekki það, þá virðast engar líkur til þess, að tapið verði minna en í fyrra, enda er það álit herra Nielsens, að svo muni reynast. Við getum því sagt, að ferðir þær, sem hjer um ræðir, kosti nú 350–390 þús. kr. á ári.

Till. stjórnarinnar um fje til strandferða 1920 og 1921, 154,450 kr. fyrra árið og 140,950 kr. síðara árið, nær ekki nokkurri átt. Hæstv. stjórn áætlar ekki nema 50 þús. til strandferða (þ. e. Sterlingsferða), en fyrir fengna reynslu af ferðum Sterlings hefir stjórnin með engu móti getað áætlað minna en 150 þús. kr. eingöngu til þeirra ferða, því ekki er annað sjáanlegt af frv. stjórnarinnar en að hún hafi gert ráð fyrir sama fyrirkomulagi um ferðirnar framvegis sem nú er.

Stjórnin hefir og tekið upp sömu bátana sem áður, en með lægri styrk, en felt þó niður einn bát, sem nú hefir 12 þús. kr. styrk. Af þessu má sjá, að hún hefir ætlast til þess, að hafður væri sami skipastóll og sama fyrirkomulag sem áður, og hefir þó lækkað styrkinn til ferðanna frá því, sem hann er. En nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ómögulegt sje að færa styrkinn til bátanna niður, því að þótt t. d. olía falli, þá hækkar aftur annað, eins og t. d. afgreiðslugjald og vinnukaup, og eftir því, sem beinar milliferðir milli útlanda og hinna ýmsu hafna landsins eykst, eftir því verður minna um það, að Reykjavík verði notuð að millistöð, en við það minkar það, sem bátarnir fá til flutnings. Á þessari skoðun er Nielsen einnig.

Fyrirkomulagið eftir till. samgöngumálanefndar telur hún munu kosta 219,200 kr., og mun það vera 130–180 þús. kr. minna en þær kosta í ár. Og er þó fyrirkomulag nefndarinnar miklu hagkvæmara að dómi hennar.

Aðalbreytingin, sem nefndin leggur til að gerð verði, er sú, að höfð verði tvö strandferðaskip, í staðinn fyrir eitt. Fyrst og fremst Sterling, með þeirri breytingu þó, í samráði við herra Nielsen, að hún fari 2 ferðir til útlanda og fækki viðkomustöðum sínum í strandferðunum. Við þetta heldur nefndin að svo mikið vinnist, að ekki verði nema 50 þús. kr. tap á ferðum Sterlings.

Strandferðir frá Ísafirði til Seyðisfjarðar leggur nefndin til að hafa svo, að tekið verði tilboði Þorsteins Jónssonar & Co. og því fjelagi veittar 100 þús. krónur til strandferða um nefnt svæði aðallega, þó svo, að skipið skreppi til Reykjavíkur við og við. En jafnframt fellur þá niður styrkur til 4 vjelbáta, sem til flutninga hafa verið á nefndu svæði. Verða þessar samgöngur að sjálfsögðu miklu betri en þær, sem verið hafa, og einmitt við það, að taka þessu tilboði, getum vjer sparað kostnað við Sterling að svo miklum mun, sem áður er bent á.

Skilyrðin fyrir því, að þessi styrkur sje veittur, eru talin upp í a-c-lið undir I. 2. lið á þgskj. 461. Þess skal getið um stærð skipsins, að í tilboði Þorsteins er miðað við 300 smálesta skip, en hann baðst þó undan því, að haldið væri svo fast við þetta stærðartakmark, að ganga þyrfti frá að kaupa eða leigja skip, sem bjóðast kynni, þótt það væri einhverja vitund minna en þetta. Fyrir því hefir nefndin sett 250 smál. minst í aths., að hún vill heimila stjórninni að taka gilt skip, sem ekki væri stærra en þetta, ef ástæður mæla með því, en neðar má hún ekki ganga hvað stærðina snertir, því tilætlunin er sú, að skipið verði ekki undir 300 smál.

Geta skal þess, að formaður þessa fjelags, Þorsteinn Jónsson, mæltist til þess, að þeir fengju sjálfir að flytja kol handa skipinu að einhverju eða öllu leyti, og er nefndin því meðmælt, þótt ekki sje það nefnt í skilyrðunum. Telur hún stjórninni heimilt að veita slíka undanþágu, ef ástæður mæla með, að svo sje gert.

Þá skal jeg snúa mjer að bátaferðunum, og þá fyrst að Faxaflóabátnum, sem valdið hefir nefndinni mestri töf. Snemma þingtímans fjekk nefndin tilboð frá Eimskipafjelagi Suðurlands, sem bauðst til þess að taka að sjer Faxaflóaferðirnar, og jafnframt nokkrar ferðir til Breiðafjarðar og Vestmannaeyja, fyrir 75–80 þús. kr., og hjetu forstjórar þess fjelags góðu skipi til ferðanna. Nefndin ljet vel yfir, að tilboð kæmi í þessar ferðir, því þar væri strax um úrræði með þær að ræða, en tók það skýrt fram, að um upphæð styrks gæti hún ekkert sagt að svo stöddu. Nokkru síðar fjekk nefndin annað tilboð. frá h. f. Eggert Ólafsson, sem bauðst til þess að halda uppi ferðunum fyrir 30 þús. kr. árlega, en skip þess fjelags var minna en skip hinna. Þegar nefndin fór að velta fyrir sjer, hvað haganlegast væri að gera í þessu efni, þóttist hún sjá, að lítil ástæða væri til þess að styrkja úr ríkissjóði sjerstakan bát til Vestmannaeyja, og Breiðafjarðar (annan en Breiðafjarðarbátinn). Taldi hún líklegt, að rætast mundi sæmilega úr með samgöngur til þessara staða án þess, og þótti því rjett að strika þær ferðir út úr áætlun Faxaflóabátsins, en við það taldi nefndin, að komist yrði af með minna fje til Faxaflóabátsins. Niðurstaðan varð svo sú, í stuttu máli, að h. f. Eggert Ólafsson færði niður tilboð sitt í 20 þús. kr., með hliðsjón af þessu, og samþykti meiri hluti nefndarinnar að taka því tilboði, þó svo, að ef mönnum þykir ekki skip h. f. nógu fullkomið, sje kostur að taka varatill. nefndarinnar, sem sje 30 þús. kr. til ferðanna handa Eimskipafjelagi Suðurlands. Meiri hluti nefndarinnar leit svo á, að með tilboði h. f. Eggerts Ólafssonar og styrktill. sinni til þess fjelags væri sjeð fyrir ferðum þessum, að svo miklu leyti, sem telja má ríkinu skylt. Meiri hl. nefndarinnar neitar því ekki, að hitt skipið er betra og fullkomnara, að því leyti, sem það er stærra, en munurinn á tillagi, þriðjungsmunur, er svo mikill, að meiri hl. getur ekki aðhylst tilboð þess fjelags.

Jeg skal geta þess, að till. nefndarinnar eru allar lægri en till. Nielsens um fjarðabátana. Nefndin ætlar til Faxaflóabátsins 20 þús. kr., en Nielsen hafði áætlað 26 þús. kr. Til Breiðafjarðarbátsins áætlar nefndin 18 þús. kr. en Nielsen 20 þús. kr. Til Skaftfellings vill nefndin einnig veita 18 þús. kr., en Nielsen hafði áætlað til hans 22. þús. kr. Annars hafði þó fjelag það, sem gerði út Breiðafjarðarbátinn, farið fram á 25 þús. kr. styrk, svo að ætla má, að ekki þykist það hafa sloppið vel frá ferðunum, og ekki er það bending um, að fært sje að lækka þessa styrki, frá því sem nú er, eins og hæstv. stjórn leggur til.

Til Ísafjarðarbátsins leggur nefndin til að veittar sjeu 9 þús. kr. Það er að vísu nokkuð lægri upphæð en sótt hefir verið um til þess báts, en þó ekki eins mikið af dregið eins og af styrkbeiðni Breiðfirðinga, svo hjer er ekki um það að ræða, að hann verði harðar úti hjá nefndinni, en aðrir bátar, þó hinn umbeðni styrkur sje ekki allur veittur.

Frá öðrum bátum, eða útgerðarmönnum þeirra, liggja ekki fyrir skriflegar umsóknir um ákveðinn styrk, en það mun af því stafa, að hlutaðeigendur hafa ætlað þm. sínum að gæta rjettar síns, og falið þeim að komast svo langt, sem fært væri í því efni, því það, að hafa sem allra bestar samgöngur, er öllum hjeruðum áhugamál, og flestra von mun það, að þær muni í framtíðinni skána frá því sem er, og það telur nefndin, að verði um alt land, með ströndum fram, með þeirri tilhögun, sem hún hjer mælir með. Mælir hún því sem best með því, að háttv. deild fallist á till. hennar, einkum þar sem kostnaður ætti að minka. en ekki vaxa, frá því sem nú er.

Um aðra báta eru upphæðir nefndarinnar hinar sömu og stjórnarinnar. Um Lagarfljótsbátinn vil jeg geta þess sjerstaklega, að það er hógværð af oss Austfirðingum að fara ekki fram á hærri styrk til hans, því í fyrra sökk hann og ónýttist, svo kaupa þurfti í vor nýjan bát til ferðanna. Var þetta fjelaginu, eins og nærri má geta, stórtjón, og það er ekki óvenjulegt þegar slík óhöpp ber að, að hið opinbera sje beðið að hlaupa undir bagga. Þetta ætti því að nægja til að sýna, að rjett sje og sjálfsagt að láta hann halda því, er nefndin leggur til.

Nefndin hefir bætt við vjelbát fyrir Mýramenn. Taldi það sanngirni að greiða einnig fyrir þessu hjeraði, einkum af því hún telur, að samgöngurnar sjeu bættar kring um alt land.

Nefndin hefir slept vjelbátnum á Hvítá, þótt hann stæði í frv. stjórnarinnar, því eftir upplýsingum þeim, er nefndin fjekk er hann lítið til almenningsnota

Að öðru leyti geymi jeg rjett minn til að ræða aðrar breytingar, og brtt. mun jeg ekki bera fram sjálfur fyr en við 3. umr., eftir að jeg sje, hvað fram gengur við þessa umr.