19.07.1919
Neðri deild: 11. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) sagði, að aðalmunurinn á gjöldum þessara tveggja umræddu atvinnuvega lægi í tollunum.

Það virtist háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) einnig álíta, en af því hann rakti það mál miklu rækilegar, mun jeg geyma að svara því, þar til jeg kem að honum.

Sami hv. þm. (M. Ó.) spurði, hvers vegna tolla ætti að eins sjávarútveginn.

Þá spurningu mátti hann vel spara, þar sem honum hefir verið margsagt það. Það er til þess að fá jöfnuð á móti lausafjárskattinum. Þá sagði hann, að sá skattur mætti eins vel niður falla, þar sem hann mundi ekki nema meiru en sem svarar 80 þús. kr., en jeg get þá frætt hann á því, að hann mun verða miklu meiri, sjálfsagt töluvert á annað hundrað þús. kr., og 1918 nam útflutningsgjaldið eigi nærri svo miklu, svo að háttv. þm. fer hjer heldur villur vegar.

Þá kem jeg að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) Eyddi hann mörgum orðum í samanburð á sjávarútvegi og landbúnaði, og komst að þeirri niðurstöðu, að sjávarútvegurinn bæri hlutfallslega meira af gjöldum. Í fyrsta lagi nefndi hann í sambandi við vörutollinn kol, olíu og salt.

Um olíuna er það að segja, að sveitamenn nota hana líka; þeir þurfa engu síður að kveikja ljós en sjávarbúar. Sama er að segja um saltið. Þótt meira þurfi af því í fiskinn en það, sem sveitamenn nota, þá er það eðlilegt og stafar af því, að sú framleiðsla er meiri.

Og það er ekki nema eðlilegt, að mest er notað af olíunni til sjávaratvinnurekstrar. En það verður að teljast til framleiðslukostnaðar, en sveitamenn þurfa einnig miklu til að kosta sinnar framleiðslu, svo að það jafnar sig.

Dýrtíðar- og gróðaskattur kemur hjer ekki til greina, því að svo framarlega, sem hann er meiri af sjávarbúum, þá stafar það af því, að þeirra gróði er meiri.

Þá nær það engri átt að telja vegina eingöngu vera fyrir landbúnaðarmenn.

Jeg þykist viss um, að háttv. þm. (E. A.) fái ýmsar vörur til sín fluttar eftir þeim, eins og flestir aðrir sjávarmenn, auk þess sem þeir hafa óbeint gagn af þeim.

Það er alveg rjett, að hækka þarf fjárveitingar til landbúnaðarins, en ætli sjávarútvegsmenn fari eigi fram á hið sama fyrir þann atvinnuveg?

Salttollurinn er að vísu ekki hjer til umr., en þess skal jeg þó geta, að ef hækka þarf hann, þá tel jeg eðlilegast, að það komi niður á þeim, sem þar eiga hlut að máli. Ef skaði hefir orðið, er það af því, að keypt hefir verið ofmikið í ákveðnum tilgangi fyrir ákveðinn atvinnuveg, og er þá rjettast, að sá atvinnuvegur borgi.

Því þarf enginn að halda fram, að landbúnaðurinn dragi sig í hlje með að gjalda það, sem honum ber, og sýndi jeg fram á það í fyrstu.

Þá vildi jeg skjóta því til háttv. þm. Stranda.(M. P.), að jeg tel það hvorki rjett nje hyggilegt að fara að breyta stimpilgjaldslögunum nú, þegar endurskoðun skattamálanna stendur fyrir dyrum. Það mundi að eins verða til þess að koma ruglingi á.

Fjárhagsnefndin mun líka verða treg til þess, og jeg vona, að hv. þm. hætti við slíka tillögu.

Um erfiðleika þá, sem á því geta orðið að ákveða stimpilgjaldið, er það að segja, að hið sama mundi eiga sjer stað um verðhækkunartollinn.

Mjer skildist á háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), að hann líti svo á, að frv. mundi alt falla ef brtt. á þgskj. 73 yrðu feldar. Jeg get þó ekki skilið, að svo þurfi að fara, þar sem háttv. flm. þeirra till. (M. Ó. og S. St.) eru frv. fylgjandi ásamt brtt. nefndarinnar.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið, enda eru umr. orðnar helst til langar.