25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Eins og kunnugt er, hefir verð á fiski hækkað allmikið síðan útflutningsgjald var lagt á hann fyrir mörgum árum. Verður þessi hækkun á útflutningsgjaldinu því ekki tilfinnanleg fyrir sjávarútveginn, enda var frv. tekið vel í hv. Nd., einnig af fulltrúum hans.

Stjórnin gerði ráð fyrir, að þessi hækkun myndi nema um 160,000 kr. á ári. En hv. Nd. breytti frv. í tveimur verulegum atriðum. Í fyrsta lagi var 1. liður hækkaður um 5 aura, og í öðru lagi var það ákveðið í 15. lið að leggja 1% á brúttósöluverð afla, sem veiddur er hjer við land og fluttur er út ósaltaður og óhertur. Jeg get ekki sagt um það, hve miklu þessi hækkun muni nema; ekki ólíklegt, að hún muni verða um 20,000 kr. Verður tekjuaukinn af frv. þessu þá um 180,000 kr.

Frv. sætti mjög litlum mótmælum í hv. Nd., eins og jeg drap á áðan. Að eins var athygli vakin á því í sambandi við 15. lið. hvort samningar við erlend ríki myndu vera því til fyrirstöðu, að leggja á fisk, sem aflast hjer við land og ekki er lagður hjer upp, heldur fluttur beina leið til útlanda. Jeg hygg, að svo sje ekki. Að vísu er til landshöfðingjabrjef fyrir því, að ekki megi leggja útflutningsgjald á slíkan afla, en þetta brjef hygg jeg að sje að eins skýring á núgildandi útflutningsgjaldslögum, og er því að sjálfsögðu burt fallið, er ný lög koma, þar sem þetta er ótvírætt tekið fram.

Jeg vona, að frv. verði tekið vel og að það fái að ganga greitt í gegnum hv. deild.