25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Magnús Kristjánsson:

Jafnvel þótt æskilegt sje, að mál þetta fái fljóta afgreiðslu, þá hygg jeg, að ekki verði hjá því komist að vísa því til nefndar. Vildi jeg, með tilliti til þessa, drepa á örfá atriði, er æskilegt væri að væntanleg nefnd tæki til athugunar.

Jeg er ekki alls kostar ánægður með frv., en á hinn bóginn er það fyrirsjáanlegt, að ekki verður hjá því komist að hækka tekjur ríkissjóðs til muna. Þessar breytingar á tollum og útflutningsgjöldum eru orðnar nokkuð margbrotnar, og er erfitt að átta sig á þeim. Hefði verið einfaldast að hækka þá um svo og svo marga af hundraði, í hlutfalli við aukin útgjöld ríkissjóðs í dýrtíðinni. Inn á þá braut hefir verið gengið að nokkru með því, að leggja stimpilgjald á útfluttar vörur, sem í raun og veru er ekki stimpilgjald, heldur útflutningsgjald. Þetta hefði verið heppilegra, enda hefði hækkunin þá náð til fleiri vörutegunda. Jeg býst ekki við, að unt sje að breyta þessu nú, þar sem málið er komið svo langt, en það er nefndarinnar að athuga það.

Jeg vil þá drepa á 15. liðinn. Hygg jeg, að full þörf sje á því, að orða hann nánar. Fyrsta spurningin er sú, hvernig sje hægt að framkvæma innheimtuna og eftirlit það, sem henni er samfara. Þetta er talsvert óákveðið í frv. Eins og kunnugt er, stundar fjöldi skipa veiðar hjer við land, án þess að þau hafni sig eða hafi nein mök við landsmenn.

Þetta ákvæði í 15. lið á að líkindum að skilja svo, að skip, sem fengju sig afgreidd á einhverri höfn hjer, yrðu að greiða útflutningsgjaldið. Viðkunnanlegra er að orða liðinn nokkuð nánar. Tilætlunin getur ekki verið sú, að lögreglustjórarnir verði á þönum „úti um sjóinn alstaðar“ til þess að kynna sjer, hver skip hjer sjeu að veiðum, og leggja síðan útflutningsgjald á afla þeirra. Það er vafasamt, að hve miklu leyti hægt er að skattleggja afla, sem veiddur er utan landhelgi, og jeg býst ekki við því, að hægt verði að teygja ákvæðið lengra en svo, að það nái til þeirra útlendra skipa, sem leita hafna til þess að hagnýta sjer veiðina, eða hafa samskifti við landsmenn.

Þetta vildi jeg að eins drepa á til athugunar væntanlegri nefnd, sem jeg býst við að verði söm sem í Nd., sem sje fjárhagsnefnd.