25.07.1919
Efri deild: 15. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (433)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg hefi tekið það fram, bæði hjer og í Nd., að það er á engan hátt tilætlun stjórnarinnar að endurskoða skattalöggjöfina á þessu þingi. Þess vegna hefir stjórnin í frv. sínum um þessi efni haldið sem mest fyrir komulagi eldri laga.

Því er það að segja við 1. fyrirspurn hv. þm. Ísaf. (M. T.), um 2. lið, að honum er haldið óbreyttum, sem áður var hann. Jeg fann enga sjerstaka ástæðu til þess að breyta honum; Nd. ekki heldur. En vitanlega má breyta honum, ef svo sýnist; það skiftir engu máli.

Í annan stað spurði sami hv. þm. (M. T.), hvort ,,nýr“ í 2. lið og „ósaltaður og óhertur“ í 15. lið væri sömu þýðingar. Að vísu er 15. liður ekki runninn frá stjórninni, heldur er sá liður kominn inn í frv. í Nd., en jeg hygg, að orðin muni tákna eitt og hið sama, og valdi því eigi misskilningi; vitaskuld má samræma þau, ef þörf þykir.

Í þriðja lagi gat sami hv. þm. (M. T.) þess, að gildi þessa frv. væri útrunnið 1. janúar 1920, en síldarlögin gengju þar á móti ekki í gildi fyr en 1. apríl 1920. Þetta er alveg rjett athugað, og benti jeg á þetta í Nd., að þessu þyrfti að breyta, svo að varan yrði ekki gjaldfrjáls í 3 mánuði; en mig minnir, að þá hafi málið verið komið til 3. umr., svo að of seint hafi verið að lagfæra þetta. Undir öllum kringumstæðum varð jeg of seinn með brtt. í þessa átt. En þessu má altaf breyta hjer og er sjálfsagt.

Jeg skal játa það, að orðalag 15. liðar, sem Nd. setti inn í frv., er tvírætt, sem sje hverra skipa það taki til, hvort það sjeu að eins hjer skrásett skip, eða einnig skip, sem koma inn til bráðabirgða. Það er víst, að ákvæðið tekur til allra innlendra skipa, en vafasamt, hvort það tekur til hinna, en það yrði þá komið undir úrskurði stjórnarráðsins, svo framarlega sem ákvæðinu verður ekki breytt hjer.

Það hefir verið minst á stimpilgjald í þessu sambandi og vakið máls á því, hvort ekki myndi vegur til þess að sleppa hækkun útflutningsgjaldsins og hækka í þess stað stimpilgjaldið. Mjer er nær að halda, að sú leið sje mjög óheppileg. Satt að segja þykir stimpilgjaldið nú fullhátt, og kemur líka svo víða niður.

Eins og jeg hefi áður tekið fram, þá eru miklir örðugleikar á því, að koma fram sköttum, sem fullnægi ríkissjóðnum nú á tímum. Þess vegna hefir stjórnin fyrst og fremst borið fram frv. um þá skatta, sem hún þykist viss um að smjúgi í gegnum Alþingi.

Jeg vona, að fyrst þetta frv. hefir sloppið gegnum Nd., þar sem þó eiga sæti margir sjávarútvegsmenn, þá fái það einnig framgang hjer. Og jeg vil alvarlega vara menn við því, þótt einhverjir kynnu að vilja heldur hækkað stimpilgjald, að fara að gera slíkar tilraunir, með því að óvíst er, hvernig þeim yrði tekið í Nd., en þetta frv. er þó sloppið í gegnum þann hreinsunareld.