09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Frsm. minni hl. (Magnús Torfason):

Það hefir verið sagt, að jeg hafi þótt harðorður um þennan nýja skatt, sem nú á að fara að leggja á eina af afurðum landsins. Jeg vil að eins benda á, að á aukaþinginu 1916–17 kom fram líkt frv., og var það þá alt annar þingmaður en jeg, sem talaði um, að það væri hrein vansæmd fyrir þingið að lögleiða það. Ekki var sá þingmaður ávíttur af forseta fyrir, svo að jeg get ekki sjeð, að jeg hafi sagt meira en það, sem háttv. deild hefir áður fallist á að væri fullkomlega sæmilegt.

Jeg hefi haldið því fram í nál., að hjer væri um nýja stefnu í skattamálum að ræða. Jeg vil leyfa mjer að standa fast við það, að jeg hefi þar á rjettu að standa. 1916 var háttv. deild því algerlega mótfallin, að íþyngja innlendum útgerðarmönnum með auknum sköttum á síldinni. Frsm. meiri hl. (H. St.) var þá á þeirri skoðun. Hann samþykti að vísu skattafrv. hjeðan úr deildinni, en sagði, að það bæri auðvitað að endurgjalda íslenskum útgerðarmönnum þann halla, sem þeir biðu af því. Stefna mín nú er því hin sama sem háttv. meiri hl. á aukaþinginu 1916–17. Þá kom og fram frv. um síldartoll, sem átti að vernda íslenska síldarframleiðslu. Þetta var holl stefna og góð. En nú er horfið frá henni. Eina sæmilega ástæðan, sem gæti rjettlætt þetta háttalag væri sú, að ómögulegt væri með öðru móti að ná í sæmilegar tekjur handa landssjóði. Áður en jeg fer lengra út í það, hvort svo sje, vil jeg minna á, að á nefndu þingi var stjórninni falið að undirbúa lög um síldartoll, en það hefir hún látið undir höfuð leggjast. Þeirri áskorun þingsins hefir stjórnin algerlega brugðist.

Skal jeg við þessa umr. ekki fara lengra út í þetta atriði.

Jeg verð að halda fast við, að það sje rjett, sem jeg hefi sagt í nál., bæði um verð síldartunnunnar frá skipi og um kostnaðinn við verkunina. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um þetta atriði hjá þeim mönnum er best hafa vit á því, og hafa þeir sagt mjer, að máltunna síldar kosti eigi minna en 25 krónur. Þegar á að leggja toll á síldartunnuna verður að miða við hvað kostar að ná henni. Þar dugir ekki að grípa alt af handahófi. Að vísu getur kostnaðurinn á skipum, sem veiða vel, orðið nokkru minni en hjer er sagt; en þeir, sem miður afla, verða aftur á móti að leggja meira í kostnað, og þykir mjer rjettara að miða fremur við þá, sem minna mega sín.

Hvað því viðvíkur, að síldartunnan kosti 60–70 krónur, þá er það verð miðað við íslenska útgerðarmenn. Má vera að útlendingum, sem ekki eiga gamlar tunnur, sje hún eitthvað ódýrari.

Eins og jeg hefi sagt, kostar tunnan 25 kr., saltið í hana 16 kr. og verkun 8 kr. Til samans eru þetta 59 krónur en þá er ótalið vextir, fyrning og slit, en hið síðasttalda kom aðallega niður á íslensku útgerðarmönnunum, því tunnur þeirra voru gamlar og láku saltleginum, svo varan skemdist. Íslenska síldin fjekk þess vegna óorð á sig síðasta ár, og mun það ekki bæta um síldarverð nú.

Jeg held því, að enginn geti borið mjer á brýn, að tölurnar í nefndaráliti mínu sjeu teknar af handahófi. Ef nokkuð er, munu þær sýna sig að vera fulllágar, er öll kurl koma til grafar.

Hv. meiri hluti hefir haldið fram, að með þessu frv. sje ekki lagt meira á síldina en aðrar afurðir. Mjer þykir furða, að hv. þm. Snæf. (H. St.) skuli geta látið sjer slíkt um munn fara. Skatturinn á fyrsta lið frv., fiskinum, nemur eigi nema ½%, en á síldinni verður hann eftir till. háttv. meiri hluta 12½%, eða nákvæmlega 25 sinnum meiri. Þannig er samræmið hjá háttv. samnefndarmönnum mínum, og skal jeg ekki þreyta menn á að fara lengra út í það.

Mjer er sjerstaklega illa við að gera þennan síldarskatt að fastaskatti. Hitt er annað mál, þó lagður sje á hverju ári skattur á síldina, er sjeð hvernig verðlagið er og veiðiskapurinn gengur. Það getur enginn sjeð fram í tímann nú, fremur en 1917. — Býst jeg við, að sama verði upp á teningnum nú, ef síldin bregst, eins og 1918. Þá datt ekki nokkrum manni í hug að leggja skatt á hana.

Allir, sem nokkuð þekkja til, vita hversu stopul síldveiðin er og að þeir, sem hafa stundað hana, hafa unnvörpum orðið gjaldþrota. Fyrstu menn, sem stunduðu síldveiði við Ísafjarðardjúp voru Norðmenn. Nú eru þeir allir horfnir þaðan fyrir löngu.

Árið 1884 voru um 80 síldveiðaskip á Seyðisfirði, en fjórum árum síðar var ekkert orðið eftir. Sýnir þetta, hve veiðin er stopul, svo árin 1917–'18 eru ekki nein undantekning. Við það bætist, hvað rekstrarkostnaðurinn er orðinn gífurlegur. Það var alt annað að reka þennan atvinnuveg þegar tunnan kostaði framleiðandann 10 kr. eða minna, en nú, þegar hún kostar 60–70 krónur. Þá fyrst fer útvegurinn að verða hættulegur.

Íslendingar standa og yfirleitt ver að vígi en útlendingar, því útvegur þeirra er meira af vanefnum gerður. Skal jeg í því sambandi geta þess, að lendingartækin við Ísafjarðardjúp voru lítt nothæf, síldarpallarnir svo ljelegir, að hrein vandræði voru að starfa á þeim. Húsnæði vantaði, og veiðin var yfirleitt svo illa undirbúin, að menn urðu þess vegna fyrir mörg þúsund króna tjóni.

Áður fyr var altaf verið að klifa á, að það ætti að vernda þennan atvinnuveg, það ætti að græða á síldinni, en nú virðast menn vilja amast við því.

Það er að vísu rjett, að á fyrstu stríðsárunum, 1914–’15, græddist einstaka mönnum stórfje á síld, en yfirleitt voru það menn, sem studdust við alt aðra atvinnuvegi. Flestir þeirra eru hættir síldveiðinni, og margir hafa í hyggju að hætta ef vel gengur í ár.

Hv. frsm. meiri hlutans (H. St.) sagði, að brtt. mín væri fjarri öllum sanni, því jeg hefði aðhylst 2 kr. tollinn í nefndinni. Jeg hefi að vísu staðið í þeirri trú, að það, sem sagt væri innan vjebanda nefndar, ætti ekki að fara lengra. En jeg get lýst yfir því, að aðstaða mín í nefndinni, eins og í háttv. deild, var sú, að jeg mundi ekki gera 2 króna tollinn að ágreiningsatriði, ef tekið yrði tillit til síðari brtt. minnar. En háttv. þm. Snæf. (H. St.) hefir ekki enn lýst yfir því, að hann vilji taka landbúnaðarafurðirnar inn í frv.

Að síðustu skal jeg geta þess, að þessi hái skattur er lagður á algerlega út í bláinn. Háttv. þm. hafa ekki hugmynd um, hvaða verð verður á síldinni. Jeg hefi reynt að grenslast eftir því, en hefi ekki getað fengið neinar upplýsingar um það.

Hið eina sem við vitum er, að ef alt fer skaplega, mun síldartunnan kosta framleiðanda 60–70 krónur. Eru þó líkur til, að hann skaðist ekki á veiðinni, en á hinn bóginn alveg óvíst, hvort hann hefir nokkurn verulegan gróða. En þótt síldveiðamenn græði eitthvað, er það ekki tiltökumál, því áhættan er mikil, og út í hana leggja menn ekki nema í von um hagnað.

Jeg skil ekki, að það er eins og menn amist við því, ef einhver eignast skilding, en þó eru menn altaf að kvarta yfir, hvað við sjeum fáir og smáir. — Eins og nú er komið, er alt útlit fyrir, að útvegur landsins geti komist í sæmilegt horf á nokkrum árum, þótt enn sje töluverður frumbýlingsháttur á öllu. En með þessu frv. er spornað af alefli við því, að sjávarútvegurinn verði innlendur. Útlendingunum verður ekki klekt á, því þeir hafa auðmagnið að baki sjer.

Jeg vil leyfa mjer að segja, að skattálögurnar sjeu yfrið nógar orðnar. Og þegar hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) fer fram á, að lagður verði á slíkur skattur sem þessi, þvert ofan í allar sæmilegar skattareglur, verður hann að sýna með skýrum tölum, að landssjóður þurfi nauðsynlega á þessum tekjum að halda. Hann verður að koma með ljóst yfirlit yfir tekjur og gjöld landssjóðs. Vona jeg, að háttv. deildarmenn sjeu mjer sammála að krefjast þessa.

Loks vil jeg benda á, að eitthvað verður að skilja eftir handa þeim örfáu hjeruðum, sem hjer er lagst á; eitthvað verða þau að hafa til sinna eigin þarfa.

Í Reykjavík eru aukaútsvörin orðin ein miljón króna, og á Ísafirði hafa þau þrefaldast síðan stríðið byrjaði, og er kaupstaðurinn samt stórskuldugur. Auk þess hefir verið lagður á okkur sæmilegur tekjuskattur, en yfir honum kvarta jeg ekki, því sá skattur er rjettlátur.