09.08.1919
Efri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Magnús Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 304. Hún er ekki fyrirferðarmikil, en hún hefir samt sína þýðingu. Hún er borin fram í því skyni, að reyna að koma í veg fyrir þá stefnu, sem rekið hefir upp höfuðið í fjárhagsnefnd Nd.

Það má vel vera, að dýpri rætur liggi til þess, að nefndin kom fram með þetta órökstudda frv. um að leggja 4 kr. útflutningsgjald á hverja síldartunnu á komandi árum. En það er athugavert, að frv. gengur í þá átt, að íþyngja einum aðalatvinnuvegi landsmanna svo stórkostlega, að afleiðingin verður annaðhvort sú, að allir innlendir menn hætta að stunda þennan atvinnuveg, eða hann kemst á hendur fárra auðmanna.

Það er óhætt að segja, að síldartollsfrv. beri vott um talsverðan skort á reynslu og þekkingu á þeim málum, sem hjer er um að ræða.

Það lítur út fyrir, að fjárhagsnefnd Nd. hafi litla hugmynd um, hvernig um þennan atvinnuveg hagar á ýmsum tímum. Mönnum verður starsýnt á ástandið, sem nú er. Af því að síld er í geypiverði á þessum ófriðartímum, ætla þeir, að þarna sje gjaldstofn, sem leggja megi á takmarkalaust. Þetta er ekki rjett. Kostnaðurinn við útgerðina er svo gífurlegur, að hreinn ágóði getur orðið svo lítill, að ekki sje á hann leggjandi.

Það hefir verið upplýst hjer í hv. deild, að síldartunnan muni standa útgerðarmönnum í 60–70 kr. Nú er það ólíklegt, að hærra verð fáist fyrir síldartunnuna en 75 kr. Jeg vil þá spyrja, hvort 20% útflutningsgjald af hagnaðinum á hverri tunnu sje ekki fullhátt. Það er þó þetta, sem jeg legg til í brtt. á þgskj. 303. Og þó eru fleiri kvaðir ótaldar. Fyrst er stimpilgjaldið, 65–75 aurar á tn., og þá salttollurinn, sem mun nema 30–35 aurum á tn. Eftir brtt. minni yrði alls lagt 20–25% á væntanlegan hagnað af útgerðinni í ár. Þessu get jeg fylgt. En ef menn vilja ganga lengra og leggja jafnhátt gjald eða hærra á útgerðina næstu ár, meðan alt er í óvissu um, hvernig hún gengur, þá skilja leiðir. Jeg hygg, að þessi atvinnuvegur geti ekki orðið hagfeldari en í ár, og er því alveg misráðið að leggja nú á afarháan toll fyrir næsta ár. Myndi það ekki vera fult svo hyggileg stefna að slá þessu gjaldi ekki föstu fyrir margra ára bil, heldur taka það til athugunar í hvert skifti, hvað þá á við?

Með þessu móti er kann ske hægt að gera sæmilega fjárhagsáætlun á pappírnum. En tekjur þessar eru meira en óvissar. Það er margt, sem vert væri að minnast á í þessu sambandi. Mál þetta á sína sögu, og hana ekki ómerkilega. 1907 var lagt 25 aura útflutningsgjald á hverja tunnu, sem var helmingshækkun, úr 25 aurum upp í 50 aura en það þótti of langt gengið, sem rjett var, svo að ástæða þótti til að setja í lögin, að nokkrum hluta gjaldsins skyldi varið beinlínis til eflingar sjávarútveginum. Svo var hljótt um þetta mál, þar til á aukaþinginu 1916–17. Þá var það eindregið álit manna, að hækka bæri útflutningsgjald af síld að mun. Var það ekki nema að vonum, því 1915 og '16 voru mestu uppgripaár, sem komið hafa, einkum fyrir stærri útgerðarmenn. Þá voru stofnuð auðæfi þeirra manna, sem nú eru taldir stóreignamenn. En við slíkum uppgripum er ekki hægt að búast í framtíðinni. 1916 var það þó álit allflestra, að ekki kæmi til mála að leggja hærri skatt á síldartunnu en kr. 1.50, að því er snerti innlenda menn. En mönnum kom saman um að ekkert væri á móti 3 kr. tolli, ef ráð fyndist til að endurgreiða innlendum útgerðarmönnum helming gjaldsins. Þetta var gert til að ná sem mestum gjöldum af útlendingum, sem stunda síldveiðar hjer við land. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) var þá alls óhræddur við að gera greinarmun á innlendum mönnum og útlendum. Nú er aftur sá ótti farinn að gægjast upp hjá honum. (Fjármálaráðh.: Jeg er ekkert hræddur). Ekki verður samt annað sjeð. Úr því nú sú veðrabreyting er orðin hjá honum, að ekki beri að leggja hærra gjald á útlenda menn en innlenda, þá verð jeg að telja ótækt að hafa gjaldið hærra en 2 kr. á hinum. Þrátt fyrir mótmæli hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) og meiri hluta fjárhagsnefndar, þá trúi jeg því ekki, að brtt. sú, sem jeg ber fram, falli. Svo sanngjörn er hún. Að vísu væri frekar hætta á því nú, þar sem deildin ekki er fullskipuð. Það er dálítið erfitt að gera sjer skiljanlegt, hvaða ástæða getur legið til að gera sjer þessar miklu vonir um framtíðina. Þetta mál horfir dálítið öðruvísi við ef alt kemst aftur í sama horf og var 1912–’13. Þá var allur framleiðslukostnaður síldartunnu 15 krónur, og þá þótti vert að stunda útgerðina, ef 1–2 króna hagur var af tunnunni. Við þetta sættu menn sig þá, jafnvel þó þessi litli hagnaður væri töluverðri óvissu undirorpinn. Væri það ekki einkennilegt að leggja 3 króna útflutningsgjald á 1–2 króna hagnað. Þar væri lagt á tap, en ekki hagnað. En svona gæti þetta vel farið, og miklar líkur til, að það verði innan skamms.

Það væri fullkomin ástæða til að athuga nánar ummæli hv. frsm. meiri hlutans (H. St.), en jeg tel rjettara að sleppa því þar til síðar, ef jeg neyðist til að biðja aftur um orðið. Jeg treysti hv. deildarmönnum til að sjá það rjett, að engin hætta getur verið að því, þó brtt. mín verði samþ. Því næstu þingum er altaf í lófa lagið að hækka útflutningsgjaldið, ef verð afurðanna hækkar. Hitt ætti að virðast sjálfsagt, að reyna að koma í veg fyrir, að tjón á atvinnurekstri verði skattlagt.