11.08.1919
Efri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Magnús Kristjánsson:

Jeg hafði skrifað hjá mjer nokkrar setningar úr ræðum ýmissa hv. þm. við þessa umr. málsins, en jeg sje ekki ástæðu til að svara þeim nákvæmlega. Þær ástæður virðast ekki veigamiklar, sem komið hafa fram til stuðnings því, að gjald þetta væri sanngjarnt eða á viti bygt. Jeg leiði hjá mjer að fara út í þessi smávægilegu atriði, sem mönnum verður svo tíðrætt um, svo að umræðurnar líkjast svo mjög venjulegu baðstofuhjali. Það er nauðsynlegt í þessu máli sem öðrum að halda sjer við aðalatriðin, en þyrla ekki eingöngu upp ryki.

Aðalatriðið er það, hvort það getur talist sanngjarnt að leggja sjerstaka atvinnugrein í einelti með sköttum, sem hún fær ekki risið undir. Afleiðingin verður sennilega sú, að innlendir menn munu ekki sjá sjer fært að stunda þennan atvinnuveg að verulegu ráði.

Þó að stórefnamenn geri enn þá tilraun til að halda útgerðinni áfram, er það víst, að allur þorri smærri útgerðarmanna, sem ekki urðu fyrir neinu happi áður, en hafa lagt mikið í kostnað 2 undanfarin ár, sem hvort hefir verið öðru óhagstæðara, munu nú vera á heljarþröminni. Um það geta bankarnir borið. Og hjer er verið að gera tilraun til þess að koma þeim alveg á knje. Er þetta rjett stefna? Jeg álít hana fyrir mitt leyti, mjög hættulega.

Útlendinga, sem stunda þennan atvinnuveg, mun jeg síst mæla undan sanngjörnum sköttum. En hræddur er jeg um, að svona hátt útflutningsgjald muni verða til þess, að þeir finni upp aðferðir til þess að hagnýta sjer veiðina úti á hafi, svo að landið tapi öllum þeim tekjum, sem það hefir haft af veiði þeirra. Og væri þá ver farið en heima setið.

Menn ættu að gæta vel að því hvað hjer ber á milli. Stjórnin og fjárhagsnefnd Nd. gerðu ráð fyrir því, að útflutningsgjaldið yrði 1 króna á tunnu þetta ár. Aftur ætlaðist stjórnin til þess, að það hækkaði upp í 3 krónur næstu ár, en fjárhagsnefnd Nd. vildi hækka það upp í 4 krónur, og fjelst stjórnin á þá hækkun. Munurinn er nú sá, að ef gert er ráð fyrir meðalafla, fengi landssjóður 600,000 krónur þetta ár eftir minni till. og jafnmikið næsta ár, samtals 1,200,000 krónur. En eftir till. fjárhagsnefndar Ed., sem í samráði við stjórnina hefir fallist á mína till., að leggja 2 kr. gjald á fyrir þetta ár, en vill hækka það upp í 3 krónur næsta ár, fengi landssjóður bæði árin samtals 1.500,00 kr. Munurinn er því 300.000 kr. En verði þessi hái skattur til þess að draga úr veiðinni gæti svo farið, að landið tapaði á hækkuninni.

Jeg skal þá víkja að þeirri skoðun, sem óbeinlínis hefir komið fram í háttv. deild, að ekki sje hættulegt að láta síldarútveginn sæta þungum búsifjum, því hann væri í raun rjettri skaðræðisgripur. Jeg vona, að þetta sje ekki skoðun margra, en hins vegar virtist mega draga þessa ályktun af orðum háttv. 1. þm. Rang. (E. P.). Hann kvað síldarútveginn hættulegan vegna þess, að hann byði svo hátt kaup, að aðrir atvinnuvegir gætu ekki staðist samkepni við hann. Þetta virðist mjer tæplega frambærileg ástæða. Hvernig væri hagur fjöldans, ef síldarútgerðin hefði ekki verið? Hún hefir bjargað almenningi í dýrtíðinni. Hefði hún ekki verið fær um að bjóða hækkandi kaup, hvernig hefði þá litið út fyrir mönnum? Jeg geri ekki ráð fyrir, að landbúnaðurinn hefði sjeð sjer fært að veita vinnulýðnum nándar nærri jafngóð kjör. Þetta er stórmikilvægt atriði. Hefði kaupgjaldið hjer á landi ekki stigið fullkomlega í hlutfalli við verðhækkunina á öllum nauðsynjum, þá hefði orðið hin mesta neyð meðal fjöldans, eða ríkið hefði orðið að hleypa sjer í stórskuldir til þess að lækka vöruverðið. Hjá þessu varð komist af því, að til var atvinnuvegur, er gat greitt nægilega hátt kaup. Afleiðingin af þessu er aftur sú, að fjárhagur landsins er vonum betri og má kallast sæmilegur.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um málið, en vona, að þetta sje nægilegt til þess að sýna, að athugavert er að sýna þessum atvinnuveg banatilræði.