11.08.1919
Efri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 762 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil geta þess að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) hristi höfuðið og bar á móti því, er jeg sagði, að hann hefði verið mótfallinn því, að tekjuskattur væri lagður á fyrir árið 1916. Jeg hefi síðan gáð að þessu í þingtíðindunum og sje, að jeg hefi farið með rjett mál.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) sagði, að verið væri að leggja þennan atvinnuveg í einelti og reyna að koma honum á knje. Enn fremur kvað hann útlendinga mundu finna upp einhver ráð til þess að hagnýta sjer síldveiðina úti á hafi, án þess að flytja aflann á land. Þessu er kastað fram alveg að ástæðulausu. Og sjerstaklega er þetta ástæðulaust frá hans sjónarmiði. Hann vill þó leggja 2 króna gjald á tunnuna, og ef gert er ráð fyrir uppgripaafla, munar á till. hans og meiri hl. fjárhagsnefndar um 300.000 kr. Af því myndi um 150,000 kr. koma niður á útlendinga og jafnmikið á innlenda útgerðarmenn. Þessi upphæð á að rjettlæta þá staðhæfingu, að verið sje að leggja þennan atvinnuveg í einelti.

Háttv. þm. (M. K.) gat þess, að þessi atvinnuvegur borgaði svo hátt kaup, að með því hefði hann forðað landinu frá því, að taka miljónalán. Jeg veit vel, að hann hefir hækkað kaupgjald mikið. Það sýnir með öðru, hvað hann er arðsamur. Þannig ber alt að sama markinu, bæði hjá þeim, sem mæla móti þessu gjaldi, og hinum, er mæla með því, að þessi atvinnuvegur er langhæfastur til þess að bera skatta.

Enga trú hefi jeg á því, að útlendingar muni finna ráð til þess að komast hjá þessu gjaldi, með því að gera að síldinni fyrir utan landhelgi. Enda er það vitanlegt, að þeir hafa reynt það nú í sumar vegna tunnutollsins, en þeim hefir ekki tekist það.

Það sýnir eitt með öðru rjettmæti skattsins, að jafnvel hv. þm. Ak. (M. K.), jafnmikill síldarmaður, aðhyllist 2 kr. útflutningsgjald. (M. K.: Jeg er enginn útgerðarmaður). Það veit jeg vel, en jafnvel þótt háttv. þm. væri síldarútgerðarmaður, hefði mjer ekki komið til hugar að gera honum þær getsakir, að hann væri að berjast fyrir sínum hag, eftir þeim kynnum, sem jeg hefi haft af háttv. þm. (M. K.). En jeg veit, að hann hefir frá byrjun haldið hlífiskildi yfir þessum atvinnuvegi og amast við sköttum á hann.

Ástæðan fyrir því, að stjórnin vildi leggja 1 kr. gjald á síldarútflutninginn í ár, en 3 kr. framvegis, er sú, að tunnutollurinn var fyrir. En þar sem þeir, er annast er um þennan atvinnuveg, telja 2 kr. gjald tiltækilegt í ár, sjer stjórnin enga ástæðu til að amast við því.

Röksemdir mínar og annara fyrir rjettmæti þessa skatts, að helmingur hans fæst frá útlendingum, en hinn helmingurinn frá þeim, er mestu fje velta í landinu, standa enn óhraktar. En um nauðsyn ríkissjóðs á þessum tekjuauka get jeg vísað til þess, sem jeg hefi áður sagt um það atriði.