11.08.1919
Efri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að síldartollurinn kæmi mikið við kjördæmi sitt. Veit jeg, að það stendur á bak við þann mikla áhuga, sem hann hefir sýnt í þessu máli.

Hann kannast nú við, að hafa verið á móti tekjuskatti árið 1916. Það var einmitt það, sem jeg sagði og ekki annað. Og hlaut hv. þm. að sjá við hvað var átt, svo voru orð mín ljós.

Rjett var það hjá háttv. þm., að síldin er gullnáma. Alstaðar er fjörugt kringum síldina, og hún kemur víða við — gægist jafnvel upp í fagurfræðinni. — Í Brandi eftir Ibsen er talað um síld. Sjera Brandur dregur fólkið með guðlegri andagift upp í öræfi með sjer, en prófasturinn og fógetinn eru í öngum sínum yfir að missa söfnuðinn, en engar fortölur duga. Þá dettur fógetanum það snjallræði í hug, að hvísla að einum, sem rak lestina: Það er komin síld í fjörðinn. En þetta töfraorð þaut frá eyra til eyra, og söfnuðurinn yfirgaf öræfin og sjera Brand og þaut í síldina. Að vísu var þetta skröksaga hjá fógetanum um síldina, en hún dugði samt.

Altaf er gull í kringum síldina, æsingar og ákafi, og því erfitt að koma skatti á þessa gullnámu, því margir spyrna á móti. Það er því ekki nema mannlegt af hv. þm. Ísaf. (M. T.) að vilja verja gróðann óskiftan í kjördæmi sínu.

Ekki var margt nýtt í ræðu hv. þm. Ísaf. (M. T.). Hann sagði, að þess yrði að gæta, að alt væri að fara niður á við, verðið væri óvíst, en ekki fyrirsjáanlegt, að kaupgjald lækkaði. En jeg vil benda honum á það, að fyrirsjáanlegt er, að kol og salt lækki, og eins ýmislegt annað, er að síldarútvegi lýtur.

Hvað verðinu viðvíkur, verður ekki krafist af mjer, að jeg segi, hversu hátt það muni verða, en líkur eru til þess, að það verði hátt, eftir því sem ýmsir síldarvelviljaðir menn segja nú.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að ekki mætti draga þá ályktun af till. hv. þm. Ak. (M. K.), að þeir væru með framtíðarskatti á síld. Jeg dró að eins þá ályktun af henni, að hv. þm. Ak. (M. K.) væri með framtíðarskatti á síld. Mjer er næst að halda, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) sje ekki einungis móti skatti á síld, heldur vilji hann miklu fremur láta ríkissjóð styrkja þá vesalings aumingja með fjárframlögum, sem leggja peninga í slíka óvissu sem síldveiðin er.

Jeg vil leyfa mjer að álíta, að þar sem hv. þm. Ak. (M. K.) hefir gengið svo langt, að vera með 2 kr. skatti á hverri síldartunnu, sje ekki athugavert að skatta þær með 3 kr.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að jeg hefði lýst því yfir, að jeg væri á móti óbeinum sköttum. Þetta er rangt, með öllu algerlega rangt. Hitt hefi jeg sagt, að mjer væri illa við að leggja háan skatt á afurðir landsins, en tók þá jafnframt fram, að jeg álíti, að sjerstaklega væri ástatt með síld, þar sem mikill hluti af þeim skatti, er á hana er lagður, kæmi rjettilega niður á útlendingum. En þess er gætandi, að á tímum eins og þessum er ekki rjett að halda dauðahaldi í hin eða þessi skattaprincip. Ríkissjóður þarfnast fjár, og það er aðalatriðið.

Þá er enn eitt. — Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að ríkissjóður þyrfti ekki meiri skatta og að fjárlagaræða mín væri veiðibrella til þess að draga fje í hann. Jeg vildi óska að svo væri, en því miður er þetta fjarstæða. Hann sagði, að tekjuafgangur myndi verða 1919. En þetta nær engri átt. Árið 1918 var tekjuhallinn 2½ miljón kr., og venjulega er seinna ár fjárhagstímabilsins verra. Að vísu er von á auknum sköttum þetta ár, tunnuskatti, auknum tóbakstolli og ágóða af síld, en hins vegar er enginn vafi á, að útgjaldaauki verður afarmikill, svo að jeg er sannfærður um, að árið rætist aldrei svo vel, að ekki verði töluverður tekjuhalli, þótt hann verði ekki eins gífurlegur eins og árið 1918.

Þá sagði háttv. þm. Ísaf. (M. T.), að fjárlagafrv. stjórnarinnar fyrir árin 1920–1921 væri varlega samið. Þetta er satt, og hefi jeg búist við, að ef það fer eins frá þinginu og það kom frá stjórninni, verði ekki halli. En það nær ekki nokkurri átt að segja, að tekjuauki sje áætlaður 2 miljón krónum of lágt, eða hvað meinar þm. 1 (M.T.: Að gefnu tilefni skal jeg upplýsa, að samkvæmt handriti mínu hefi jeg áætlað tekjurnar áætlaðar 2 miljón kr. of lágt og fjárhæð skattaukanna um 2 miljón krónur.).

Það er að ganga alt of langt að álíta, að tekjurnar verði 1 miljón kr. hærri á ári en áætlað er.

En hitt er hægt að segja með vissu, að útgjöldin munu fara langt fram úr áætlun. Má í því sambandi nefna, að hækkun samkvæmt launafrv. nemur ca. 800 þús. kr., og auk þess hafa aukin útgjöld samkvæmt sjerstökum lögum numið alt að 2 milljón kr. undanfarin ár, en í fjárlagafrv. er ekkert gert fyrir þeim.

Ef frv. þetta verður felt, þá verður útkoman hneykslanleg. Og ef þingið feldi tekjuauka þennan og ljeti eigi koma annað í staðinn, væri það rothögg fyrir landið. (M. K.: Hver talar um að fella það?). Er ekki háttv. þm. Ísaf. (M. T.) að tala um 50 aura skatt af hverri síldartunnu á þessu og næsta ári?

Hvar ætti að taka tekjur? Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) benti á vitagjald, en það yrðu hreinustu smámunir; kann ske menn vilji hækka kaffi- og sykurtoll?

Víst er þörf á meiri tekjuauka, og ef þessum er slept, mun enginn finnast, er líklegt er að kæmist gegnum þingið. Þetta er enginn leikur. Öruggasta stoðin undir sjálfstæði landsins er fjárhagurinn, og ábyrgðarhluti að kippa henni undan.

Hvað ábúðarskattinum viðvíkur, mun jeg gera mitt til, að hann verði samþyktur.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) mintist á, að útlendingar myndu finna upp aðferðir til að fiska utan landhelgi, þannig að ríkissjóður færi á mis við toll frá þeim. En því var að eins kastað fram til að gera dimt fyrir augum og hefir við engin rök að styðjast.

Jeg skil ekki hvers vegna háttv. þm. Ísaf. (M. T.) er að reyna að ýta undir stjettastríð í landinu. Jeg veit, að það er mjög hættulegt, og hefi altaf verið á móti því. (M. T.: Í orði).

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) vill halda gullnámunum fyrir utan skatt. Hann sýnir það nú, og hann sýndi það forðum, er hann var á móti tekjuskattinum. En við hinir sjáum tiltækilegast að skatta þær.