11.08.1919
Efri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 776 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Kristinn Daníelsson:

Jeg skal ekki lengja umr. með því að fara út í hin dýpri rök, sem helst hafa hleypt hita í menn.

Það er út af brtt. hv. þm. Ak. (M. K.), að jeg stend upp, með því að mjer þótti leitt, að enginn háttv. þingdm. hefir ljeð henni stoð, en jeg verð að telja hana mjög sanngjarnan og eðlilegan meðalveg í þessu efni.

Ástæður mínar eru þessar í stuttu máli: Í fyrsta lagi er till. að minni skoðun mjög sanngjörn.

Í öðru lagi er hún mjög eðlileg, eða rjettara sagt það, sem frv. fer fram á, er mjög óeðlilegt, sem sje að leggja nú í allra besta ári 2 kr. skatt á tunnuna og gera ráð fyrir hækkun skattsins á næstu árum, sem enginn veit hvernig verða.

Í þriðja lagi er hjer engin hætta á ferðum, hvort sem litið er á þörf landssjóðs, sem auðvitað er jafnan mikil, eða hitt, að tryggja landssjóði tekjur eftirleiðis. Til þess að tryggja landssjóði tekjur eftirleiðis, ef hann þarf þess, má grípa til þess ráðs, sem háttv. frsm. meiri hl. (H. St.) gat um, þótt óbeinlínis væri, sem sje að hækka tollinn á næsta þingi, og það er miklu eðlilegra en að gera það nú, því að þá verður vitað, hvernig árferðið er.

Mönnum hættir til þess að gleyma því, hvert áhættuspil hjer er um að ræða. Það hefir verið bent á það, að menn fengju stórgróða af þessum atvinnuvegi; því neitar enginn, að einstakir menn hafa haft stórgróða af þessum atvinnuvegi, en það má þá ekki gleyma því, að þessir menn greiða um leið háa skatta að öðru leyti, og enn hitt, að einstakir menn berjast í bökkum, eða jafnvel tapa. Það má ekki leggja einhliða áherslu á þetta, og ekki heldur á það, þótt útgerðarmenn borgi fólki sínu hátt kaup; þeir hafa beint neyðst til þess; afli þeirra yrði ónýtur, ef enginn væri til þess að hirða hann, og betri er hálfur skaði en allur, hugsa þeir, þótt kaupgjaldið geti orðið þeim ofvaxið.