12.08.1919
Efri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

37. mál, útflutningsgjald af fiski, lýsi o.fl.

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vil skýra frá því, að jeg hefi í dag fengið fregnir frá Siglufirði, þar sem skýrt er frá því, að innan fárra daga muni að öllum líkindum fara mörg síldarskip þaðan til útlanda. Það er því nauðsynlegt, að þetta mál verði afgreitt hjeðan í dag, og að hv. þm. veiti afbrigði til þeirrar afgreiðslu málsins, ef nauðsyn ber til.

Til þess að draga úr halla á komandi ári er nauðsynlegt að samþykkja þetta frv., og sjest nauðsynin ef til vill ljósast á því, að hv. þm. Ísaf. (M. T.) verður að reikna tekjurnar eftir þessu frv., til að fá jafnvægi í hina merkilegu útreikninga sína.

Stimpilgjaldið telur hann ½ milj. kr. meira en það er nú. Sú áætlun er óhæfilega há; það má alls ekki áætla það meira en 500 þús. kr., og síðasta ár varð stimpilskatturinn ekki nema 300 þús. kr.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) er svo djarfur að halda því fram, að jeg hafi sagt, að jeg væri á móti öllum tollum, án þess þó að geta sýnt nokkurn staf fyrir því. Jeg mótmæli fastlega þessum staðhæfingum þingmannsins. Fer nú eins fyrir honum og þegar hann fullyrti, að jeg hefði verið á móti svo kölluðum hala í hv. Nd., en síðar sást, hve mikið hann hafði fyrir sjer í því atriði. En allur þessi merkilegi misskilningur hv. þm. (M. T.) stafar náttúrlega af síldinni: hún verkar svo undarlega á hann, svo það verður að fyrirgefast.

Aðalatriðið er, að frv. þetta verði samþykt í dag, og þykist jeg viss um, að svo verður, og því get jeg látið aukaatriðin, hnúturnar til mín, eins og vind um eyrun þjóta.