30.07.1919
Efri deild: 18. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

28. mál, hæstiréttur

Kristinn Daníelsson:

Jeg vil þakka hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) fyrir það traust, sem hann bar til einlægni minnar, að jeg væri málinu hlyntur, þótt jeg vildi fresta því.

Jeg get eigi horfið frá því, að til vandaðs undirbúnings þurfi altaf langan tíma. Þó að hæfir menn hafi fjallað um málið — og jeg læt þess getið, að jeg ber fult traust bæði til hv. nefndar og höf. frv., sem jeg hygg að sje hjer nálægur — þá hefi jeg þó ekki þá oftrú á þeim, að þeir sjeu svo óskeikulir, að þeir þurfi engan undirbúningstíma við jafnmikilsvert mál og hjer er um að ræða.