04.08.1919
Efri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

28. mál, hæstiréttur

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Samvinnunefnd allsherjarnefnda beggja hv. deilda hefir leyft sjer að bera fram þrjár brtt., sem eru á þgskj. 239.

Fyrsta breytingin er um að orðið „mestu“ í 37. gr. sje felt burtu. Ætlunin með þessu er sú, að málaflutningsmennirnir sjái um að í dómsgerðunum sje alt það, er máli skiftir. Næsta brtt. er um, að lengja um helming frest þann er dómsgerðin á að liggja frammi, svo að málaflutningsmennirnir hafi betri tíma til að kynna sjer hana.

Síðasta brtt. er um að fella niður sekt fyrir það, ef stefndur sækir ekki dómþing. Sekt þessi er tekin upp eftir reglum þeim, er gilda um hæstarjett, en nefndin telur ekki ástæðu til að lögleiða hana hjer.

Fyrsta brtt. hv. 2. þm. G.-K. (K. D.), á þgskj. 251, finst mjer vera efnisbreyting. Eins og greinin er orðuð, verður ekki máli skotið til hæstarjettar, nema krafan nemi 25 kr., en ef brtt. verður samþykt, finst mjer, að við frumkröfuna muni mega bæta vöxtum og málskostnaði. Sumir í hv. allsherjarnefnd vildu að vísu eigi hafa neitt fjártakmark fyrir málsskotinu, en aðrir voru þeir, er hjeldu því fram. 25 kr. upphæð sú, er greinin gerir ráð fyrir, varð að samkomulagi, og óska jeg fyrir mitt leyti, að engin breyting verði á því ger. Jeg vil því mælast til, að hv. flm. (K. D.) taki þessa brtt. aftur, eða þá að hún verði feld.

Orð þau, er hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) vill láta fella burtu úr 34. gr., um ómerkinguna, voru sett þar sem bending um, að nota má ómerking frekar en verið hefir. Bæði má ómerkja undirdóm í heild sinni, og eins vissa hluta hans: enn fremur má ómerkja uppboð og fógetagerðir. Þótt brtt. sje ekki nein efnisbreyting, því greinin yrði skilin eins eftir sem áður, þá þætti mjer betur fara á, að hv. þm. tæki hana aftur, eða þá að hún væri feld.

Um þriðju brtt. á þgskj. 251 er jeg samdóma hv. flm. Orðin, er hann vill þar fella burtu, eru óþörf, og því er rjett að samþykkja þá brtt.

Jeg vil því leggja til, að 1. og 2. brtt. á þgskj. 251 verði feldar, ef þær eru ekki teknar aftur, en hin síðasta verði samþykt.