08.08.1919
Neðri deild: 28. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

28. mál, hæstiréttur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg get verið mjög stuttorður um frv. þetta nú við þessa umr., enda á það ekki við nú að fara út í einstök atriði.

Það má telja sjálfsagða, ef ekki óhjákvæmilega afleiðingu af því, að Ísland er nú orðið viðurkent fullvalda ríki, að það tæki æðsta dómsvaldið í sínar hendur.

Eins og menn vita, er valdinu skift í þrent, framkvæmdarvald, löggjafarvald og dómsvald.

Með sambandslögunum 30. nóv. 1918 hafði ríkið tekið í sínar hendur bæði framkvæmdarvaldið og löggjafar, en einn liðurinn var eftir, dómsvaldið. Og það er enn þá eftir, meðan æðsti dómstóllinn er í öðru ríki.

Þess vegna hefir hæstv. stjórn borið fram frv. þetta.

Af hendi Dana höfum við ummæli dómstjórans í hæstarjetti, sem telur það rjettmætt og sjálfsagt, að Ísland taki nú dómstól þennan í sínar hendur.

Það er því fullgild ástæða fyrir því, að frv. þetta er fram komið, og alt, sem mælir með því, að það verði samþ.

Að auki voru ástæður til fyrir þessu áður, og gilda þær auðvitað enn, meðal annars ókunnugleiki danskra hæstarjettardómara á íslenskum högum, kostnaður við þýðingu dómsskjala og annar kostnaður, stórum meiri. Auk þess má benda á það, að dómendur hafa ekki dómsskjölin á frummálinu og verða því að sjá með annara augum, því að þar sem skjölin eru þýdd verður að taka þýðandann trúanlegan.

Íslensk lög skilja þeir ekki á frummáli og verða þar einnig að bjargast við þýðingar.

Aðaldrættir þessa frv. eru þeir, að hjer skuli verða tvö dómstig, hjeraðsdómur og hæstirjettur, og skal hann skipaður fimm mönnum. Er það álitið, að komist verði af með þetta: Í öðrum löndum er það líka svo, að menn hafa enda hallast að því, að tvö dómstig megi nægja; svo er t. d. í Danmörku.

Skulu hjeraðsdómar þar dæma fyrst í hinum smærri málum; þeim má síðan skjóta til landsrjettar. Í öllum stærri málum er landsrjettur undirdómur, en þeim málum má síðan skjóta til hæstarjettar.

Eftir frv. er ætlast til, að málflutningur fyrir hæstarjetti sje munnlegur. Skulu dómsgerðir og annað það, sem flytjendum málsins þykir máli skifta, lagt fram svo snemma, að dómendur hafi nægan tíma til að kynna sjer það áður en dómur er háður.

Svo mun vera við flesta, ef ekki alla, æðstu dómsstóla annarsstaðar, að flutningur mála sje munnlegur, og er sú stefna nú tekin upp hjer.

Samvinnunefnd allsherjarnefnda beggja deilda sem haft hefir frv. þetta til meðferðar telur sjálfsagt, að flutningur mála fyrir æðsta dómstóli vorum verði munnlegur. Að eins er ákvæði í 38. gr. um það, að undantekning megi gera frá því, ef mál er mjög margbrotið; þá megi flytja það skriflega. Og svo ef stefndur sækir ekki dómþing. Enn fremur er millibilsákvæði í 53. gr., er rýmkar nokkuð heimildina í 38. gr. fyrstu 3 árin.

Fjelag málaflutningsmanna hjer hefir líka talið það sjálfsagt, að málaflutningur yrði munnlegur, en aftur á móti hafa núverandi dómarar í yfirdóminum lagt til, að hann yrði skriflegur. En af þeim ástæðum, sem greindar eru í nál., hefir nefndin ekki getað fallist á þær till.

Þar sem naumast verða fleiri en 70–80 mál, sem fyrir dóminn koma á ári, þá ætti dómendum ekki að vera vorkunn á að kveða upp og rökstyðja dóm sinn í þeim, þótt þeir eigi liggi eins lengi á þeim eins og tíðkast hefir með skriflegum flutningi.

Háttv. Ed. hefir samþ. frv. þetta í e. hlj., og vona jeg, að það fái líkar undirtektir hjer. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um málið í þetta sinn.