11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 808 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

28. mál, hæstiréttur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg ætla í þetta sinn að eins að víkja að þeim brtt., sem fram eru komnar við frv. Önnur er á þgskj. 312 og er frá samvinnunefnd allsherjarnefnda. Hún er við 42. gr. frv. og er fólgin í, að ef aðili ætlar að krefjast frávísunar máls frá hæstarjetti, skal hann tilkynna hæstarjettarritara það að mista kosti viku áður en mál skal þingfesta. En í sjálfu frv. stendur minst 2 dögum áður. Breytingin er því ekki önnur en að fresturinn er lengdur. Nefndin telur þessa breytingu til bóta. Þá er og önnur breyting á sama þgskj., við 48. gr. frv. Hún er fólgin í því, að í málum, sem ekki nema 100 kr., greiðast hálf gjöld. Það er í samræmi við aukatekjulög landssjóðs, nr. 16, 11. júlí 1911. Að eins er þar ákveðið lægra mark, sem sje 50 kr. En nefndin fellst á, að miðað sje við 100 kr. Þetta er, eins og menn sjá, að eins smávægilegar breytingar. En svo er ein brtt. enn, á þgskj. 318, frá háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). Og er hún stórum víðtækari en hinar. Hún fer sem sje fram á, að breytt verði ákvæði 57. gr. þannig, að lögin komi ekki til framkvæmda fyr en 1. jan 1922. í staðinn fyrir 1. jan 1920, eins og það er í sjálfu frv. Á þessa breytingu getur nefndin ekki fallist. Hún hefir ekki getað komið auga á þær ástæður, er rjettlæta hana. Það getur ekki verið meiningin með till. að útvega hæfa menn, því til þess er tíminn alt of stuttur. Ef hv. 1. þm. Árn. (S. S.) álítur, að ekki sje kostur á nægilega mörgum vel hæfum mönnum, þá verður hann að leggja til, að framkvæmd laganna verði frestað um lengri tíma. Mjer er ekki kunnugt um, hvaða ástæður liggja til þessa hjá hv. þm. (S. S.). Þær hljóta að vera einhverjar aðrar og veigameiri en þetta. Því jeg geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. (S. S.) beri fram till. til að eyðileggja málið. Þó jeg hins vegar sjái, að hún er ekki óhættuleg að því leyti, því að ef farið væri að fresta málinu á annað borð, þá er alls ekki óhugsandi, að það þing sem þá fer með málið verði svo skipað, að það vilji fresta því í það óendanlega, og verði þannig málinu að fótakefli. Jeg vænti þess, að hv. 1. þm. Árn. (S. S.) skýri betur, hvers vegna þessi till. er fram komin.