11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

28. mál, hæstiréttur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Það voru að eins fáar athugasemdir. Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) færði þau rök meðal annars fyrir till. sinni, að það skorti á, að undirbúningur þessarar stofnunar væri nægilegur. Og meðal annars mintist hann á, að húsrúm mundi ekki fyrir hendi. Jeg get frætt háttv. þm. (S. S.) á því, að hús til þessa mun sennilega vera til um nýár. Að vísu mun þurfa að ,,dubba“ það upp að einhverju leyti, og auðvitað kostar slíkt nokkuð. En engu síður geng jeg út frá því, að ef tillaga hv. 1. þm. Árn. (S. S.) verður samþ., þá muni það líka kosta eitthvað, þegar þar að kemur. Hver er kominn til að segja, að vinnulaun muni lækka á næstu árum? Það kann að vera, að efni lækki eitthvað smávægilega. En tæplega svo, að munurinn nemi nokkru að ráði, þó að ef til vill þurfi að mála 4 veggi og smíða borð, eða setja nýja hurð eða annað þess háttar. Jeg held, að þetta atriði sje smávægilegra en svo, að löggjafarvaldið geti farið að taka tillit til þess. Svo jeg víki nú aftur að húsrúminu, skal jeg geta þess, að þótt nú svo færi, að þetta hús yrði ekki fullgert um nýár, þá væri ekki úr vegi, að dómurinn gæti notað það hús, sem yfirdómurinn nú notar. Í því húsi eru nægileg herbergi, sem gera mætti þannig úr garði, að hægt væri að nota þau. Það mætti og nota bæjarþingsstofuna, sem er nokkru stærri en yfirdómsherbergið. Enda hefði stjórnin varla farið að bera þetta mál fram hjer nú, ef hún sæi engan veg hvað húsrúm snertir. Þetta eru ekki annað en yfirskinsástæður hjá háttv. þm. (S. S.). En hinar ástæðurnar, sem hann nefndi, eru þær raunverulegu, sem sje það, að hann telur ekki sjerlega aðkallandi þörf, að hæstirjettur verði fluttur inn í landið. Og skal jeg játa, að um það geta verið skiftar skoðanir. Það er komið undir sómatilfinningu hvers einstaks manns, hvernig á það er litið. Það er álit háttv. 1. þm. Árn., að enginn skaði sje skeður, þó að þetta dragist um nokkurn tíma. Því er eins farið og hinn, að þetta er tilfinningaspursmál líka, og er þannig vaxið, að það er ekki hægt að sannfæra menn um hið gagnstæða. ef þeir líta þannig á það. Hann talaði enn fremur um, að það væri sparnaður að því að fresta málinu. Og er það rjett að nokkru leyti. En háttv. þm., sem fær orð fyrir að vera heldur spar maður, lagði þó ekki mikið upp úr þessu atriði. Mestur sparnaður væri auðvitað að fella þetta frv. og taka alls ekki æðsta dómsvaldið inn í landið. Jeg lít svo á, að eftir að við höfum fengið fullveldisviðurkenningu með sambandslögunum, þá sje hneisa að því að salta þetta mál. Sæmdar okkar vegna álít jeg óhjákvæmilegt annað en að flytja hæstarjett inn í landið.

Jeg var hálft í hvoru að búast við, að háttv. þm. mundi taka till. sína aftur, þar sem hann hefir játað, að sparnaðurinn væri að eins aukaatriði. En nú sje jeg fram á, að svo er ekki. Háttv. þm. (S. S.) taldi það alveg óhugsandi, að komandi þing, 1920 og 1921, mundu vilja fresta málinu áfram, ef það yrði úr nú. En segjum nú svo, að báðar háttv. þingdeildir yrðu líkt skapi farnar og hv. samþingismaður minn (S. S.), þá gæti jeg vel trúað, að sú yrði raunin. Það er hugsanlegt, að þá komi til að eiga sæti á þingi slíkir menn, sem mæla alt á peningamælikvarða. Ef menn vilja endilega spara alt hvað unt er, því má þá ekki eins leggja niður yfirdóminn hjer og skjóta hjeraðsmálum beint til hæstarjettar í Danmörku? Jeg vildi skjóta þessu til hv. flutningsmanns till. (S. S.).