11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 813 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

28. mál, hæstiréttur

Gísli Sveinsson:

Sjálfsagt eru allir hv. þingmenn á einu máli um það, að það sje sjálfsögð afleiðing af viðurkenningunni fyrir fullveldi voru, að gerðar verði ráðstafanir til að flytja hæstarjett inn í landið. En þar með er ekki sagt, að rjett sje að áfella þá hv. þingmenn, sem kunna að hafa aðrar skoðanir á því, hve nær hæstirjettur eigi að koma til framkvæmda eða taka til starfa. hvort það eigi að gerast þegar á næsta ári eða nokkru síðar. Því að það er í raun og veru ekkert aðalatriði. Það er öllum kunnugt, að okkar hæstirjettur hefir verið í Danmörku um æðilangt skeið. Og þó menn hafi álitið, að okkur bæri að flytja hann inn í landið þegar kostur væri á, þá get jeg ekki sjeð að neinn beinn skaði væri skeður, þó hann væri þar 1–2 ár enn. Hitt er annað mál, að spurning getur verið um það, hvort við getum dregið það sóma okkar vegna. Jeg fyrir mitt leyti sje ekki, að sæmd okkar sje skert á neinn hátt, þó svo yrði. Jeg á því ilt með að skilja, hversvegna háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) legst svo fast móti þessari till., er hjer liggur fyrir, svo meinlaus sem hún er. Hún fer að eins fram á, að framkvæmd laganna verði frestað um 1–2 ár. Mjer skilst, að aðalatriði þessa máls sje að athuga, hvort svo knýjandi þörf reki á eftir, að það megi ekki bíða eitthvað fram yfir næstu áramót, og enn fremur hitt, hvort jafnstórfelt mál og jafnmikilvæg breyting, sem hjer er á ferð, sje nægilega undirbúin.

Jeg hafði að vísu ýmislegt við frv. að athuga, sjerstaklega frá sjónarmiði einnar ákveðinnar stjettar manna. Mjer fanst og, að sum atriði hefðu gjarnan getað verið einfaldari. En alt það læt jeg liggja milli hluta. Það, sem jeg sjerstaklega hjer hefi að athuga, er formsatriði eitt, sem sje það, hvort lögin þurfi endilega að koma til framkvæmda á næsta ári. Það kann að vera, að hæstvirt stjórn og hv. allsherjarnefnd hafi verið þeirrar skoðunar, að alt væri svo vel undirbúið. bæði hvað snertir hæfa menn í dómarasætin og annað, að sjálfsagt væri að láta hæstarjett taka til starfa þegar um næstu áramót. En þó að svo sje, þá hefi jeg hvergi sjeð færðar fram ástæður fyrir því, og ekki varð jeg þess heldur vísari af ræðu háttv. frsm. (E. A.). Það er t. d. ómótmælanlegt, að það vantar húsrúm. Og þó má ske mætti „dubba“ svo upp hegningarhúsið þar sem rjettarhöld eru nú, að það teldist samboðið hæstarjetti, þá vita allir, að nú er hin mesta dýrtíð. Jeg geri ekki ráð fyrir, að menn sjeu búnir að gleyma því, að endurbætur á stjórnarráðshúsinu hjer í bænum kostuðu allmikla fúlgu. Eins gæti jeg hugsað, að eitthvað kostaði að um skapa hegningarhúsið í hæstarjettarhús. Hitt tel jeg að sje ekki fjarri sanni, að ef þetta fengi að bíða fram að 1922, þá mundu verða talsvert betri tök á að gera sæmilegt hús handa slíkri stofnun.

En svo er annað atriði í þessu máli, sem frá mínu sjónarmiði er mikilsverðara en þetta fjárspursmál. Það er mannaatriðið. Það er álit mitt, að ekki sje nægilegur tími gefinn til að útvega hæfa dómara í hæstarjett. Ef litið er á lögfræðingastjett þessa lands, þá fæ jeg ekki skilið, að hver og einn þeirra sje fær um að hlaupa upp í hæstarjett, þó gegnt hafi embætti einu eða öðru um nokkurn tíma, að þeim alveg ólöstuðum að öðru leyti. Það er öðru nær en svo sje. Þeir, sem fyrst kæmu til greina í þessar stöður, væru sennilega dómarar í yfirrjetti. Þeir eru þrír talsins. En af þeim er einn talsvert hniginn að aldri, og því ekki víst, að hann gefi um að fara upp í hæstarjettinn. Hann er kominn á þann aldur, sem venja er annarsstaðar að dómarar láti af embætti. Þá eru tveir eftir.

En hæstarjettardómarar eiga að vera fimm. Þá skyldi maður ætla, að næstir stæðu má ske lögfræðisprófessorar háskólans. Þeir eru auðvitað fullfærir til þess, gerir maður ráð fyrir. En hvað verður þá um háskólann? Og fyrir mig skiftir það mjög miklu máli, hvort háskólinn hefir á að skipa frambærilegum kennurum, eða efnum í vísindamenn, eins og maður verður að krefjast. Auðvitað er völ á ýmsum öðrum lögfræðingum, sem gegnt hafa öðrum embættum eða störfum, þótt þeir hafi ekki áður verið kennarar í lögum, eða gegnt skylduembætti, sem yrði að telja hæfa, ef fengjust. Með tilliti til sýslumanna, þá mætti telja tilbærilegt að taka einhvern af sumum þeirra, hvað snertir hæfileika. En þó gæti þetta orðið vandabundið og erfitt.

Aðalatriðið er þetta, að skortur getur orðið á hæfum mönnum í þessi mikilvægu embætti, og það þá ekki síst í kennaraembætti háskólans. Það mætti nú ef til vill segja, að tvö ár sjeu ekki nægur tími til að skapa slíka menn. En það er þó ekki alls kostar rjett. Segjum, að ungir og efnilegir menn, nýútskrifaðir, hefðu löngun til að halda vísindaveginn, frekar en gefa sig við öðrum störfum, sem ganga í alt aðra átt, þá væru tvö ár einmitt góður og hæfilegur tími fyrir þá til þess að afla sjer framhaldsmentunar. Og það væri einmitt mjög ákjósanlegt, að það yrði gert að reglu að láta menn hafa sjerstakan undirbúning undir þessi störf, ekki að eins dómarastörfin við hæstarjettinn, heldur einnig kennarastörfin við háskólann. Þess er full þörf, því að ekki getur það talist heppilegt að taka hvern sem vera vill, ef hann að eins hefir staðist próf, til þess að kenna vísindi við slíkan skóla.

En auk þessara fimm dómara við hæstarjettinn er líka hæstarjettarritarinn, sem einnig á að hafa fyrstu einkunn, og auk þess uppfylla ýms önnur skilyrði. Það er með öðrum orðum, að hjer þarf á sex völdum mönnum að halda.

Mjer er það nú alveg óskiljanlegt, hvernig hv. nefnd getur ætlast til, að þetta verði alt tilbúið um næstu áramót. Þess er líka að gæta, að þeim af núverandi dómurum, sem helst kunna að koma til greina við skipun hæstarjettar, mundi einnig kært að fá undirbúning nokkurn undir starfið.

Auk þess má hið sama segja um málflutningsmennina. Þeim mundi sæmra að koma undirbúnum en flana upp í hæstarjett nokkrum mánuðum eftir að lögin eru samþykt.

Jeg get alls ekki verið á sömu skoðun og hv. frsm. (E. A.) í því, að þótt ákvæðið um frest til 1. jan. 1922 næði fram að ganga, þá gæti það orðið til þess, að sá frestur yrði framlengdur áfram og áfram.

Jeg efast ekki um, að það er vilji alls þingsins, að stofnaður verði hæstirjettur hjer, en hitt er ekki þar með sagt, að hrapa skuli að því undirbúningslaust. Þetta mál er svo mikilvægt, að nokkurra mánaða undirbúningur ætti að vera sjálfsagður, og til þess að vel fari þurfa menn að hafa nokkurn tíma fyrir sjer í einu og öðru.

Það var ýmislegt fleira, sem athuga má við frv., sjerstaklega frá sjónarmiði málflutningsmanna, en jeg skal ekki fara langt út í þau atriði.

Nefndin hefir tekið til greina í brtt. á þgskj. 312 atriðir sem var eitt af þeim, sem málflutningsmannastjettin lagði áherslu á, og er það að vísu gott.

En í frv. eru fleiri atriði, sem hörð verða að teljast í garð þeirrar stjettar. Hjer er að tala um menn, sem haft hafa leyfi til að starfa við yfirrjettinn. Nú er það tilgangurinn, að hann sje úr lögum numinn. Auðvitað er þeim gefinn kostur á að komast að við hæstarjettinn, en því verður ekki neitað, að sum af þeim skilyrðum, sem þeim eru sett til þess, verða að teljast mjög óbilgjörn.

Það er ekki nema rjett, að fyrir slíkt leyfi, sem um ræðir, renni gjald nokkurt í ríkissjóð, og verður að teljast hæfileg upphæð sú, sem farið var fram á í stjórnarfrumvarpinu, sem var 200 kr. En þetta gjald hefir nefndin hækkað upp í 500 kr. Það er mjög ósanngjarnt, að þeir, sem nú hafa fullan rjett til málflutnings við yfirrjettinn, en verða sviftir því starfi, skuli greiða svo tiltölulega hátt gjald. Gagnvart þeim hefðu 200 kr. átt að nægja.

Þetta var eitt af því, sem málflutningsmannafjelagið fór fram á, að nefndin breytti þessu aftur.

En það er eins og vant er með þessa hv. nefnd, að henni verður aldrei þokað frá því, sem hún hefir einu sinni tekið í höfuðið, hvort sem það er rjett eða rangt. Menn geta verið miklir, en það er ekki holt að gera sjálfan sig svo mikinn, að maður geti ekki litið á hlutina með sanngirni.

En nú er það alls ekki víst, að svo komnu, að hæstirjettur geti uppfylt sem vera bæri allar þær kröfur, sem til hans verða gerðar með rjettu.

Það er því ekki vert að gerast alt of montinn af honum, og það þegar frá ársbyrjun 1920.