11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (504)

28. mál, hæstiréttur

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg býst við, að þess yrði langt að bíða, að nógir menn yrðu til í hæstarjett, sem til þess starfs væru mjög vel hæfir að allra dómi. Og jeg býst við, að nokkur ár líði svo, að skortur verði hjer á mönnum, sem hafa átt svo mikið við dómsstörf, að jafnfærir teljist mönnum þeim, sem hæstarjett skipa í stóru löndunum. Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess, að finna jafnmarga úrvalsmenn meðal 30–40 manna, eins og meðal tuga þúsunda. Það má því altaf segja, að hjer sje ekki slíkt mannval, að jafnast geti við æðstu dómara annarsstaðar.

En jeg sje enga möguleika á því, að úr þessu verði bætt, þótt beðið verði í tvö ár, því að þótt þeir ungu menn, sem útskrifast, færu að leita sjer framhaldsmentunar, þá verða þeir þó ekki hæfir í hæstarjett að svo komnu.

Jeg veit líka, að háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) getur ekki hafa ætlast til þess. En hitt er ekki rjett, að láta hæstarjettinn bíða vegna þarfa háskólans, enda er það ekki víst, að hann verði neitt til fyrirstöðu í þessu máli. Að vísu mun enginn neita því, að prófessorar háskólans sjeu vel hæfir í hæstarjettinn, en hitt er ekki víst, að þeir kæri sig um þau skifti.

Jeg get því ekki sjeð, að þetta sje nein ástæða til að bíða.

Það er ekki nema rjett, að ekki sje til hæfilegt húsnæði fyrir hæstarjett. En því verður að tjalda, sem til er. Held jeg því, að menn verði að sætta sig við, þótt húsnæðið sje ekki sem best. Sú var líka tíðin, að Alþingi varð að sætta sig við ljelegt húsnæði og þótti engu lakara fyrir því.

Að öðru leyti finst mjer sjálfsagt, að ekki verði deilt um það, hvort hæstirjettur er stofnaður nokkrum mánuðum fyr eða síðar. Það er nokkurn veginn sama, þó ekki sje fyr en einhvern tíma á árinu 1920, ef það reynist ókleift fyrir 1. jan., en sjálfsagt er, að það verði svo fljótt, sem hægt er.

Og jeg efast ekki um, að það verði hægt um áramót, því að hæstirjettur verður í reyndinni ekki mikið annað en yfirrjettur er nú. Hann hefir að mestu verið okkar hæstirjettur.

Og það er að eins af tilviljun, að hæstirjettur í Kaupmannahöfn hefir nú fleiri íslensk mál til meðferðar en venja er til.

Auðvitað verður það erfitt fyrir dómendur og málflutningsmenn, að málfærslan breytist og verður munnleg. En sá örðugleiki verður hinn sami eftir tvö ár eins og eftir nokkra mánuði, því að jeg geri ekki ráð fyrir, að dómendur og málflutningsmenn færu að nota þau ár til þess að æfa sig í munnlegri málfærslu.

Þessar ástæður allar eru því fremur lítilsverðar.

Um gjaldið get jeg verið samdóma hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Jeg tel það ekki alls kostar rjettmætt að heimta svo hátt gjald af þeim, sem nú hafa leyfi til málflutnings fyrir yfirrjetti. En hvort hv. nefnd leggur mikla áherslu á þetta atriði, veit jeg ekki. Mjer þykir líklegast, að það standi að eins í sambandi við verðfall peninga, og getur því ekki talist annað en aukaatriði.

Jeg held því, að óhætt sje að samþykkja frv. óbreytt, eins og það kom frá nefndinni.