11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (506)

28. mál, hæstiréttur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg get verið stuttorður, þar sem hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir svarað ýmsu af því sem jeg þurfti að svara.

Eina ástæðan, sem færð er fram fyrir brtt., er sú, að nauðsynlegur undirbúningur geti ekki orðið framkvæmdur á svo skömmum tíma, sem frv. gerir ráð fyrir. Þetta er sameiginleg ástæða þeirra samherjanna, hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) og hv. 1. þm. Árn. (S. S.); auk þess einhverjar sparnaðarvofur frá hv. 1. þm. Árn. (S. S.).

Undirbúningurinn er nú væntanlega fólginn í þrennu.

Vil jeg þar fyrst tilnefna húsnæðið. En um það er það að segja, að jeg get ekki búist við, að ráðist verði í að byggja hús á næstu tveimur árum til þeirra hluta. Jeg býst við, að ýmsir aðrir hlutir verði, sem kalla meira að. Þá er ekki annað eftir en að notast við það húsnæði, sem nú er til. Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) virðist halda, að til þess þurfi fjarskalega dýrar umbætur á húsinu. Aðalatriðið hlýtur þó að vera að gera við veggi, mála þá eða leggja veggfóðri. Þá þarf líka að gera skilrúm eða grindur yfir nokkrar álnir á gólfi. Þá þarf ef til vill að bæta við ljóstæki þau, sem nú eru, annaðhvort gas- eða rafmagnslömpum, og borð þarf ef til vill heldur stærra en nú er.

En ekkert af þessu er svo stórvægilegt, að fresta þurfi málinu þess vegna.

Jeg get ekki skilið annað en þetta megi alt gera á 4–5 mánuðum, og ekki þykir mjer sennilegt, að það þurfi að kosta meira sem nokkru nemur, nú en eftir 1–2 ár.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vitnaði til þess, að dýr hefði orðið viðgerðin á stjórnarráðshúsinu. En þó eitthvert verk reynist dýrt, eða gefnir sjeu of háir reikningar, þá get jeg ekki sjeð, að það þurfi að verða til þess, að frestað verði öðru nauðsynjamáli. Það er víst ekki heldur meining hv. þm. (G. Sv.), að stjórnin eigi að hika við þetta verk, eða önnur nauðsynleg, þótt hún hafi verið illa leikin í því atriði.

Þá kem jeg að öðru atriðinu. Það eru mennirnir. Mjer þykir nú ekki mjög líklegt, að ný mannasköpun geti farið fram á þessu tímabili. Annars eru það að líkindum ekki nema tveir menn, sem bæta þarf við í dóminn.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) virtist halda, að stofnun hæstarjettar gæti orðið háskólanum til tjóns, en þess ber þar að gæta, að ekki er víst, að prófessorar við háskólann kæri sig neitt um embætti þessi.

Ekki fæ jeg sjeð það mikla tjón, sem hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) segir að háskólinn muni bíða við þessa breytingu. (G. Sv.: Sumir prófessorar hafa þegið að verða dómarar). Þar af leiðir ekki, að prófessorarnir hjer við háskólann kæri sig um það, enda er alls óvíst, að stjórnin snúi sjer til þeirra. T. d. vitum við hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um einn prófessorinn, að hann er ekki enn löghæfur til að taka sæti í dóminum, og á jeg þar við yngsta prófessorinn í lagadeild háskólans. Svo mætti segja, að jeg vissi líka um einn, þar sem jeg er sjálfur. (G. Sv.: Rjett þessa stundina). Annars virðist langt frá því, að það sje fjevænlegt að komast í hæstarjett, því hæstarjettardómarar eru svo bundnir, að með sanni má segja, að „politiskt“ sjeð sje það sama og að ganga í klausturlifnað að gerast dómari í hæstarjetti, (G. Sv.: Hann getur verið góður á stundum). Já, fyrir gamla menn og hóglífa, en varla fyrir þá, sem ungir eru og vilja ekki loka sig inni.

Það má vera, að jeg beri ekki eins mikla umhyggju fyrir háskólanum og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). En jeg þykist þó viss um, að þetta frv. skaði hann ekki neitt. Þó svo færi, að einhver prófessoranna færi í hæstarjett, þá hygg jeg, að við hefðum nóga góða og unga kandidata, er gætu byrjað kenslu án nokkurs frekari undirbúnings, enda er svo, sannast að segja, að nægur tími vinst frá kenslustörfum til þess að búa sig undir tímana og auka við þekkingu sína.

Þá var það fært fram sem meðmæli með breytingartill. hv. 1. þm. Árn. (S. S.), að málaflutningsmenn yrðu betur undir munnlega málaflutninginn búnir, ef þetta drægist nokkur ár. Þetta fæ jeg engan veginn sjeð. Eins og öllum er kunnugt, er málfærsla öll við yfirdóminn skrifleg, og mundi hún verða það áfram þessi tvö ár, sem fresta á, og mundi því æfingin verða engin fyrir málfærslumennina til að undirbúa sig undir munnlegan málaflutning, frekar þangað til en hingað til. Þá var þm. V.-Sk. (G. Sv.) að hafa það á móti þessu frv., að ef það yrði samþykt, mundu sumir málaflutningsmenn verða sviftir starfi sínu. Jeg býst ekki við, að þessi orð hans hafi átt að skilja svo, að allir málaflutningsmenn ættu þrautalaust að geta orðið málaflutningsmenn við hæstarjett. Og ef það er rjett, þá er líka sjálfsagt að láta þá ganga í gegnum einhverja eldraun. Tel jeg líka víst, að þeir, sem þá eldraun standast, auki við álit sitt og praxis, fram yfir það, sem nú er. Útlendingar eru, sem kunnugt er, farnir að hafa mikil verslunarsambönd við þetta land, og mundi það ekki vera svo lítill vegsauki í þeirra augum, að vera hæstarjettarmálaflutningsmaður. Mundu slíkir menn ganga fyrir öðrum, og hafa þeir þá fengið fult fyrir sitt. Á hinn bóginn verður ekki komist hjá því, að þeir, sem ekki standast eldraunina, muni verða hart úti, og verður ekki við gert. Auk þess er þetta prófskilyrði ekki sett þegar í stað neinum af þeim, sem nú hafa fengið rjett til þess að flytja mál fyrir yfirdómi, heldur er þeim veittur 2 ára frestur, og sömuleiðis fá þeir einnig að ganga undir prófið, sem hlotið hafa lægri einkunn en 1. einkunn í lagaprófi, ef þeir hafa áður fengið málaflutningsleyfi fyrir yfirdómi. Þótti þetta hvorttveggja sjálfsögð fríðindi.

Viðvíkjandi gjaldinu, sem greiða skal í landssjóð fyrir fengið leyfi til að flytja mál fyrir hæstarjetti, vil jeg lýsa því yfir, að mjer er ekkert kappsmál, hvort það er heldur 200 eða 500 kr., eða að þeir fengju slíkt leyfi fyrir lægra gjald, sem nú eru málaflutningsmenn.

Að lokum vil jeg biðja hæstv. forseta um að hafa nafnakall um brtt. á þgskj. 318.