03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg vildi helst mega mælast til þess, áður en jeg byrja, að menn hætti öllum þessum einkafundum meðan jeg tala, enda býst jeg ekki við að tala aftur.

Jeg vil byrja á því, að þakka hæstv. atvinnumálaráðherra undirtektir hans undir brtt. okkar. Þeim bjóst jeg sannast að segja. tæpast við, því mest var raskað þeim fjárlagaliðum sem honum viðkemur. Skildi jeg ræðu hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) svo sem hann væri að þakka nefndinni fyrir að hún hefði rjett hluta hans gagnvart embættisbræðrum hans, og eftir því, sem fram er komið, þá skýtur að minsta kosti nokkuð skökku við um ræðu hans og hæstv. fjármálaráðh. (S. E.).

Þá skal jeg leyfa mjer að víkja nokkuð að hv. 1. þm. Árn. (S. S.), og sjerstaklega að brtt. hans á þgskj. 597, um lækningastyrk til Þingvellinga. Nefndin hefir ekki sjeð sjer fært að mæla með þessu, af sömu ástæðu og hæstv. forsætisráðherra tók fram, sem sje þeirri, að ef þetta yrði samþ., mundu miklu fleiri koma á eftir. En öllum væri ókleift að veita slíkan styrk. Og þótt segja mætti með nokkrum sanni að eitt svipað dæmi væri til áður, þá er því þar til að svara, að það er komið fram á móti vilja fjárveitinganefndar. Hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat þess, till. sinni til styrktar, að torfæramikil hamlaði læknissókn á þessu svæði. Vil jeg nú spyrja hvort hann eigi hjer við Brúará. (S. S.: Já — akkúrat!) Já — en ef svo er — þá get jeg huggað hv. þm. á því, að sú torfæra er nú að hverfa, því áin verður brúuð ,,akkúrat“ á næsta ári.

Þá hefir nefndin ekki getað fallist á það að veita Ól. Ísleifssyni lækningalaun. Hún telur það varhugaverða stefnu að taka próflausa menn á föst laun. (S. S.: Hann hefir lækningaleyfi.) Já — en hann hefir að eins takmarkað leyfi — og það hefir komið fram óánægja gegn því, að slíkir menn „praktiseruðu“ mikið, og engin ástæða fyrir hið opinbera til þess að hlaða undir þá hálflærðu starfsemi, eða setja slíka menn á föst laun.

Þá er þriðja og stærsta brtt., og þarf jeg litlu við það að bæta, sem jeg hefi áður sagt um hana. En mjer er óskiljanlegt, að lagaskýring sýslunefndanna um þennan Flóaveg sje rjett. Auðvitað hefir vegur- inn á sínum tíma verið afhentur sýslunni sem fullger, og ber henni því að hafa allan veg og vanda af viðhaldi hans. Eða hvað skyldi ekki mega hlaða miklu vegaviðhaldi sýslusjóða á ríkið, ef þessi yrði samþykt? En þrátt fyrir alt þetta hefir nefndin ekki viljað nota sjer leyfi þingskapanna til þess að stemma nú þegar stigu fyrir framgangi þessarar Flóavisku, en telur sjálfsagt að hv. deild sýni Flóamönnum alla kurteisi, engu síður en öðrum. En þó virðist skörin farin að færast upp í bekkinn þegar, þrátt fyrir alt þetta er kvartað yfir því af hv. þm. Árn., að Árnessýsla sje, og hafi verið olnbogabarn ríkissjóðs í vegamálum. Jeg vil í því sambandi benda á það til skýringar, að á árunum 1886–1916 hefir þessi sýsla hlotið til vegagerða 603 þús. kr., eða nærri 1/3 alls þess, sem til slíkra framkvæmda hefir verið veitt. Ef þetta er að hafa Árnesinga fyrir olnbogabörn, þá hefði jeg gaman af að vita, hvaða eymdarnafni sumar aðrar sýslur ættu að heita. (S. S.: Jeg hefi ekki sagt þetta ).

Næst vil jeg snúa mjer að hæstv. fjármálaráðh. (S. E.). En þar skal jeg ekki vera langorður. Það yrðu að eins þreytandi endurtekningar, ef við hjeldum mikið áfram orðasennu okkar. Hann var enn þá að segja, að ef fjárlagafrv. hefði komið frá nefndinni, eins og stjórnin gerði ráð fyrir því, þá hefðu fjárhagshorfur ríkisins verið góðar. En hann hlýtur að vita það, að þetta var ómögulegt. Að minsta kosti hefðu launalögin gert allmikinn halla auk ýmislegs annars. (Fjármálaráðh.: Jeg gerði ráð fyrir þeim).

Auk þess er jeg tók fram um launalögin er enginn vafi á því, að frv. gat ekki gengið að öðru leyti fram eins og það kom frá stjórninni. Fyrst og fremst hefir verið reiknað út, að þær áætlunarupphæðir, sem nefndin hefir lagt til að hækka nema um 170 þús. kr. Geri jeg ráð fyrir, að þingið líti svo á, að hjá þessari 170 þús. kr. hækkun hafi eigi verið unt að komast, og að hún sje til orðin af því, að gjaldaáætlun hæstv. stjórnar hafi verið of lág. Enda kemur það heim við það, sem hæstv. atvinnumálaráðherra sagði að hann hefði viljað hafa sínar áætlanir hærri en raun varð á þegar aðrir tóku þar í taumana.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði um, að það sem hann hefði á móti, væri, að það yrði framvegis stefna þingsins að skila fjárlögunum með tekjuhalla. Jeg margtók það fram í dag að langt væri frá því, að fjárveitinganefndin teldi slíkt eiga að vera í framtíðinni, en að það væri að eins afleiðingar ófriðarástandsins í þetta skifti, og afleiðing af því, að ekki hefir unnist tími til að koma skattamálunum í rjett horf. Jeg brýndi það fyrir stjórn og þingi, að framvegis mætti þetta ekki svo til ganga; skattamálunum yrði að koma í betra horf, ef jöfnuður ætti að komast á. Þesskonar stefnu vildum við láta þingið marka nú, hvað miklar tekjur landið þyrfti í framtíðinni, til þess að sæmilegar framkvæmdir geti orðið í landinu.

Annars þótti mjer skrítið að heyra hæstv. fjármálaráðherra detta ofan á það að nefna vegagerðir. sem þann lið fjárlaganna er helst mætti spara, einkum þó þegar þess, er gætt, að aldrei síðan 1907 hefir verið gert ráð fyrir eins litlum framkvæmdum í vegabótum og í fjárlagafrv. stjórnarinnar nú og er þess er jafnframt gætt, að á þessum kafla er ekki mikil hækkun af nefndinni frá frv. stjórnarinnar. Það er ekki meira en um 80 þús., sem er hækkun frá till. stjórnarinnar (Fjármálaráðh.: Ekki rjett!) Nú eru í frv. stjórnarinnar veittar rúmar 610 þús. kr. á þessum kafla. En samkvæmt till. fjárveitinganefndar verða það 692 þús. kr., sem veittar eru til vegamála. Hækkanir á þessum kafla eru ekki meiri. En auðvitað hafa verið teknar út úr frv. þessar brúabyggingar, framkvæmdir. sem hæstv. fjármálaráðherra var ekki á móti og þingið samþ. að fram skuli fara. En nefndinni hefði ekki dottið í hug að nema þessar brýr út af fjárlögunum, ef ekki hefði aftur verið meiningin, að láta vegina njóta þess.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) talaði einnig um lánstraust landsins, að þótt það væri gott í svipinn, þá gæti það ekki batnað við það, að hvað eftir annað væri leitað lána, til að borga með tekjuhallann. Þetta er auðvitað rjett og í samræmi við það, sem jeg hefi áður sagt, að það er ekki meiningin, að þetta sje til frambúðar. En nú vil jeg geta þess, að það getur aldrei spilt lánstraustinu, þótt það sjáist, að þingið vill verja fje til framkvæmda í landinu. Hitt myndi miklu fremur spilla lánstraustinu, ef það sæist, að stefna þingsins væri sú að marka kyrstöðu í framkvæmdum.

Hæstv. fjármálaráðherra þekti einn veg sem hann áleit að vel mætti bíða. Það var Norðurárdalsvegurinn. (Fjármálaráðherra: Jeg nefndi fleiri.) Jeg þekki veginn vel og veit, að svo framarlega sem fjárveiting til þessa vegar verður skorin við neglur sjer nú, þá verður ekki hægt að nota það, sem við hann hefir verið bætt. Hann endaði þá í ófæru og verður gagnslaus, þar til hann kemst upp að Hraunsnefi. Veit jeg, að hæstv. fjármálaráðherra kannast við það. Hann liggur yfir flóann fyrir ofan Gröf, og er ekki hægt að nota hann nema honum sje komið upp fyrir allar ófærur.

Hæstv. fjármálaráðherra hjelt því fram, að annaðhvort yrði að gera, skera niður eitthvað af till. nefndarinnar, eða herða á sköttum. Jeg hefi ekki sýnt neinn mótþróa skattafrv. stjórnarinnar og öðrum, sem fram hafa komið á þingi. En jeg get ekki talið það hlutverk fjárveitinganefndar að sjá við því, þótt tekjur landsins sjeu of litlar. Hæstv. fjármálaráðherra gerði ráð fyrir, að þingið myndi fúst til að samþykkja ýmsa tekjuauka, sem hann hefði í hyggju að flytja frv. um, ef till. nefndarinnar yrðu samþyktar. Jeg fyrir mitt leyti get ekki lofað því að samþykkja hverjar þær tekjuaukatillögur, sem bornar væru fram. En ekki er ólíklegt, að takast mætti að finna þá tekjuauka, er mætti samþykkja. Vona jeg að t. d. á næsta þingi komi fram tekjuaukatill., er komi jafnvægi á og jafni upp hallann, sem nú er á, að minsta kosti að einhverju leyti.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði, að það hefði verið ófrávíkjanleg regla nefndarinnar að fara eftir till. allra „stjóranna”. Það er satt, að fjárveitinganefnd hefir gert sjer að góðu að taka við bendingum sjerfræðinga í hverri grein, því að hún er ekki svo mönnum skipuð að hún geti haft sjerfræðinga í öllum þeim greinum er til hennar kasta koma. En viðvíkjandi vegagerðunum skal jeg taka það fram að till. um það í heild sinni eru fram komnar eftir hvötum fjárveitinganefndar sjálfrar. Um leið og nefndin ljet brýrnar falla úr vildi hún taka eitthvað af nauðsynlegustu framkvæmdum upp í fjárlögin í staðinn. Fór hún þá til vegamálastjóra og spurði hann, hvað hún ætti að setja í stað þess fjár, er við þetta sparaðist í fjárlögunum. (Fjármálaráðherra: Það var skrítið!) Jeg vona að hæstv. fjármálaráðherra fari ekki að hártoga það.

Ekkert skil jeg í því, að hæstv. fjármálaráðherra skuli þykja undarlegt, þótt nefndin telji það búhnykk að hækka skrifstofufje vegamálastjóra. En jeg hygg rjett, að það sje búhnykkur að nota ódýrari vinnukraftinn til skrifstofustarfanna heldur en að láta verkfræðingana sjálfa, sem nóg hafa að gera á sínu sviði, sitja við skrifstofustörf, sem allir almennir skrifarar geta leyst af hendi.

Hæstv. fjármálaráðherra beiddist þess, að honum væri gert aðvart um, hve miklu tekjuhallinn myndi nema, er nefndin hefði lokið störfum. Fjárveitinganefnd gat ekki gefið upp neitt um það fyr en allar brtt. hennar voru tilbúnar. Þá fyrst var hægt að semja fullnaðarskýrslu um það. En það var ekki fyr en daginn, sem fjárlögin voru til framhalds 1. umr. Þá var þetta gert upp, og árangurinn kom fram í ræðu hv. framsögumanns fjárhagsnefndar (M. G.). Bjóst nefndin ekki við, að hæstv. fjármálaráðherra þyrfti aðra tilkynningu um það atriði.

Jeg vil að lokum, áður en jeg skil við hæstv. fjármálaráðherra, geta þess, að það mátti skilja ræðu hans svo, að þessar framkvæmdir í vegagerðum væru óvenjulega miklar. En það er langt frá því að svo sje. Það eru hjer um bil jafnmiklar framkvæmdir og gert var ráð fyrir á síðasta þinginu fyrir ófriðinn. Þá var gerð fyrirætlun um framkvæmdir vegagerða í framtíðinni. Þar var áætluð sú upphæð er þingið 1913 gerði ráð fyrir að hæfileg yrði næstu ár. Það er því síður en svo, að nefndin hafi viljað ganga svo langt, að bæta þann halla, er framkvæmdir í landinu hafa beðið við ófriðinn. Hún vildi ekki fara hærra en á venjulegum tíma.

Þá var það hæstv. forsætisráðherra er mintist á styrkinn. sem ætlaður er hjeraðslæknum, í sambandi við þann styrk, er fjárveitinganefndin hefir ætlað Halldóri Hansen lækni. Það var rjett athugasemd, og vona jeg, að nefndin athugi það til næstu umr., hvort ekki sje hægt að gera þetta samræmilegt, með því annaðhvort að hækka styrkinn til utanfarar lækna, eða færa hina upphæðina niður.

Þá var brtt. frá hv. þingmönnum Eyfirðinga um styrk til aðgerðar sjúkrahússins á Akureyri. Nefndin, eða meiri hluti hennar, vill heldur mæla með, að þessi till. nái fram að ganga. Það er víst enginn vafi á því, að þörfin er mikil, eins og hv. flm. (St. St.) skýrði frá. Sjerstaklega er nefndinni kunnugt um það að einstakir menn í hjeraðinu hafa lagt mikið á sig til að afla sjúkrahúsinu nauðsynlegra tækja og þvílíks.

Það var víst hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), sem ljet á sjer skilja, að fjárveitinganefndin myndi í hugsunarleysi og án þess að hafa gert sjer ljósa grein fyrir skilríkjum og athugað þau stutt till. samgöngumálanefndar, af því að það hafi verið sparnaðartill. og líklega sú eina í þá átt. Ætti síst að lasta það, að þarna er þó einn ljósdepill í gerðum fjárveitinganefndar, heldur ætti samgöngumálanefnd að þakka sjálfri sjer það, að hafa komið henni á rjetta braut.

Annars skal jeg geta þess, að fjárveitinganefnd fjekk þannig lagaða skýrslu frá samgöngumálanefnd, að hún sendi einn mann til fjárveitinganefndar, sem átti að veita henni upplýsingar. En svo býst jeg ekki við, að fjárveitinganefnd sje svo bundin með atkvæði sínu, að hún geti ekki tekið fult tillit til þess, sem upplýsast kann og metið öll þau rök, sem fram koma, og er því hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) óhætt að færa fram öll þau rök, er hann hefir til, vegna þessa.