03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Háttvirtur frsm. (M. P.) talaði um það, að þótt frv. hefði verið samþ. í nefndinni eins og það kom frá stjórninni, hefði halli orðið eins fyrir það. Þetta getur verið, en hann hefði þó áreiðanlega orðið stórum minni.

Hann sagði, að jeg vildi sjerstaklega spara útgjöldin til veganna og kvaðst furða sig á því, þar sem útgjöldin til þeirra væru þau sömu hjá fjárveitinganefnd og stjórninni. En hann gleymir þar alveg 300.000 króna upphæðinni. sem framyfir er hjá fjárveitinganefnd, því hún hefir tekið brýrnar úr stjórnarfrumvarpinu og ætlar að láta byggja þær fyrir lánsfje, en í stað þeirra hefir hún sett ýmsar vegabætur inn í fjárlögin en allir sjá, hvað sparnaður fjárveitinganefndar vegur mikið, þegar upphæðin, sem út er dregin úr fjárlögunum á samt að brúkast. En sannleikurinn er sá, að hv. frsm. (M. P.) hefir verið hræddur um að verða ekki álitinn nógu mikill framkvæmda- og framfaramaður af kjósendum sínum, ef hann ekki jysi nógu út, sjerstaklega til vegamálanna. En hann gáir ekki að því, að verið er að ráðast í stórfyrirtæki utan fjárlaganna Nú er á leiðinni bæði brúarfrumvarp, húsabyggingafrumvarp, sem kemur til með að kosta miljónir, ef verður að lögum, og auk þess er í ráði hafnargerð í stórum stíl, og að koma á fót strandvörnum. Þingið er sannarlega eftir atvikum, afarstórstígt í framkvæmdum.

Hv. þm. (M. P.) mintist á Norðurárdalsveginn. Það var nú ekki aðallega hann, sem jeg mintist á. En jeg er honum kunnugur og veit, að þeir sem þar eiga hlut að máli mundu verða þakklátir fyrir að fá hann, og vitanlega eiga þeir að fá hann; en þó að eitthvað hefði verið dregið úr útgjöldum einnig til hans þá veit jeg, að engin hætta var á ferðum.

Það lítur út fyrir, að hv. þm. (M. P) álíti það ekki svo hættulegt, að veita fje svona, jeg vil næstum segja í óhófi meðan hægt sje að fá lán. En einhverntíma kemur að skuldadögunum.

Eftir því sem jeg frjetti rjett nú, hafði fjárveitinganefnd ekki athugað neitt, hve hallinn mundi verða mikill á fjárlögunum, heldur bætt athugasemdalaust við útgjöldin. Það var fyrst þegar farið var að leggja saman eftir á, að henni varð hallinn ljós. Það var því ekki von, að vel færi.

Hv. frsm. (M. P.) er því alveg óhætt að vera með mjer í því, að draga úr ýmsum framkvæmdum, eins og nú er ástatt. Þetta þing verður samt talið eitthvert hið mesta framkvæmdaþing. Fjárlögin hafa hingað til verið þjóðvegirnir, sem fjárveitingarnar hafa farið eftir, en nú er farið inn á hliðarvegi ýmsa í fjárveitingum, eins og jeg hefi tekið fram, og má vara sig á því, að þeir verði ekki að villigötum út í fenið.