18.07.1919
Neðri deild: 10. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 829 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

10. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er borið fram af stjórninni til staðfestingar bráðabirgðalögum 14. okt. f. á. Þetta frv. hefir því fengið töluverða reynslu, og eftir því, sem bæjarstjórninni og húsaleigunefnd segist frá, þá hefir viðbótin gefist vel. Nefndin leggur því til, að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Það kom til tals í nefndinni að taka undan þau hús, er reist yrðu hjer eftir, og var það borið undir borgarstjórann, en hann tók því fjarri. Hjelt hann, að viðbótin yrði orsök til togstreitu milli innanbæjarmanna og þeirra manna utanbæjar, sem hefðu hug á að flytja til bæjarins. Því fanst nefndinni rjettast, að frv. yrði samþ. eins og það liggur fyrir og hefir verið framkvæmt.