31.07.1919
Efri deild: 19. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

10. mál, húsaleiga í Reykjavík

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Nefndin hefir falið mjer framsögu í þessu máli, þótt það í rauninni mætti sýnast misráðið, þar sem jeg á síðasta þingi bar fram brtt. við húsaleigulög Reykjavíkur, þar sem ætlast var til, að lögin yrðu vægari en þau höfðu verið áður, og auk þess vitanlegt, að jeg óska húsaleigulögunum norður og niður hið allra fyrsta.

Nefndin hefir íhugað þetta mál töluvert vandlega og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sje mikið við það að athuga. Það er að vísu hert töluvert mikið á húsaleigulögunum eins og þau nú eru, en því verður eigi neitað, að það hefir töluvert til síns máls. Í fyrsta lagi skal jeg geta þess, að þetta frv. hefir engri mótstöðu sætt, hvorki af hálfu bæjarbúa nje bæjarstjórnar. En er jeg flutti frv. mitt í fyrra um rýmkun laganna, var það eftir áskorun eigi færri en 350 borgarbúa. Í öðru lagi hefir nefndin athugað, hvort eigi bæri að undanskilja allar nýrri húsabyggingar, því hætt væri við, að svo gæti farið, að lögin yrðu til þess að tefja fyrir nýjum húsabyggingum, svo húsnæðiseklan hjeldist við. Átti nefndin tal við borgarstjóra um þetta efni. Játaði hann, að þessi ástæða hefði töluvert til síns máls, en á hinn bóginn kvað hann við búið, að nýjar byggingar yrðu eigi rjett notaðar. Mundu þær aðallega ætlaðar til sölu, eigi bæjarmönnum, heldur aðallega sveitamönnum, er flyttu til bæjarins og neyddust til að kaupa, til að fá þak yfir höfuð sjer. Það er öllum kunnugt, að ýmsir menn, svo kallaðir fasteignasalar, hafa keypt hjer hús og haldið þeim óleigðum, til þess að selja þau aftur fyrir tvöfalt og þrefalt verð.

Nefndin fjell því frá þeirri miðlunartilraun sinni, að gera undanþágu þegar um nýjar byggingar væri að ræða, en vonast fastlega til, að lögin verði ekki látin gilda lengur en ítrasta nauðsyn krefur.

Ætla jeg svo ekki að ræða þetta mál meira að sinni.