07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

14. mál, stofnun Landsbanka

Hákon Kristófersson:

Eins og hv. frsm. meiri hl. (M. G.) gat um, hefi jeg ekki getað orðið hv. meðnefndarmönnum mínum samferða um brtt. við frv. þetta sem hjer liggur fyrir, og hefi því komið með brtt. á þgskj. 269, sem jeg vil nú fara nokkrum orðum um.

Hv. frsm. meiri hlutaus (M. G.) fór mörgum orðum um þær og skýrði þær að nokkru leyti. Jeg vil taka það fram, að bankastjórnin kom á fund nefndarinnar. Jeg lýsti þar yfir minni skoðun á þessu máli og þeim brtt., sem jeg hafði í huga að bera fram. Man jeg ekki betur en að hún væri í öllum aðalatriðum samþykk fyrirhuguðum brtt. mínum, sjerstaklega þó brtt. við 4. gr. frv. Jeg verð því að álíta, að sú brtt. sje gerð í fullu samræmi við bankastjórnina. Hún hefir viðurkent nauðsynina á því, að gjaldkerar sjeu tveir, og mun hafa hugsað sjer fyrirkomulagið þannig, að annar annaðist allar útborganir, en hinn tæki við öllum innborgunum. Eins og sjá má af brtt. mínum, þykir mjer rjettara að nefna mennina ekki báða sama sýslunarnafni, heldur kenna þá að nokkru hvern við sitt starfssvið, en þó legg jeg enga áherslu á það. Hv. meðnefndarmenn mínir viðurkenna, að mjer virðist, með brtt. sinni á þgskj. 266, að þörf sje á því að skifta gjaldkerastarfinu við bankann, og eru mjer að því leyti sammála. Það er því að eins leiðin, sem fara skal, sem virðist bera á milli. Þeir vilja leyfa að hafa mennina tvo, „ef þörf krefur“, eins og þeir komast að orði. Bankastjórnin hefir lýst yfir því, að hún teldi gjaldkerastarfið við bankann svo umfangsmikið, að einn maður gæti ekki annað því, og hefir í framkvæmdinni staðfest það álit sitt með því nú þegar að skifta starfinu. Þar eð nú svo er komið, hvers vegna á þá ekki að slá fyrirkomulaginu föstu, úr því að breytingar á bankalögunum liggja hjer fyrir?

Samkvæmt till. hv. meiri hluta verður helst að líta svo á, að stjórnarráðið eigi að meta þessa ,,þörf“ á tveim gjaldkerum. En vitanlega er það bankastjórnin, sem á að meta hana, og hún hefir, að mínu áliti, þegar gert það, með því að lýsa því yfir fyrir nefndinni, að hún óskaði þessarar breytingar. Þess má líka geta, að bankastjórnin virtist leggja áherslu á það, að báðir væri skipaðir af stjórninni. Að þessu öllu athuguðu kann jeg ekki við og finst óeðlilegt, að í lögunum standi: „Ef aðstoðarfjehirðir verður skipaður“ o. s. frv. Það virðist ekki efi á, að bæði bankastjórn og landsstjórn, sem best þekkja til þessara mála, eru á einu máli um þetta atriði. Enda hefir það verið sýnt í framkvæmdinni. (M. G.: Hvernig?) Með því, að bankastjórn hefir þegar að nokkru leyti skift starfinu, að því er jeg best veit. Þegar því báðir þessir aðiljar, sem best þekkja til, mæla eindregið með þessari breytingu, hví þá ekki að stíga skrefið til fulls og ákveða, að gjaldkerar bankans skuli vera tveir? En eins og jeg hefi áður tekið fram, vil jeg nefna þann fjehirði, er tekur á móti fje, en hinn gjaldkera, sem greiðir það út. Það er ef til vill gagnstætt málvenju, enda er það ekkert aðalatriði í mínum augum, en með því virtist mjer báðir mennirnir kendir við það starf, er þeir hafa.

Varatillaga mín fer fram á það, að ef skipaður verði aðstoðargjaldkeri, þá verði það gert í samráði við þann mann, er ber ábyrgð á sjóði bankans. Eins og allir sjá, væri það rangt að skipa mann á annars manns ábyrgð í vandasama stöðu, án þess að sá, sem ábyrgðina ber, fái þar einhverju um að ráða. Að sjálfsögðu kemur þessi varatill. mín ekki undir atkvæði, ef annaðhvort aðaltill. mín eða brtt. hv. meiri hluta verða samþyktar. En það er áríðandi, að ekki verði annar aðstoðarmaður skipaður en sá, sem hefir fulla tiltrú aðalmannsins. Í orðinu ,,aðstoðarmaður“ liggur það, að annar sje yfir og beri frekar ábyrgð á starfinu en sá, sem nefndur er aðstoðarmaður.

Önnur brtt., við 4. gr., 2. mgr., er að eins orðabreyting. En hún er ekki eins nákvæm og hún ætti að vera, og þarf því frekari orðabreytingar, þar sem koma fyrir orðin „fjehirðir“ eða ,,gjaldkeri“.

Jeg hefi ekki viljað gera nema 500 kr. mismun á launum fjehirðis og gjaldkera, en hv. samnefndarmenn mínir vilja, að munurinn sje 1000 kr. Af hverju sá munur er rjettlátur er mjer ekki vel skiljanlegt, þar sem fullyrða mun mega, að báðar stöðurnar hljóti að vera miklar trúnaðarstöður og ekki ólíkar hver annari að öðru leyti. Að vísu mun mega gera ráð fyrir, að gjaldkerastarfið, þ. e. hjá þeim er borgar út, sje heldur hættulegra, að því er mistalningar snertir, en jeg hygg, að fjehirðir muni aftur á móti hafa töluvert erfiðara starf. T. d. mun öll afgreiðsla á aðsendum peningapósti falla í hans hlut, og hlýtur það að vera allmikið starf. Svo myndi og öll innborgun til veðdeildarinnar á haustin líka lenda hans megin, og mun það vera mjög mikið starf, því að til þess hefir bankinn haft sjerstakan mann að undanförnu, en því yrði að líkindum hætt, ef þessar fyrirhuguðu breytingar komast á. Með þessi atriði fyrir augum hefi jeg ekki viljað hafa nema 500 króna mun á launum gjaldkera og fjehirðis, og hygg jeg, að það megi ekki vera meira, ef allrar sanngirni er gætt.

Þá hefi jeg borið fram brtt. um styrktarsjóðinn fyrirhugaða, sem sje að auk 25 þús. króna tillagsins sje enn fremur lagt til af bankans hálfu 1½% af netto-arði bankans í 10 ár. Jeg verð að geta þess, að þegar þetta atriði var til umr. í nefndinni, leit jeg fyrst svo á, og hjelt að fleiri hefðu svipaða skoðun, að þessi styrktarsjóðsstofnun ætti að eins að ná til starfsmanna Landsbankans. En við nánari athugun kom það í ljós, sem líka er rjettlátt, að þessi ákvæði ættu einnig að ná til starfsmannanna við útibúin. Nú vita allir, að útibúin eru mörg, og altaf er verið að krefjast fleiri og má búast við, að þeim fari stöðugt fjölgandi. Geta þau orðið miklu fleiri en nú er hægt að gera ráð fyrir. Verða þeir þá allmargir, sem njóta styrks af sjóði þessum með tímanum, og ræður þá að líkindum, að til þess, að þessi sjóður komi að verulegum notum, svo að starfsmenn bankans og ekkjur þeirra fái sæmilegan lífeyri á ellidögunum, þarf hann að vera töluvert öflugur. Álít jeg því, að tillögur hv. meiri hluta um tillög frá bankans hálfu fari of skamt. Í sambandi við þetta má geta þess, að Eimskipafjelag Íslands hefir stofnað tryggingarsjóð fyrir sína starfsmenn, sem er öllu veigameiri en þessi sjóður yrði, þótt till. mínar næðu fram að ganga. Má þó slá því föstu, að fje Eimskipafjelagsins, engu síður en fje bankans, sje að meiri hluta eign landsmanna.

Það, sem fyrir mjer vakir meðal annars, er að trygging sje fyrir því, að fá góða menn að bankanum, og að þeim sje svo sæmilega launað og sjeð borgið, að þeir vilji gera bankastarfið að æfistarfi sínu. Og þegar jafnframt er litið til þess, að starfsmönnum sjálfum er gert að greiða í sjóðinn 3% af launum sínum, þá virðist mjer þetta ekki ofmikið frá bankanum.

Hv. frsm. meiri hlutans (M. G.) tók það fram að þetta gæti orðið allmikill sjóður, og tók það sem grundvöll til ábyggingar, að gróði bankans yrði 600 þús. kr. árlega. Um það atriði er ekki gott að segja neitt ákveðið eins og stendur. En brtt. mín, miðuð við t. d. 500 þús. kr. árlegan gróða, myndi hafa í för með sjer 7500 kr. árlegt tillag frá bankanum. Þar sem þetta er greitt að eins í nokkur ár, get jeg ekki sjeð, að þetta sje of langt gengið gagnvart bankanum. Jeg tel líka betra, að bankinn sje heldur ríflegur í greiðslum sínum til starfsmanna, heldur en hann fari of skamt hvað það snertir.

Það leyfi jeg mjer að fullyrða, að þetta atriði ríði ekki í bága við skoðanir núverandi landsbankastjórnar, og býst við, að sú landsbankastjórn, sem tekur við af þessari, verði sömu skoðunar og jeg um þetta atriði. Enn fremur hygg jeg, að brtt. mínar hafi sæmilegt fylgi meðal þm., því engar brtt. hafa komið frá neinum þeirra við þær, og hefði þó verið nægur tími til að koma fram með þær.

Hv. frsm. (M. G.) drap á brtt. mína við 5. gr. frv., sem sje að í stað 6000 kr. árslauna bankastjóranna svo og 5% af ársarði bankans komi 8000 kr. Jeg tel hana mjög heppilega, því jeg lít svo á, að ef laun bankastjórnarinnar væru miðuð við hundraðsarð af ágóða bankans, þá gæti það orðið til þess, að bankastjórarnir legðu aðaláhersluna á það, að bankinn græddi sem mest. En það á ekki að vera tilgangur bankanna eingöngu, heldur hitt, að veita viðskiftamönnum sínum sem hagkvæmust kjör, eða með öðrum orðum vera fremur til almenningsafnota og almenningsheilla en sem gróðafyrirtæki eigendanna. Og sjerstaklega á þetta heima um Landsbankann, sem er ríkiseign. Hlutverk hans ætti að sjálfsögðu fremur að vera það, að halda vöxtum af peningum niðri, en hitt, að afla sjer gróða að óþörfu, og það á eigendum sínum.

Þá skal jeg ofurlítið minnast á brtt. á þgskj. 268. Má ef til vill segja, að jeg hafi farið þar út fyrir það „princip“, sem í jeg fylgi á brtt. mínum á þgskj. 269, en svo er ekki. Því nái þær brtt. fram að ganga, þá greiði jeg atkv. á móti brtt. á þgskj. 268. En verði brtt. á þgskj. 268 borin upp á undan brtt. á þgskj. 269 og samþ., þá tek jeg aftur brtt. mína, b.-lið við 8. gr. frv., á þgskj. 269.

Um fyrri lið brtt. við 8. gr. skal jeg taka það fram, að jeg tel miklu hagkvæmara að stofna slíkan styrktarsjóð, sem þar er lagt til, handa starfsmönnum bankans, heldur en að veita þeim styrk á annan hátt. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að gera ráð fyrir því, að þessir menn geti orðið styrkþurfar eins og aðrir, og er þá sjálfsagt að veita þeim styrk úr þessum sjóði, heldur en að biðja um eftirlaun handa þeim hjer í þinginu, sem kynni þá líka að koma fyrir hvað eftir annað, og jeg tel alveg ófært.

Þessi síðasta brtt. er liðuð í tvent, og vona jeg, að hæstv. forseti beri hana upp í tvennu lagi.

Hefi jeg nú farið nokkrum orðum um brtt. mínar og sje ekki ástæðu til að eyða fleiri orðum um þær.