07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 852 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

14. mál, stofnun Landsbanka

Einar Arnórsson:

Jeg sje á ýmsum brtt., sem fram hafa komið, að menn eru nú teknir að gerast höfðinglundaðri en áður hjer í þinginu, og er það gleðileg framför. Sjerstaklega gleður það mig, að hv. þm. Barð. (H. K.), hinn sparsami, er nú orðinn svo óspar á fjé. En það verð jeg að segja, að mjer finst þetta töluvert yfirdrifið, því að við erum óvanir því hjer, að laun starfsmanna landsins geti numið 20–25 þúsundum króna um árið, eins og vel getur átt sjer stað um laun bankastjóranna, ef t. d. till. hv. þm. S.-Þ. (P. J). gengur fram. (P. O.: Þau geta numið yfir 30,000 kr.). Eftir frv. stjórnarinnar saman borin við launalagafrv. hennar dýrtíðaruppbótarákvæðin) geta lamin orðið um 15 þús. kr., en auðvitað getur þar verið um nokkurn stigmun að ræða. Jeg verð nú að telja það sæmileg laun.

Það er alls ekki meining mín að vilja telja launin eftir starfsmönnum landsins, en þess ber hjer að gæta, að skilyrðin, sem þessum starfsmönnum eru sett, eru langsamlega miklu minni en þau, sem krafist er að venjulegir embættismenn landsins uppfylli. Þeir verða að stunda sjerfræðisnám um margra ára skeið, til þess að geta gegnt embættunum, en engin slík skilyrði eru hjer sett, nema einum bankastjóranna, sem á að hafa lögfræðispróf.

Það verður einber tilviljun, hvort þeir sem sækja, verða hæfir menn eða ekki. Jeg er ekki þar með að segja, að þeir hljóti að verða óhæfir, jeg býst heldur við að þeir verði hæfir, en mishæfir verða þeir, þegar engin skilyrði eru sett. Það er talað um, að mikilsvert sje að fá góða menn í þessar stöður og það er að vísu rjett. Þessi háu laun eiga að tryggja það, en jeg efast um að þau geri það að öllu leyti, því að hæfustu mennirnir hafa þó, eins og nú er komið, meira upp úr öðrum störfum. En hjer er farin önnur leið en vant er að fara um launakjör embættismanna. Það hefir verið venja að berja því við, að altaf byðust nógu margir, og þess vegna væri ekki ástæða til að hækka launin, þótt þau væru orðin skammarlega lág. Eftir þeirri reglu sem fylgt hefir verið um launakjör embættismanna alment, væri það að undirboð væri haft á embættum, eins og þegar sýslur voru seldar á leigu hjer áður á öldum. Það er hugsað mest um að þurfa að greiða sem minst, en minna að því gætt, hverjir í embættin veljast. Það heyrast t. d. engar kvartanir eða kveinstafir um það, þó að mentaskólinn missi sína bestu kenslukrafta vegna þess, hve kennaraembættin eru illa launuð. Það er eins og mönnum standi alveg á sama um þess háttar stofnanir. Nú virðist kveða við annan tón í þessu máli. Það er eins og menn hafi skyndilega skift um skoðanir, og tel jeg það vel farið. Jeg býst fastlega við því, að háttv. þm. Barð. (H. K.) og aðrir verði sjálfum sjer samkvæmir og sýni sama örlætið, þegar farið verður að ákveða laun embættismanna yfirleitt.

Þá ætlaði jeg að fara nokkrum orðum um brtt. á þgskj. 279. Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir talað fyrir henni, en þrátt fyrir það, er hann taldi fram, verð jeg að telja till. mjög varhugaverða. Hún byrjar á því, að allar opinberar stofnanir og sjóðir skuli geyma fje sitt í Landsbankanum. Jeg vildi spyrja, hvort meiningin með þessari till. væri sú, að útloka Söfnunarsjóðinn. Jeg vil ekki lasta hjer lánskjör Landsbankans, og geri það ekki, þótt jeg segi eins og er, að lánskjör Söfnunarsjóðsins eru miklu hentugri. (J. P.: Þetta var ekki meiningin). Ef þetta hefir ekki verið meiningin, þá er ekki annað fyrir en að taka málið út af dagskrá og breyta þessu. Söfnunarsjóðurinn er landseign, og jeg sje enga ástæðu til að meina mönnum að geyma fje sitt í honum, þar sem það þar er algerlega trygt. Sjóðurinn er líka í góðum höndum, að minsta kosti meðan Eiríkur Briem, sem má telja föður sjóðsins, veitir honum forstöðu. Þingið velur gæslustjóra og getur haft eins mikil afskifti og eftirlit með sjóðnum og það æskir.

Hvað viðvíkur sparisjóðunum, þá fæ jeg ekki annað sjeð en þetta sje árás á þá, eins og áður hefir verið bent á af öðrum. Sparisjóðirnir fara óneitanlega á mis við fje, ef till. verður samþ., sem þeir annars hefðu fengið til umráða.

Eins og háttv frsm. (M. G.) hefir tekið fram, er það óviðkunnanlegt, að starfsmenn þess opinbera brjóti innheimtureglugerðina. Þeir eiga að senda landssjóði innheimt fje með fyrstu ferð og gera upp á hverjum ársfjórðungsmótum, og er þá eins og flm. till. gangi út frá því, að þeir brjóti reglugerðina og geymi fje hjá sjer lengur en leyft er, eða að ákvæðið er einskis vert.

Þá er síðasti liður till., sem fer fram á það, að Landsbankinn megi einn taka við tryggingargeymslufje (depositum). Mjer þykir of langt gengið með þessu ákvæði. Ef jeg geri samning við einhvern, við skulum segja að það sje háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.), og hann heimtar tryggingu fyrir því, að jeg haldi samninginn, þá má jeg ekkert annað fara en í Landsbankann með það geymslufje. Nú getur vel verið, að jeg verði að sæta þar verri kjörum en á öðrum stað eða að mjer komi það á einhvern hátt ver að hafa fjeð geymt í Landsbankanum en t. d. í Íslandsbanka. Jeg vil fá leyfi til að setja það þar, sem mjer hentar best. Það má vera, að hjer sje ekki átt við samninga milli einstakra manna, heldur milli þess opinbera og einstaklings — t. d. verkasamninga — og er þá öðru máli að gegna. En ef svo er, þá verður að taka það fram. Ef þetta, sem jeg hefi fundið brtt. til foráttu, er ekki ætlun flm., þá verða þeir að gera brtt. við brtt. sína.