03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg veit, að fjárveitinganefnd háttv. Ed. hefir fallist á frv. sjávarútvegsnefndar. Mjer þykir einkennilegt, að háttv. frsm. (M. P.) virðist ekki vera þetta ljóst, því jeg bjóst við svo mikilli samvinnu og sambandi milli nefndanna, að önnur samþykti ekki miljónafyrirtæki án þess að láta hina vita.

Jeg man ekki eftir, að háttv. frsm. (M. P.) hafi tilkynt mjer um þennan 1 milj. tekjuhalla, og jeg endurtek það, að jeg hygg, að háttv. nefnd hafi ekki gert sjer fyllilega ljóst, hvert stefndi.

Það virtist koma hálfilla við háttv. frsm. (M. P.) að jeg talaði um kjósendur í sambandi við framsóknarhug hans. Þetta voru engin lastmæli, því allir viljum við þóknast kjósendum okkar sem best. En háttv. frsm. (M. P.) vildi skifta sjer í tvent og reka burt háttv. þm. Stranda meðan háttv. frsm. talaði. Jeg er hræddur um að þingmaðurinn og framsögumaðurinn hafi fylgst að.