09.08.1919
Neðri deild: 29. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 865 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

14. mál, stofnun Landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg hefi ekki getað sannfærst af ræðu hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Jeg hygg það alveg rjett, að hjer sje verið að ganga á þann rjett, er sparisjóðir hafa. Og hv. þm. (J. B. getur ekki neitað því með sanngirni, ef hann lítur í lögin um sparisjóði.

Hv. þm. (J. B.) segir, að þetta megi nema úr lögum, ef það reynist illa. En til hvers er að setja það í lög, sem menn búast við að numið verði bráðlega úr gildi aftur?

Jeg hefi enga trú á þeirri nýung, að setja sparisjóðina undir „control“ stjórnarráðsins, enda er það óþarft. Hv. þm. (J. B.) sagði, að sparisjóðirnir væru „privat“-eign. Jeg þekki ekki dæmi þess, og veit, að þeir eru yfirleitt eign hjeraðanna, sem þeir starfa í.

Hann var að tala um, að mikið væri ávaxtað af opinberu fje í Íslandsbanka. Það er rjett, að þar er talsvert af því fje, sem Landsbankinn vill ekki hafa og þykist ekki hafa mikinn hag af. En Landsbankinn getur fengið þetta fje ef hann vill, og jeg skal hjálpa til þess.

Jeg sný því ekki aftur með það, að þessi till. er til þess að bekkjast til við sparisjóðina. (J. B.: Ósannað). Hún verður til þess, hvort sem hv. flm. ætlast til þess eða ekki.

Jeg verð að álíta, að rjett sje að ávaxta opinbert fje þar, sem bestu kjörin fást. En hjer er því ekki til að dreifa, ef skipað er að hafa það á ákveðnum stað, sem getur sett kjörin eftir vild.

Hv. þm. (J. B.) talaði um, að þetta væri varúðarákvæði gagnvart sparisjóðunum. En mjer fanst hann alls ekki færa rök að því að þess þyrfti, og jeg veit ekki til að nokkuð það hafi komið fram, er sýni að sparisjóðirnir sjeu ekki færir um sitt starf og ávaxti ekki fje manna fullforsvaranlega að öllu leyti.