11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 867 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

14. mál, stofnun Landsbanka

Einar Arnórsson:

Jeg skal ekki neita því, að hv. l. þm. Reykv. (J.B.) hefir að ýmsu leyti ofurlítið bætt till. sína frá því, sem hún var áður. Sjerstaklega er það þó bót nokkur á till., ef brtt. hv. l. þm. Eyf. (St. St.) við hana. á þgskj. 327, verður samþykt. En þrátt fyrir það sýnast mjer þó enn annmarkar á henni.

Jeg skal ekki fara út í sparisjóðina. Það hefir hv. frsm. (M. G.) tekið fram, og hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) var honum sammála. En önnur atriði brtt. vildi jeg tala lítils háttar um.

Mjer finst þetta boð í brtt. þeirra háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) alt of takmarkalaust, að „allar opinberar stofnanir og opinberir sjóðir er hafa handbært fje á sjóðvöxtum, skuli geyma það í Landsbankanum eða útibúum hans, nema sjerstakar ástæður banni“. Það er í rauninni of ótakmarkað, nema því að eins, að hv. flm. ætli að láta þessar „sjerstöku ástæður“ gleypa aðalregluna, því að það er hætt við, að oft megi finna þessar „sjerstöku ástæður“, ef menn vilja. Segjum t. d., að landsstjórnin taki miljón króna lán. Það getur þá vel komið fyrir, að þessu láni verði ekki strax varið til þeirra hluta, er á að verja því til. Þá er ekki nema gott, að landsstjórnin leggi það inn í sparisjóð Landsbankans til ávöxtunar, ef bankastjórnin vill við því taka. En ef bankastjórnin vill ekki við því taka, þá mundu þessar „sjerstöku ástæður“ koma til greina. Það eru þá altaf sjerstakar ástæður, ef bankinn vill ekki taka við fje til ávöxtunar, og eins ef hann vill ekki gjalda eins háa vexti og aðrar stofnanir. Landsstjórnin kallar það þá „sjerstakar ástæður“ og leggur fjeð inn á sparisjóð eða annarsstaðar, ef Landsbankinn geldur henni lægri vexti af fje en hún getur fengið annarsstaðar. Ef svo mikið má leggja inn í „sjerstakar ástæður‘‘, þá hafa hv. flm. bætt till. mikið. Það þýðir þá ekki að eins „praktiskar“ tálmanir, heldur og það, ef bankinn vill ekki taka við fjenu, eða aðrir bjóða betur, og það er alveg tryggilegt.

En það er eitt atriði, sem háttv. flm. brtt. hafa ekki viljað laga og háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) hefir lýst yfir hvernig á að skilja. En það er ákvæðið um, að Landsbankinn með útibúum sínum hafi einn leyfi til að taka við tryggingargeymslufje. Jeg tel það beint brot á viðskiftafrelsi manna, þegar um einkasamninga er að ræða, ef menn mega ekki geyma tryggingarfje sitt þar, sem þeim sjálfum kemur saman um og þeir telja tryggilegt. Ef A. kaupir jörð af B., og annar skal setja fje til tryggingar, þá er honum, eftir þessu ákvæði, ekki heimilt að leggja það annarsstaðar inn en í Landsbankann eða útibú hans. Nú getur staðið svo á, að hlutaðeiganda sje það miklu hentugra að leggja fjeð inn annarsstaðar, eða þeir vilji það heldur. Hvers vegna á að svifta menn heimild til þess? Jeg sje enga ástæðu til að ráðast þannig á viðskiftafrelsi manna. Þetta ákvæði um tryggingargeymslufje er alt of ótakmarkað. Undantekningarákvæðið í fyrri málslið nær alls ekki til þessa málsliðs.

Það er þó bót í till., að það er sagt, að ákvæði greinar þessarar taki ekki til Söfnunarsjóðs Íslands. En það er ekkert á móti því, að geymslufje hans sje ávaxtað í Landsbankanum, enda er honum skylt að ávaxta það þar, og jeg veit ekki betur en að hann geri það.

En svo er annað í þessu máli. Hvernig á að gefa því gætur, að menn fari ekki í kring um ákvæði þessarar greinar nokkurn veginn eins og þeim sýnist? Það má ef til vill segja, að það sje ekki næg ástæða til að fella brtt. Hún geti þó verið meinlaus. En það ber þó ætíð að athuga við hverja lagasmíð, hvort hún komi að nokkru haldi. Það er ekki vert að setja þau lagaboð, sem menn leika sjer að að brjóta, án þess að til komi refsingar eða önnur viðurlög. Hvers vegna setja hv. flm. engar sektir eða viðurlög við brotum? Ef t. d. einhver gerist svo djarfur að setja tryggingarfje inn í einhverja aðra stofnun, hvað liggur þá vi? Hvernig hafa hv. flm. ætlað sjer að girða fyrir brot? Hvernig ætla þeir að hafa eftirlitið? Það mun vera atriði, sem stendur í þeim að svara. Og þótt brot komist upp, þá eru engin viðurlög.