11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 871 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

14. mál, stofnun Landsbanka

Benedikt Sveinsson:

Það er viðvíkjandi brtt. á þgskj. 324, að jeg vil segja fáein orð, því jeg er einn af flutningsmönnum hennar. Það er ekkert nýmæli, sem hjer er um að ræða, heldur að eins árjetting þeirrar kröfu, sem komið hefir hvað eftir annað frá endurskoðendum Landsbankans, nú í mörg ár. Þeir hafa haldið því fram, að það væri ófyrirgefanlegt, að fje landsins væri geymt annarsstaðar en í Landsbankanum, þar sem hann er þjóðarstofnun. Á þingmálafundum úti um land hefir oft verið skorað á þingmenn að styðja hag Landsbankans. Hjer gefst hv. þm. tækifæri til þess, með því að samþykkja þessa till. Að vísu er þetta eitt af því, sem hefði átt að vera hægt að gera án laga, eins og hæstv. forsætisráðh. sagði; en nú hefir það ekki verið gert, og þess vegna er till. fram komin.

Hv. frsm. (M. G.) hefir haft ýmislegt að athuga við till. og þó flest smávægilegt. Ekki get jeg talið það á rökum bygt, að stjórnin mundi synja um leyfi handa sparisjóðum til að geyma fjár, þegar svo stæði á, að nauðsyn bæri til. Enda mundi bankastjórn ekkert hafa við það að athuga, þótt slíkar undantekningar væru gerðar, t. d. þar sem staðhættir bönnuðu að senda fjeð bankanum, eða þar sem ekki svaraði kostnaði að senda fjeð, vegna þess að það væri svo lítið.

Frsm. (M. G.) hjelt því fram, að hjer væri haggað við rjetti, sem sparisjóðirnir hefðu haft, og leiddi það af sjer breytingu á núgildandi lögum, en jeg sje ekki, að til þess þurfi að koma, því að eldri ákvæði hljóta að falla úr gildi af sjálfu sjer fyrir yngri ákvæðum síðari samþ.

Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um, að það mundi verða hægt að fara kring um lögin. En hvaða lög eru það hjer í landi, sem ekki er hægt að fara í kring um? Jeg held, að hv. þm. (E. A.) mundi eiga bágt með að benda mjer á mörg slík. Býst jeg við, að þeir fjelagar, sem gefa út íslenskt lagasafn, hann og Einar Gunnarsson, mundu þá geta verið fljótir að gefa út rit sitt, Íslensk lög, ef að eins ætti að prenta þar þau lög, sem ekki er hægt að fara í kring um.

Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) vildi ekki viðurkenna rjettmæti till. Hugði; að bankinn mundi láta misbeita henni. En þar sem stjórnarráðið mundi að sjálfsögðu fella úrskurð um það, ef bankinn færi út fyrir leyfileg takmörk, sje jeg ekki ástæðu fyrir hæstv. forsætisráðh. (J. M.) að vera á móti till. Stjórnin getur altaf slegið varnaglann við því, að bankinn gangi of langt. Jeg er hjer alveg á sama máli og háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) uni það, að hjer er alls ekki verið að fá bankastjórninni í hendur vald til að fara með annara fje með afarkostum fyrir viðskiftamenn hans. Það er fjarri því, að svo sje, heldur er hjer að eins um till. að ræða, sem fram er komin vegna undangenginnar reynslu, og því full þörf á að samþ., til þess að tryggja bankanum þau sjálfsögðu rjettindi, sem hann þarf að njóta.