11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 873 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

14. mál, stofnun Landsbanka

Jörundur Brynjólfsson:

Það er nú þegar búið að ræða mikið um þetta mál, enda skal jeg að eins drepa á fátt eitt.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) lítur svo á, að með brtt. okkar sje heft persónufrelsi manna. Það er rjett, að svo er, en slíkt er ekkert einsdæmi um þessi lög, fremur en svo fjöldamörg önnur. Ákvæði till. eru nægilega skýr, því það er ljóst tekið fram, að þegar mikil nauðsyn ber til að leggja fje inn annarsstaðar en í Landsbankann, þá sje það heimilt. Forsætisráðh. (J. M.) ljet það í ljós, að till. mundi vera stíluð gegn Íslandsbanka. Skal jeg viðurkenna það hreinskilningslega, að sú tilgáta hans er alveg rjett. Íslandsbanki hefir ávalt meira og minna fje til geymslu, sem hvergi á annarsstaðar heima en í Landsbankanum, Hefi jeg aldrei farið í felur með það, að jeg álít, að því eigi að kippa í lag. Landsstjórnin hefir haft alveg óbundnar hendur með það, hvar hún hefir geymt opinbert fje og hún getur, hjer eftir sem hingað til, eins tekið lán hjá Íslandsbanka, hvort sem hún geymir þar nokkuð eða ekki. Till. kemur ekkert í veg fyrir það. Það hefir þrásinnis verið skorað á landsstjórnina að ávaxta fje ríkisins í Landsbankanum. Og þó hefir það verið svo, að stórar fjárhæðir hafa verið í Íslandsbanka, sem áttu heima í Landsbankanum, án þess að stjórnin hafi gert nokkuð til að koma fjenu á rjettan stað. Jeg minnist þess, að þegar verið var að auka seðlaútgáfu Íslandsbanka árið 1917, var sagt, að Íslandsbanki gæti sagt upp lánum til landsstjórnarinnar, eitthvað um 2 miljónir minnir mig, ef takmarkanir yrðu gerðar þá á útgáfurjettinum. Vissi jeg þó ekki betur en lánin hefðu verið þannig af hendi látin, að það hafi verið hrein verslun, án nokkurra sjerstakra skilyrða af bankans hálfu. En stjórnin hefir nú altaf hagað sjer fremur undarlega gagnvart þessari peningastofnun, og þess vegna sá jeg heldur ekki, að bein áskorun til stjórnarinnar mundi koma að nokkru gagni til að kippa í lag þessum mistökum, heldur þurfi til beint samþykki þingsins, beinlínis lög. Því þótt landsstjórnin sje svona stimamjúk við Íslandsbanka, þá virðist mjer hann ekki sjá það mikið við hana.

Með brtt. á þgskj. 327 er búið að laga aðalgallann, sem hv. frsm. (M. G.) þótti á till. okkar, en þó sú brtt. verði samþ., kveðst hann ekki geta verið með till. okkar. Þótti mjer fyrir því, einkum þar sem átylla hv. þm. til að vera á móti till. er þá úr sögunni.