25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 889 í B-deild Alþingistíðinda. (582)

14. mál, stofnun Landsbanka

Fjármálaráðherra (S. E.):

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) þóttist hafa fundið ósamræmi í ræðu minni. Jeg taldi það eðlilegra, að opinberir sjóðir væru allir geymdir í Landsbankanum. Landsbankinn hefir líka forgangsrjettinn að þeim samkvæmt brtt. „Að öðru jöfnu“ á að geyma þá í Landsbankanum. Nú hefir embættisbróðir minn, atvinnumálaráðherrann, sem samkvæmt stöðu sinni hefir manna best vit á þessum málum, lýst yfir þeirri skoðun sinni hjer í deildinni, að „praktiskt“ sjeð muni gilda einu, hvort brtt. verði samþykt eða feld. Það er ekki hægt að búa til neinn þjóðarhvell úr þessari tillögu; það er jeg sannfærður um. Reyndar stæði mjer á sama, þó að svo yrði. Jeg er ekki hræddur. Eftir brtt. eru þeir, sem ráða yfir opinberum sjóðum, óbundnir, ef Íslandsbanki býður betri vaxtakjör en Landsbankinn. Þeir vilja auðvitað útvega sem besta vexti af fje því, sem þeim er falið. Jeg teldi það ekki illa farið — heldur þvert á móti af hinu góða — ef brtt. gæti átt einhvern þátt í, að bankarnir hækkuðu innlánsvexti dálítið, en lækkuðu aftur útlánsvexti, sem öllum þykja fullháir. Það væru góðar afleiðingar. Jeg þykist nú hafa fært rök fyrir, að ekkert ósamræmi á sjer stað milli þeirrar stefnu minnar, að gera Landsbankann sem voldugastan, og fylgis míns við breytingartillöguna.