25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 890 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

14. mál, stofnun Landsbanka

Magnús Torfason:

Jeg tek til máls sem einn af hluthöfum Íslandsbanka. Fyrir óheppilegan málaflutning utan þings og innan hefir bankinn ófyrirsynju verið dreginn inn í allharðar umræður, sem betur hefðu verið óhaldnar. Bankanum er áreiðanlega best að fá að lifa og starfa í friði, og enn sem komið er hefir hann ekkert af sjer brotið. Það ákvæði frumvarpsins, sem mestur ófriður hefir stafað af, er ekki svo víðtækt, að þess vegna sje ástæða til að sporna við því, að frv. gangi fram óbreytt. Og sakir Íslandsbanka tel jeg rjettara að fella brtt., eins og nú er komið málinu. Það er alkunna, að Íslandsbanki reiknar út vexti tvisvar á ári. Það verður því eilítill munur á vaxtakjörum bankanna, af því að Íslandsbanki borgar vaxtavexti síðara missirið. En þó að þetta nemi engu, sem munar, er það nóg til þess, að Landsbankinn verði af forrjettindum sínum gagnvart Íslandsbanka, nema hann taki upp samskonar vaxtareikning og hann. Frá sjónarmiði Íslandsbankamanna hefði því verið hreinast að koma með brtt. um að þurka greinina út.

Það, sem jeg á bágast með að skilja, er það, hverjir nú berjast á móti því, að Landsbankinn sje styrktur, því það eru einmitt stífustu bændastytturnar, sem hafa mælt með brtt. Þetta er furðulegt, Landsbankinn er fyrst og fremst fateignabanki, og hjer eru atburðir hafðir til að gera Landsbankann færari um að veita lán út á fasteignir. Slík lán eru vaxtalægri, kostnaðar- og fyrirhafnarmeiri fyrir bankana en önnur lán, og þeim er ætlað að standa um langt árabil. Sakir þessa er nauðsynlegt, að bankinn fái sem mest af fje, sem geymast á þar langdvölum. Og það hafði jeg haldið, að þeir menn, sem þykjast bera landbúnaðinn á örmum sjer, mundu fyrir engan mun spyrna gegn því, að bankinn fengi sem mest af slíku fje.

Það hefir verið haft á orði, að ekki væri örvænt um, að Landsbankinn notaði sjer þennan forrjett á þann hátt, að hann borgaði lægri vexti af opinberu fje en ella væri kostur á. Þetta er hreint og beint ósvífin aðdróttun. Því að stjórn Landsbankans verður hagað eftir því, sem stjórnin vill vera láta. Af þessu getur því engin hætta stafað. Auk þess hljóta opinberir sjóðir að sæta sömu kjörum og einstaklingar. Eins og till. er orðuð, gæti hún stuðlað að kapphlaupi milli bankanna um fjeð, en það yrði til tjóns fyrir jafnfátækt land, er helst af öllu skortir starfsfje. Því þegar innvextir hækka, verða útvextirnir einnig hærri, og er það síst fallið til að lyfta undir atvinnuvegi vora. Væg vaxtakjör er áreiðanlega heppilegust fyrir landið.

Því hefir verið haldið fram, að Landsbankinn gæti skaðast á að hafa inni stórfje um stuttan tína. Jeg er að vísu ekki bankafróður maður, en mjer er þó kunnugt um, að Landsbankinn hefir einmitt sókst eftir slíkum viðskiftum, og skil jeg ekki í, að hann gerði það, ef hann biði tjón af; býst jeg við, að hann kunni fótum sínum forráð í því efni.

Þá hefir verið sagt, að Landsbankinn hafi ekki getað fullnægt kröfum landsins. Má vel vera að svo sje, en jeg vil biðja menn að minnast þess, að það var Íslandsbanki, sem fjekk aukinn seðlaútgáfurjett, og að nú er stríðinu lokið, svo bankinn stendur nú betur að vígi.

Enn fremur hefir verið haldið fram, að Íslandsbanki mundi tregari til að lána því opinbera, ef frv. þetta yrði að högum óbreytt.

Jeg verð gagnvart því, eins og hv. 2. þm. G.-K. (K. D.), að halda fram, að það sje bein skylda bankans að veita stjórninni lán til nauðsynlegra framkvæmda, því auk hlunninda þeirra, sem hann hefir fengið beinlínis í því skyni, starfar hann að töluvert miklu leyti með innlendu fje. Ef hjer væri að ræða um algerlega útlendan privatbanka, væri nokkuð öðru máli að gegna. Jeg veit heldur ekki til, að Íslandsbanki hafi nokkurn tíma gert sig sekan í slíku atferli; þvert á móti verið landsstjórninni mjög innan handar í lántökum hennar.

Það er og vitanlegt, að Þjóðbankinn danski, sem þó er hlutafjelagsbanki, en ekki ríkiseign, nýtur sömu rjettinda og hjer er farið fram á fyrir hönd Landsbankans. Þegar af þessari ástæðu ætti það að segja sig sjálft, að frv. væri samþykt óbreytt.

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) þykir óviðkunnanlegt að fá lán í Íslandsbanka, sem svo sje lagt inn í Landsbankann; en það er ekki annað en það, sem privatmenn gera oft og einatt. Það er afaralgengt, að menn taki lán í öðrum bankanum og leggi það inn á hlaupareikning í hinum.

Þá verð jeg að játa, að jeg get ekki skilið, að hæstv. fjármálaráðherra þurfi að knýja á hjá Íslandsbanka til þess að fá lán, rjett eins og hann væri einhver beiningamaður eða gustukamaður. Jeg hjelt að þegar landssjóður fengi lán með sömu kjörum og einstaklingar, gæti það ekki talist greiði, eigi ver statt en landið er nú, heldur ætti Íslandsbanka að vera sómi í að veita lánið; auk þess er alkunnugt, að það eru helst stóru viðskiftin, sem bankarnir sækjast eftir.

Það eru að vísu falleg orð að bera á vörunum, að það eigi að styrkja Landsbankann, en jeg gef lítið fyrir þau, þegar tillögurnar, sem þeim eru samfara, gera það ekki. En við vitum líka, til hvers fögru orðin stundum eru notuð.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P.) þarf jeg ekki að svara, því honum er fullsvarað með því, sem hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) og jeg höfum þegar sagt.