25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

14. mál, stofnun Landsbanka

Fjármálaráðherra (S. E.):

Ummæli hv. þm. um getsakir af minni hálfu í garð Íslandsbanka eru hreinasta fjarstæða. Jeg hefi sagt, að stjórnin hafi ekki getað fengið lán í Landsbankanum og því orðið að fara í Íslandsbanka. Eru það getsakir.

Þar sem háttv. þm. var að undrast það, að jeg hefði ekki hreyft andmælum gegn þessu máli í hv. Nd., þá er því til að svara, að þegar málið var þar á ferðinni, var vel um það sjeð, meðal annars af hv. þm. Ísaf. (M. T.) sjálfum, að jeg hefði nóg að gera hjer í deildinni við að tala um síldartoll o. fl.

En í mínum augum er þetta fremur smámál, svo að jeg hefði ekki fundið ástæðu til þess að hafa endaskifti á himni og jörð út af því, þegar það var til umr. í hv. Nd., þó jeg hefði átt kost á því. Því jeg skoða þetta mál ekki, eins og hv. þm. Ísaf. (M. T.), sem einhvern öruggan bjarghring í ólgusjó fjármálakafsins, sem bjargað geti hverjum sökkvandi þingmanni, sem fylgi því, í kosningabrimi kjördæmis síns. (M. T.: Við skulum láta skáldskapinn liggja.)

Og jafnvel þó brtt. verði feld, mun jeg greiða atkv. með frv., og held jeg svo, að það sje óþarfi að fara fleiri orðum um þetta. (Forseti: Það held jeg líka).