03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Sveinn Ólafsson:

Jeg á enga brtt. við þennan kafla fjárlaganna, og þarf því ekki að tala lengi. En af því að allir, sem mælt hafa móti till. háttv. fjárveitinganefndar, hafa gengið fram hjá einu atriði, sem mjer þykir athugavert, þá gat jeg ekki orða bundist.

Það kann að orka tvímælis, hvort nefndin hefir ekki verið full örlát á fje, en ekki skal jeg álasa henni fyrir þennan kafla, því að þar sem hann lýtur aðallega að verklegum framkvæmdum, framkvæmdum sem óumflýjanlegar eru, get jeg sjeð í gegnum fingur með henni, þótt ríflega sje veitt.

En það er eitt atriði, sem ekki á hjer heima. Það er í 12. gr. 17. h., b-liðurinn, styrkur til sjúkrasjóðs Maríu Össurardóttur, 1000 kr. í eitt skifti. Þetta er að vísu ekki stór upphæð, en hún á alls ekki við hjer og er gersamlega óþörf.

Sjóður þessi er stofnaður til minningar um látna sæmdarkonu, og er það ekki nema fallega gert að halda uppi minningu hennar En jeg get ekki sjeð, að við höfum ráð á að veita fje til slíkra hluta. Þess ber að gæta, að hjer kallar engin nauðsyn að. Sjóðurinn er orðinn um 1300 kr. og tekur til starfa þegar hann nær 2000 kr. Honum á að verja til hjúkrunarstarfa í hreppi sem er líklega betur stæður en nokkur annar hreppur landsins, Mosvallahreppi í Önundarfirði.

Hreppur þessi þáði fyrir fáum árum stórhöfðinglegar gjafir af auðmanni einum, og eru af þeim stofnaðir sjóðir, sem standa undir fátækraframfæri hreppsins og vegaviðhaldi. Hreppurinn kemst því miklu ljettar frá öllum sveitargjöldum en aðrir hreppar landsins og hefir því öðrum fremur hæg tök á því að efla þennan styrktarsjóð þegar hann vill. Nær hvarvetna á landinu mundu hrepparnir hafa meiri þörf slíkrar hjálpar en þarna.

Það lítur helst út fyrir, að þessum minningarsjóðsstyrk sje smeygt inn í till. nefndarinnar af því einu, að hreppur þessi liggur í hjeraði eins af háttv. nefndarmönnum.

Jeg gæti látið hjá líða að minnast á fleiri liði, þótt jeg raunar finni ýmsar misfellur. Samt vil jeg minnast á einn lið enn, þótt ekki sje það til að áfella nefndina.

Það er 64. liður í till. hennar, athugasemdirnar um vitabyggingarnar fyrir austan. Þessi till. nefndarinnar er að eins til þess að leiðrjetta mistök, sem orðið hafa í stjórnarfrv.

En þar sem hjer er um heilan flokk vita að ræða, sem þó hafa mismunandi mikla þýðingu, þá þykir mjer það miður, að þeim skuli vera skotið á frest til síðari hluta fjárhagstímabilsins, sem brýnust er þörfin á. Jeg á hjer við Berufjarðarvitana.

Það er enginn efi á því, að þær vitabyggingar mundu borga sig fljótt, og mun jeg til 3. umr. koma með brtt. um, að þeir verði færðir yfir á fyrra árið.

Annars mun fæstum háttv. nefndarmönnum kunnugt um það, hvernig til hagar þar eystra; ella vænti jeg, að þeir hefðu betur skilið nauðsyn vitabygginga þarna. En þeir, sem til þekkja, vita, að Berufjörður er þar þrautalending, og þó mjög hættuleg að vetrarlagi vegna skerjóttrar innsiglingar, en án þess að eiga þar nokkurn veginn vísa höfn með auðrataðri siglingaleið er tæpast hægt að byggja á vetrarvertíð fyrir Austfirðinga eða hættulitlum strandferðum fram með þessum hluta strandarinnar að vetrarlagi. Vitalýsing þar ætti því ekki að dragast árinu lengur.