16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 913 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

18. mál, fasteignamat

Guðjón Guðlaugsson:

Jeg er fullkomlega þeirrar skoðunar, að hjer sje um mikið vandaverk að ræða og svo yfirgripsmikið, að jeg fæ ekki skilið, að því verði lokið fyrir 1. júlí 1920, ef svo fer sem mig grunar að matið sje nokkuð mislitt, lýsingar ónákvæmar og matið ósennilegt. Ef svo fer gefur það að skilja, að mikið verk verður að yfirfara matið í öllum sýslum og breyta því, svo að til batnaðar sje. Það er mjög líklegt, að ef vel hefði átt að vera. þá hefði yfirmatsnefnd þessi þurft að ferðast um landið; en vafasamt er, hvort úr þessu verður bætt hjeðan af, með því að í óefni er komið. Þetta hefði átt að athugast betur þegar í upphafi. Þá hefði átt að skipa þriggja manna nefnd, sem ferðast hefði um landið og unnið að matinu. Jeg tel það siðferðislegan ábyrgðarhluta, sem kastað er á þessa nefnd, ef henni er ætlað að breyta matinu, þar sem þó yfir- og undirmatsnefnd hefir fjallað um hvert einasta mat í hverri sýslu. Jeg get trúað því að svo kunnuga menn megi finna, að þeir geti með samanburði ákveðið mat í svo sem tveimur eða þremur sýslum án ferðalaga, en jeg trúi því ekki, að fimm menn sje hægt að finna svo kunnuga, að þeir geti á sama hátt ákveðið mat á öllum jarðeignum landsins. Mjer kæmi það ekki á óvart, þótt sumar undirmatsnefndirnar kynnu að spýta mórauðu, er þær sæju gerðir slíkrar nefndar. Það væri vafasamt, hvort rjett væri af stjórninni og nefndinni að setja einskorðaðar reglur hjer að lútandi en ýmislegt er þó, sem taka má til greina með tímanum. Það er þá fyrst, hverjar breytingar hafa verið gerðar á matinu. Víðast hvar hafa yfirmatsnefndir staðfest mat undirnefnda, en þó eru til sýslur þar sem matinu hefir verið breytt, en vafasamt, að hve miklu leyti það er til bóta. Hjer yrði þá spurningin um það, hvort leggja ætti til grundvallar undirmat eða yfirmat. Flestar jarðir hafa hækkað í mati um ½ eða og margar tífalt, fimtugfalt og jafnvel hundraðfalt. Jeg get nefnt jörð sem var 3,9 hundruð, en komst í 70 hundruð, og höfðu þó engin hlunnindi komið upp sem sjerstaklega höfðu gert jörðina verðmeiri. Aðra jörð gæti jeg nefnt, sem komst úr 3 eða 4 hundr. upp í 400 eða 500 hundr., en til þess var sjerstök ástæða, sem sje síldveiði.

Þegar mat hefir verið framkvæmt af nefndum, sem ferðast hafa um alla sýsluna og leyst starf sitt af hendi með fullri samviskusemi, þá er mjer til efs, að taka beri meira mark á sleggjudómum einhverrar yfirmatsnefndar, sem situr hálfan mánuð á einhverri skrifstofu, því að vitanlega yrði hjer um skrifstofustarf að ræða. Væri henni sjálfsagt hentast að fara varlega í sakirnar og hafa það hugfast að leggja ekki of þungan dóm á, eða heimta of mikið.