16.08.1919
Efri deild: 32. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 918 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

18. mál, fasteignamat

Guðmundur Ólafsson:

Mál þetta er og verður mesta vandamál. Hæstv. atvinnumálaráðh. (S. J.) fanst það óheppilega orðað að tala um að endurskoða og samræma lögin, en mjer finnast þau orð svo skýr, að það sje alls ekki hægt að misskilja þau. Að endurskoða er að aðgæta grandgæfilega það, sem gert hefir verið, og að samræma eða að koma rjettu hlutfalli á mat jarðanna, bæði innan hvers einstaks sýslufjelags og milli sýslufjelaganna. Orðið samræma gefur alls enga ástæðu til að líta svo á, að ætlast sje til, að mat fasteigna hækki eða lækki yfirleitt, heldur að það verði lækkað þar, sem það er nú hæst en hækkað þar sem það er lægst.

Hv. 4. landsk. þm. (G. G.) taldi það vera vandaverk sem lægi fyrir landsnefndinni og er jeg honum fyllilega samdóma um það og jeg býst við því, að hverjir sem til þess verða skipaðir, verði matið aldrei gallalaust en jeg er þess fullviss, að ef hann hefði kynt sjer matsgerðir þær sem fyrir liggja þá myndi hann skjótlega sannfærast um það, að það sje ekki úr háum söðli að detta og að það megi telja víst að landsnefndin geti trauðla verið svo ljeleg, að þar sje ekki verulegra bóta að vænta. Það hefir líka komið fram í umr., að flestir hv. þm. eru samdóma um þetta. Það hefir raunar komið í ljós hjá sumum hv. þm., að matið hafi ekki batnað hjá yfirmatsnefndunum, og svo lítur nefndin á, og ef það er rjett.

þá ætti þessi leið að geta verið hættuleg, en jeg hygg að það þurfi ekki að reynast svo, því að „til þess eru vond dæmi, að varast þau‘‘. Margar fasteignamatsnefndir hafa ferðast um og skoðað jarðirnar og þar sem svo hefir verið ætti matið að vera gott eða vel viðunanlegt en ósamræmið milli sýslufjelaganna hverfur þó ekki. En nú leikur grunur á því að sumar matsnefndirnar hafi framkvæmt matið eftir skriflegu upplýsingunum einum, ekki sjálfar skoðað fasteignirnar, og er þar tæpast við rjett látu mati að búast. Það er ljóst, að það verður að lagfæra matið, og landbúnaðar nefndin fann ekki aðra leið heppilegri til þess en þessa.

Ekki er jeg samþykkur ummælum háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) um jarðamatið 1861, hygg að það hafi verið sæmilegt á þeim tíma, þótt nú sje það úrelt orðið.

Í nál. er sagt, að matið hefði orðið miklu betra hefði matssvæði hverrar matsnefndar náð einungis yfir einn hrepp, heldur en þegar það nær yfir heilt sýslufjelag, en jeg taldi þetta svo lítilfjörlegt atriði í nál., að jeg skrifaði undir það fyrir það, en nota nú tækifærið til að mótmæla því.

Hv. 1. þm. Rang. (E. P) vildi halda því fram að maður suður í Gullbringusýslu gæti ekki haft hugmynd um rjett mat á jörðu norður í Strandasýslu Þetta er ekki rjett. Ef lýsingin á jörðinni er góð og greinileg að öllu leyti, hæfileg áhöfn sett og þörf mannafla til heyskapar sömuleiðis, er sama hvar matsmaðurinn er búsettur. Mestur mismunur er á húsalýsingunum, þær eru ágætar úr Dalasýslu, en annars eru kostir og gallar jarðanna víðast teknir skýrt fram. Þar hefir vitanlega verið farið eftir umsögn ábúandans og svo eigin sjón matsmanna. Ef þeir hafa gefið lýsingar þessar án þess að ferðast um og skoða jarðirnar, þá hafa þeir ekki leyst starf sitt samviskusamlega af hendi, en þar sem jeg þekki til gerðu þeir það.

Eins og matið er nú, er það með öllu ófær skattagrundvöllur, og það verður því að reyna að bæta það, og þetta er eina leiðin, sem fram hefir komið til þess. Og nefndaskipunin mistekst mjög, ef það batnar ekki.