03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Gísli Sveinsson:

Það voru að eins fá orð út af ræðu háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Mjer finst, að við ættum ekki að bera þá umhyggju fyrir fjelagi þessu, að við þurfum að vera að íhuga sjerstaklega, hvort það græðir eða tapar, — að eins ef það getur rekið ferðirnar sæmilega.

Annað var, sem háttv. þm. (Þór J.) talaði um, hvað fjelagið hefði boðið, meðan það hafði alt stóra svæðið undir. En á það ber ekki að líta, heldur hitt, hvað það býður nú, á hinu minna svæði.

Og nú býður það að halda uppi öllum vetrarferðum og sumarferðum, að mestu með stóru skipi, og að auki með skipi ámóta við „Skjöld“.

Háttv þm. (Þór. J.) sagði, að það væri vitanlegt, að með slíku skipi sem „Skildi“ væri fullnægt flutningaþörfinni, en það er alls ekki rjett. Flutningaþörfinni er alls ekki fullnægt enn í dag með slíku skipi.

Háttv þm. (Þór. J.) sagði líka, að Eimskipafjelag Suðurlands hefði aldrei ætlað sjer að láta stærra skip annast Borgarnesferðirnar. En það er ekki heldur rjett.

Fjelagið hefir einmitt boðist til að annast allar ferðirnar að kalla má, með þessu stærra skipi, svo sem jeg gat um.