28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

18. mál, fasteignamat

Pjetur Þórðarson:

Þótt jeg hafi undirskrifað nál. landbúnaðarnefndarinnar með fyrirvara, þá er það fremur vegna þess, hve fljótt og rannsóknalítið nefndin afgreiddi málið, og af því að jeg vildi láta athuga það nánar en tími vanst til, en vegna hins, að jeg ætli að athugasemdir mínar leiði til annarar niðurstöðu en frv. fer fram á.

Aðallega munu hafa verið tvær ástæður til þess, að lögin um fasteignamat frá 1915 voru sett.

Í fyrsta lagi var gamla fasteignamatið orðið svo úrelt, að það var vandræðum bundið að verða að fara eftir því lengur, að því leyti sem skattar byggjast á því, svo sem er um ábúðarskatt til landssjóðs og gjald til sýslusjóða. Það er nú orðið nær 50 ára gamalt, en með hverju árinu sem líður hækka skattarnir.

Í öðru lagi mátti búast við því, að nýtt mat mundi auka tekjur ríkissjóðs, því að sjálfsögðu mundi það verða að miklum mun hærra en hið gamla. Eins og nú er, missir ríkissjóður árlega nokkra tugi þúsunda af tekjum vegna gamla matsins.

Nú hefir það komið í ljós, að fasteignamatslögin frá 1915 náðu ekki þessum tvennskonar tilgangi sínum svo fljótt, sem tilvar ætlast í lögunum sjálfum, vegna þess hve matið drógst von úr viti. Varð stjórnin því að setja bráðabirgðalög til að framlengja frestinn fyrir því, hve nær matinu ætti að vera lokið, en nú eru tveir mánuðir síðan að sá framlengdi frestur var á enda. Þó vantar enn þá yfirmatsskýrslur úr Suður-Múlasýslu, Ísafjarðarsýslu og Gullbringu- og Kjósarsýslu. Það getur því dregist töluvert enn, að málinu sje lokið og hægt verði að fara eftir nýja matinu í framkvæmdinni. Jeg hygg að ef lögunum um fasteignamat hefði verið framfylgt eins og vera bar, þá hefði þetta þing getað leitt málið til lykta og engan veginn unt að fá gleggra yfirlit yfir misfellurnar en meðal þingmanna sjálfra, sem margir hafa tekið þátt í matinu, og aðrir kunnugir stórum svæðum landsins og jafnvel um land alt, í stað þess, að stjórnarráðið fari nú að skipa nýja yfirmatsnefnd, sem auðvitað hefir ærinn kostnað í för með sjer. En eins og komið er, virðist þetta næstum óhjákvæmilegt, en þá vil jeg líka um leið beina þeirri athugasemd til stjórnarinnar, að hún leggi mikla áherslu á, að ekki dragist úr hófi fram að fá yfirmatsskýrslurnar inn úr þeim sýslum, sem enn eiga óskilað. Nefndirnar verða að skila plöggum sínum hið fyrsta, svo væntanleg yfirmatsnefnd geti tekið þegar til starfa. Því það er búið að draga málið lengur en æskilegt er.

Um verksvið hinnar væntanlegu landsnefndar er það eitt sagt í frv., að hún eigi að endurskoða og samræma hið nýframkvæmda mat allra fasteigna í landinu. Þetta virðist mjer nokkuð óákveðið til orða tekið, og má skýra það á ýmsan hátt. Mundi ekki veita af, að einhver skýring fylgdi á því, hvað meint er með þessu, ,,að samræma matið“. Jeg hefði t. d. talið æskilegt, að nefndin hefði ekki heimild eða vald til að hækka hæsta matið úr því, sem það er komið hjá yfirmatsnefndunum. (P. J.: Á þá ekki að meta rjett?). Getur hv. þm. (P. J.) þá sagt mjer, hvað rjett mat er og hvað ekki? Og ef yfir- og undirmatsnefndum hefir ekki tekist að meta rjett. þá efast jeg um að þessari væntanlegu yfirnefnd takist það mikið betur.

Svo er spurningin um, hvort tvær fasteignir sem samkvæmt verðmæti sínu virðast vera jafnar að gæðum, eigi að vera jafnar í mati, hvar sem er á landinu. T. d. ætti að vera nokkur munur á jörð í Skaftafellssýslu og Árnessýslu, þó báðar sjeu líkar að gæðum. Sama er að segja um hús og lóðir í kaupstöðum. Að sjálfsögðu er rjett að taka tillit til þess, hvort fasteignin er í Reykjavík eða t. d. í Stykkishólmi eða Vík í Mýrdal.

Auk þess er það fleira en jarðamatið sjálft, sem þessi væntanlega nefnd þarf að athuga. t. d. ýms fasteignarjettindi og grundvallarreglurnar fyrir því, hvernig ýms hlunnindi á jörðum hafa verið metin.

Svo vil jeg að endingu ítreka þá ósk mína, að ekki verði látið dragast að koma fasteignamatinu í kring sem fyrst.