28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (659)

18. mál, fasteignamat

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg vildi að eins benda á, að matsskýrslur eru nú komnar frá nálega öllum matsnefndum í landinu, svo að eftir munu ekki vera nema að eins fjórar og er sjálfsagt að ganga eftir þeim sem fyrst. Er ekki ástæða til að ætla, að sú innköllun tefji nokkuð málið að ráði.

Um það, hvernig skilja eigi orðalag frv. hvað snertir starfsvið væntanlegrar nefndar, skal jeg taka það fram, að jeg hefi aldrei verið í vafa um, hvernig skilja bæri orðin: ,,að endurskoða og samræma hið nýframkvæmda mat“. Í þessum orðum felst að nefndin megi hækka og lækka alt matið og þá einnig hækka sumar jarðir og lækka aðrar. Væntanlega verður aðalhlutverkið að finna samræmið á milli hjeraðanna, því á því mun enginn vafi, að þar munu mestu misbrestirnir vera á matinu. Aftur má fremur gera ráð fyrir, að samræmi sje á matinu innan hvers hjeraðs. Ósamræmið milli hjeraðanna er ljóst og sýnilegt, að það hafa verið brúkaðir mismunandi mælikvarðar. Mætti t. d. benda á matið í Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu. Þau hjeruð liggja, eins og kunnugt er, hvort við hliðina á öðru, en þó var matið langtum hærra í Borgarfjarðarsýslu, enda lækkaði fjár matsnefndin matið þar um 10%, en hækkaði í Mýrasýslu um 10%.

Að gefnu tilefni skal jeg taka fram, að að sjálfsögðu hefir lega jarðann afarmikil áhrif á verðmæti hennar, og er það svo ljóst, að vart þarf að taka það fram.