03.09.1919
Neðri deild: 53. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1920 og 1921

Frsm. samvinnunefndar samgöngumála (Björn R. Stefánsson):

Jeg kemst ekki hjá að standa upp og svara fyrirspurn hv. þm. A.-Sk. (Þorl. J.). Hann var að mótmæla því að nú væri svo gengið frá strandferðum hjer við land að Hornafjörður væri betur settur en áður. Áður voru þó „Sterling“ að eins ætlaðar þrjár ferðir að ósnum en nú er góðu skipi ætlað að koma þar sex sinnum inn á fjörðinn. Hvað snertir ferðir Eimskipafjelags Suðurlands, þá liggja fyrir tillögur um það hjá nefndinni og hefi jeg athugað þær nokkuð, þótt jeg hafi ekki enn getað komið með ákveðnar áætlanir um þær.

Hv. formaður samgöngumálanefndar (Þór. J.) hefir svarað því, sem svaravert var í ræðum þeirra hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) og annara þeirra, sem styðja hv. minni hl. Jeg skal því alveg sleppa þeim.